Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 15:55:40 (2321)

2003-11-28 15:55:40# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er komið að lokum umræðu um fjáraukalög fyrir þetta ár og ég vil færa öllum sem hafa lagt hönd á plóg við að koma því máli áfram hér í þinginu kærar þakkir fyrir þeirra framlag, ræðumönnum hér og nefndarmönnum í fjárln. sérstaklega.

Hér hafa komið fram nokkrar spurningar sem m.a. hefur verið beint til mín og ég vil reyna að víkja að í stuttu máli. Síðan vildi ég segja nokkur orð almennt um frv. og um þau vinnubrögð sem um meðferð þess gilda.

Fyrst varðandi framkvæmdir á Vífilsstöðum sem hv. þm. Jón Gunnarsson spurði réttilega um fyrr í umræðunni. Mér hafa borist eftirfarandi skýringar sem eru árétting á því sem hv. formaður fjárln. sagði um þetta mál. En ég vil gjarnan koma því á framfæri:

Í samræmi við tillögur samráðshóps stjórnvalda og Landssambands eldri borgara var á síðasta ári ákveðið að hefja rekstur hjúkrunarheimilis í húsnæði Vífilsstaðaspítala þegar á árinu 2003. Í fjáraukalögum ársins 2002 var ákveðið að verja 130 millj. kr. til að gera nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæðinu, en miðað var við að einungis yrði um lágmarkslagfæringar á þessu húsnæði að ræða. Af þeim sökum var mikil óvissa um hver heildarkostnaður yrði, einkum vegna hugsanlegra krafna frá brunamálayfirvöldum, ferlinefnd fatlaðra, Rafmagnseftirliti, Vinnueftirliti og byggingarnefnd. Á daginn kom að gerðar voru auknar kröfur til húsnæðisins, svo sem um breidd dyraopa og útgönguleiða og fleira þess háttar, sem kölluðu á mun meiri tilfæringar og lagfæringar heldur en ráðgert hafði verið. Þegar til framkvæmda kom var ljóst að umfang breytinganna og endurbótanna yrði mun meira en upphaflegar lágmarksbreytingar hefðu kallað á og má rekja þetta til krafna, vafalaust eðlilegra krafna, um öryggi og aðbúnað í húsnæðinu. Að teknu tilliti til þeirra var kostnaður við breytingar og endurbætur á húsnæðinu endurmetinn og nú áætlaður 290 millj. kr. Í stað þess að falla frá verkefninu sem auðvitað hefði komið til greina var ákveðið að ráðast í þessar breytingar miðað við nýja kostnaðaráætlun og nýta það fé sem ella hefði farið í rekstur til að standa undir þessari fjárfestingu. Þessar auknu kröfur um breytingar á húsnæðinu höfðu það í för með sér að eigi varð unnt að hefja rekstur í húsnæðinu fyrr en í lok þessa árs. Þar af leiðandi var til ráðstöfunar rekstrarfjárveiting sem nú er lagt til að varið verði í samræmi við breytingartillögu hv. formanns fjárln. sem hann gerði grein fyrir hér áðan, en einnig var hluta af rekstrarfjárveitingunni varið til að koma á fót bráðabirgðainnlögnum á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi til að fjölga hjúkrunarrýmum í samræmi við það samkomulag sem gert var við eldri borgara.

Þetta eru skýringarnar, herra forseti. Ég er ekki að segja að þær séu nægilega góðar. En þær eru þessar. Auðvitað má að því finna hversu losaraleg áætlun var í gangi hér í fyrra þegar menn héldu að hægt væri að koma hjúkrunarrýmum inn í þetta húsnæði á örfáum vikum. Þannig gengu menn til þess verks í upphafi. Það reyndist því miður ekki vera raunin hvað varðar þetta gamla en góða hús, Vífilsstaði.

