Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 16:23:52 (2330)

2003-11-28 16:23:52# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta mál með kaup Rariks á Hitaveitu Dalabyggðar liggi alveg ljóst fyrir. Öll þau viðskipti voru að sjálfsögðu gerð með fyrirvara um að heimild fengist hér á Alþingi sem mér sýnist vera góð samstaða um að veita.

Hvað varðar sveitarfélögin vildi ég bara undirstrika að hér er ekki um að ræða greiðslu á grundvelli neinnar laga- eða samningsskyldu heldur greiðslu sem byggir á niðurstöðu sem fengin er í viðræðum milli aðila á grundvelli sanngirnissjónarmiða. Hér er um að ræða eins skiptis greiðslu, ég vil undirstrika það, og það liggur ekkert fyrir um að þessum greiðslum verði haldið áfram.

Við munum það að í þrjú ár, á árunum 2000--2002 minnir mig, voru árlega veittar 700 millj. kr. í jöfnunarsjóðinn í svipuðum tilgangi og nú er verið að gera en síðan féll sú greiðsla niður. Jöfnunarsjóðurinn gekk þá á sitt eigið fé um sem nam 500 millj. Þarna sem sagt liggur ekkert fyrir um framhaldið annað en að það er verið að endurskoða verkaskiptingu og tekjustofna sveitarfélaganna, í ágætu samstarfi það ég best veit, og þá verða menn að taka upp málið að nýju á þeim grundvelli þegar niðurstaða í því liggur fyrir.