Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:04:22 (2343)

2003-12-02 14:04:22# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal segir, að skattfrestunin er til staðar og vissulega er þar um hvata að ræða. Tryggingatíundin er hins vegar beint framlag af hálfu ríkisins sem rennur inn á viðbótarlífeyrissparnaðarreikning. Það hlýtur jafnan að vera sterkari hvati en frestunin ein.

Það sem mér fannst þó skelfilegast að heyra í máli hv. þm. var að 10--15 þúsund starfsmenn sveitarfélaganna skiptu engu máli. Er þetta viðhorf stjórnarmeirihlutans? Hv. þm. Pétur H. Blöndal kemur hingað og segir: Þetta skiptir ekki máli því að þetta eru bara 10--15 þúsund manns. Hvers konar málflutningur er þetta af hálfu hv. þm.?

Ég held því fram, herra forseti, að hér sé um að ræða flaustursleg vinnubrögð. Hv. þingmenn meiri hlutans hafa einfaldlega ekki skoðað málið út í hörgul. Þeir hafa ekki rannsakað málið eins og þyrfti. Það er alveg ljóst af nefndarálitinu að þeir gera sér ekki grein fyrir mikilvægum staðreyndum málsins. Í reynd má segja að þetta sé eins konar sjálfsafgreiðsla ríkisins. Ráðherra vantar nokkur hundruð milljóna til að stemma af fjárlögin og þá er vaðið í þetta án tillits til þess hvað í því felst.

Ég fordæmi vinnubrögð af þessu tagi, herra forseti. Sérstaklega finnst mér slæmt að það skuli vera formaður efh.- og viðskn. sem hefur forgöngu um að setja fram nefndarálit sem byggir á röngum staðhæfingum.