[16:00]

Varðandi þau atriði sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi sé ég ekki ástæðu til að svara öllu því sem þar kom fram. En ég vil láta þess getið varðandi þá fjárveitingu sem hér er lögð til til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að ég vænti þess að það framlag skapi góða sátt milli ríkis og sveitarfélaga, í bili a.m.k., á meðan verið er að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og vinna í verkaskiptingarmálum, m.a. í tengslum við það sameiningarátak sem Samband íslenskra sveitarfélaga og félmrh. hafa í sameiningu beitt sér fyrir. Ég hef ekki orðið var við annað en að það sé almenn ánægja meðal sveitarstjórnarmanna með þetta framlag en eins og kunnugt er hefur ríkisvaldið enga lagaskyldu í þessu efni, heldur er hér um að ræða sérstakan gjörning sem verður til við samráð og samstarf þessara aðila. Auðvitað liggur samt fyrir að hugsunin er sú að þessum fjármunum verði komið til þeirra sveitarfélaga úti á landsbyggðinni sem höllustum fæti standa.

Hvað varðar Hitaveitu Dalabyggðar og þá heimild sem hér er leitað eftir í fjáraukalagafrv. um samningsgerð í því efni er það vissulega hárrétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að fyrir liggja samningsdrög sem undirrituð hafa verið milli kaupanda og seljanda í þessu máli, Rafmagnsveitu ríkisins og Dalabyggðar, en sá samningur er að sjálfsögðu með fyrirvara um samþykki iðnrh. og fjmrh. Hann þarf að hafa heimild löggjafans til að gera viðskipti af þessu tagi og það verður að veita fjmrh. heimild til þess að gera þennan samning með þessari brtt., ella tekur hann ekki gildi. Ef svo illa færi geta menn velt fyrir sér hvaða áhrif það hefði á framtíð iðnrh. og fjmrh. í starfi. (Gripið fram í: Það yrði nú leyst.) Vafalaust. Engu að síður er samningurinn gerður að fenginni heimild okkar í trausti þess að heimild þingsins fáist.

Ég ætla ekki að fjalla meira um þetta hitaveitumál, við þekkjum vafalaust, flestir þingmenn, hvernig það var í pottinn búið. Auðvitað má segja að það hafi komið upp eilítið sérkennileg staða þegar tvö fyrirtæki sem nú eru í eigu ríkisins að öllu leyti kepptu um að eignast þessa hitaveitu en ég held að það mál hafi fengið nokkuð farsæla lausn.

Í þessum umræðum hafa menn haldið því fram að verið sé að leita eftir fjárheimildum fyrir 17,3 milljörðum kr. vegna meintra vanáætlana. Þetta er auðvitað rangt. Það voru veittar sérstakar útgjaldaheimildir í fyrri fjáraukalögum þessa árs upp á 4,7 milljarða vegna sérstaks átaks sem ríkisstjórnin ákvað að beita sér fyrir og birtist í fjáraukalagafrv. hinu fyrra hér á árinu þar sem gert var ráð fyrir sérstökum fjárveitingum vegna átaksverkefna, m.a. í vegamálum, vegna byggingar menningarhúsa og vegna nýsköpunar í atvinnumálum í gegnum Byggðastofnun. Þetta voru ný útgjöld, ekki vanáætlun annarra útgjalda, 4,7 milljarðar.

Síðan bætist við öryrkjadómur upp á 1,5 milljarða sem að sjálfsögðu þarf að gera ráð fyrir í þessu fjáraukalagafrv. Eftir standa þá milli 10 og 11 milljarðar, kannski nær 11 milljörðum. Þar af eru að sjálfsögðu ýmsar svokallaðar hagrænar eða kerfislægar breytingar sem eru meira og minna útreikningsmál en stafa af því sem er að gerast í undirliggjandi hreyfingum í þjóðfélagi okkar, sumpart til góðs, sumpart ekki. Aukið framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs er auðvitað ekki gott en það er hins vegar útreikningsmál hvernig því er komið fyrir í þessu frv. og engin sérstök vanáætlun þar.

