Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:07:51 (2345)

2003-12-02 14:07:51# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson):

Virðulegur forseti. Ég segi nú bara: Gjafir eru yður gefnar. Hér rekur hvert málið annað þar sem ríkisstjórnin ræðst á ýmsa vegu að opinberum starfsmönnum. Við þurfum ekki annað en að minna á frv. um andmælarétt og brottrekstur opinberra starfsmanna sem legið hefur fyrir þessu þingi og er flutningsmönnum sannarlega til vansa. En hér gerist það líka, varðandi þetta mál sem við erum að ræða og lýtur að viðbótarlífeyrissparnaði, að hv. þm., formaður efh.- og viðskn., leyfir sér að tala um 10--15 þúsund opinbera starfsmenn eins og þeir skipti ekki máli. Þannig málflutningur er ekki boðlegur. Það hlýtur að vera fróðlegt fyrir þessa opinberu starfsmenn að skynja viðhorf stjórnarmeirihlutans í þeirra garð. Það hlýtur að vera sérstaklega merkilegt fyrir þá að heyra viðhorf manns sem veitir efh.- og viðskn. forustu til máls sem skiptir þá töluvert miklu.

Hér er einfaldlega um það að ræða sem ég kallaði áðan sjálfsafgreiðslu. Það er því miður þannig að uppi í fjmrn. hafa menn komist að ákveðinni niðurstöðutölu og síðan er ráðist á ríkiskerfið hingað og þangað til að finna rétta niðurstöðu, alveg eins og menn fóru í vaxtabæturnar til að plokka út 500 millj. kr. en uggðu ekki að sér og nú blasir við að hugsanlega eru þær 500 millj. kr. brot á stjórnarskránni, brot á ákvæði sem við samþykktum fyrir tiltölulega fáum árum. Það á eftir að koma í ljós. En svo mikill og ríkur var efinn að stjórnarmeirihlutinn og minni hlutinn urðu sammála um að skjóta því máli til sérstaks álits Lagastofnunar Háskóla Íslands. Þetta eru vinnubrögðin. Svo kemur hv. þm. Pétur H. Blöndal og hefur bersýnilega ekki kynnt sér út í hörgul það mál sem við erum að ræða.

Ég ætla ekki að gera mikið mál úr því að hér sé að finna staðhæfingar sem ekki eru réttar. En ég vil samt halda því til haga að þegar menn veita álit á málum sem byggja á mikilli og ítarlegri rannsókn nefndar þá er það lágmark að þeir skili vinnu sem stenst einfalda skoðun. Það er ljóst að meiri hlutinn hefur fallið á því prófi. Ég dreg það ekki í efa sem hv. þm. sagði, að skattfrestun er mikilvægur hvati til að ýta mönnum að viðbótarlífeyrissparnaði en þessi tíund tryggingagjaldsins skipti líka miklu máli, tíund sem veitt var atvinnurekanda í afslátt og rennur beint inn á viðbótarlífeyrissparnaðarreikning þess sem er að spara. Þetta eru töluvert háar upphæðir þegar saman er reiknað.

Það kemur fram í svörum við spurningum okkar í efh.- og viðskn. að líklegt sé að þetta séu um 580 millj. kr. Það er alveg ljóst að þær 580 millj. kr., þó að þær dreifist á marga, eru mikilvægur hvati til sparnaðar.