Jafnvel þó að um væri að ræða vanáætlanir er um að tefla hér u.þ.b. 4% af heildarútgjöldum samkvæmt upphaflegum fjárlögum og verður varla sagt að þar sé um að ræða stórkostlegan framúrakstur þó að auðvitað sé hann meiri en æskilegt væri, vissulega er það.

Síðan hafa nokkrir þingmenn vakið máls á því að í ríkisreikningnum og lokafjárlögum bætist við útgjöld sem færð eru til gjalda á rekstrarreikningi ríkissjóðs í endanlegu uppgjöri, telja það með í þessu en það er ekki sérstaklega frambærilegur málflutningur vegna þess að þar er fyrst og fremst um að ræða gjaldfærslur, eins og reyndar sumir hafa getið um hér í dag, vegna lífeyrisskuldbindinga, afskrifta skattkrafna o.s.frv. Þannig eru fjárreiðulög okkar og við höfum talið okkur það frekar til tekna í samanburði við önnur lönd að taka slíka hluti með í reikninginn. Vandinn við þær gjaldfærslur er sá að það er engin leið að áætla þær með nokkurri nákvæmni fyrir fram. Í fjárlagafrv. næsta árs er gert ráð fyrir, minnir mig, u.þ.b. 4 milljörðum í lífeyrisskuldbindingar. Mér finnst líklegt að það verði nærri lagi vegna þess að við eigum ekki von á neinum óvæntum uppgjörum í því sambandi en þó er engin leið að fullyrða um það fyrir fram.

Herra forseti. Síðan hafa ýmsir vakið máls á almennum vinnubrögðum í sambandi við gerð fjárlaga og fjáraukalaga. Ég segi fyrir mig að mér finnst sjálfsagt að hlusta á góðar hugmyndir, sérstaklega frá ýmsum þeim sem koma nýir að málum og hafa ekki vanist því sem hér hefur viðgengist í mörg ár eins og við sem eldri erum í hettunni. Mér þótti athyglisvert t.d. að hlusta á hv. þm. Jón Gunnarsson tala um þessi mál hér á fyrri stigum umræðunnar. Vafalaust getum við bætt okkur heilmikið í vinnubrögðum, bæði á vettvangi ráðuneytanna og Alþingis. Það er enginn maður að minni þó að hann viðurkenni að auðvitað megi bæta vinnubrögðin, við þurfum að bæta áætlanagerð, við þurfum að skerpa þessi vinnubrögð, við þurfum að auka agann, við þurfum að venja þingmenn af því að hugsa sem svo að þeirra helsta hlutverk sé að svíða til sín fjármagn í einhver tiltekin sérstök verkefni fyrir hönd einhverra aðila sem þeir bera fyrir brjósti eða líta á fjárlagafrv. sem sérstakt tæki í þeirri viðleitni. (JBjarn: ... ráðherra ...?) Það er margt af þessu tagi sem við þurfum að huga að. Og nú skaut hv. þm. Jón Bjarnason því inn í hvort ráðherrar væru ekki undir sömu sökina seldir, og ég verð því miður að játa því. (Gripið fram í: Já, gott hjá þér.) Í þessu efni, hvað varðar vinnubrögð og verklag, er um að ræða sameiginlegt verkefni þings og ríkisstjórnar, stjórnar og stjórnarandstöðu, og ég fagna því hversu margir hafa áhuga á að taka þátt í því. Það gefur vonir um að við getum sameiginlega bætt okkur þó að ég verði líka að taka það fram að þeir sem muna tímana tvenna hér í þinginu hljóta að viðurkenna að margt hefur færst til betri vegar á síðustu árum og þarf ekki annað en að nefna tímasetningar í afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga, svo bara eitt dæmi sé nefnt um breytt og bætt vinnubrögð.