Þó að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé að sönnu vel að sér og vís um flest það sem lýtur að efnahagsmálum þá eru, virðulegi forseti, fleiri menn í þessu samfélagi sem hafa vit á þeim málum. Það vill svo til að við í nefndinni kölluðum marga þeirra til okkar. Við höfum skriflegt álit þessa fólks og ég held að heita megi að flestir þeir sérfræðingar sem kvaddir voru til fundar við efh.- og viðskn. voru ósammála viðhorfum hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Ef ég mætti, virðulegi forseti, leyfa mér að drepa niður fæti í umfjöllun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem Tryggvi Þór Herbertsson skrifar undir þá er þar m.a. vakin eftirtekt á því að í athugasemdum við frv. segi að stjórnvöld og vinnumarkaðurinn hafi náð settu marki hvað varðar viðbótarlífeyrissparnaðinn og þess vegna sé ekki lengur þörf á sértækum ráðstöfunum. Þetta var það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal át upp eftir greinargerð frv. áðan. Hvað segir Tryggvi Þór Herbertsson, sérfræðingur á þessu sviði, maður sem ríkisstjórnin hefur sýnt þann trúnað að setja yfir Hagfræðistofnun háskólans? Hann segir í umsögninni að Hagfræðistofnun lýsi sig ósammála þessu. Síðan segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,1. Enn er mikil þörf til að auka þjóðhagslegan einkasparnað, sérstaklega vegna mikilla umsvifa í íslensku efnahagslífi á næstu árum. Í stað þess að um 500 millj. kr. endi á lífeyrisreikningum launþega og tilsvarandi þjóðhagslegur einkasparnaður myndist, aukast tekjur ríkissjóðs um sömu upphæð. Þessum auknu tekjum ríkissjóðs er þá hægt að ráðstafa til verkefna á vegum hins opinbera með tilsvarandi innspýtingu í efnahagslífið eða jafnvel greiða niður skuldir með tilsvarandi þjóðhagslegum sparnaði. Af þessum þremur kostum er aukning þjóðhagslegs einkasparnaðar æskilegastur.

2. Ráðstöfunin mun draga úr vilja þess helmings íslenskra launþega sem ekki tekur þátt í viðbótarlífeyrissparnaði nú til að hefja þátttöku.

3. Á hverju ári bætast 2--3 þúsund nýir starfsmenn við á íslenskan vinnumarkað og mun ráðstöfunin draga úr hvatanum fyrir þessa starfsmenn til að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði.``

Það liggur ljóst fyrir að Hagfræðistofnun Háskólans er á móti þeim röksemdum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur teflt fram til að styðja skoðanir meiri hlutans í þessu áliti.

Landsbankinn, stofnun sem er ríkisstjórninni nokkuð kær, er á móti þessu. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja er á móti þessu og að sjálfsögðu Alþýðusambands Íslands. En Samtök banka og verðbréfafyrirtækja leggjast líka gegn samþykkt frv. Það er mjög erfitt að finna stofnun sem hefur innan borðs þekkta og viðurkennda fræðimenn á sviði hagvísinda sem treysta sér til að taka undir þau viðhorf sem meiri hlutinn hefur sett fram.

Af því að ég sé ágætan ungan þingmann í dyragættinni, hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, þá get ég ekki annað en dregið úr skoti hugar míns myndina af honum og ýmsum góðum ungum þingmönnum sjálfstæðismanna sem fóru á gæðingum sínum í kosningabaráttunni vítt og breitt um héruð þessa lands. Hvað boðuðu þeir? Þeir boðuðu lækkanir á sköttum.

[14:15]

Frumvarpið, sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og ýmsir aðrir góðir og efnilegir ungir þingmenn Sjálfstfl. eru u.þ.b. að búa sig undir að samþykkja á þessu þingi, gengur þvert á allt það sem þessir ágætu, ungu þingmenn boðuðu í kosningabaráttunni. Það er í reynd ekkert annað en skattahækkun upp á 580 millj. og leggst með öðrum skattahækkunum upp á 500--600 millj. í formi breytinga á vaxtabótum og þær leggjast saman við aðrar skattahækkanir sem eru hér fyrir þinginu í formi hækkunar á þungaskatti upp á 400 millj. Saman leggjast allar þessar skattahækkanir við enn eina, sem er aukning á bensínsgjaldi upp á 600 millj. Þessir ungu menn sem komu hingað til þess að berjast fyrir því að lækka skatta verða að byrja á því á sínu fyrsta hausti að rétta hér upp hönd með hverri skattahækkuninni á fætur annarri, fjórum, fimm, sex sinnum, upp á milljarða.

Ég skil hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann er að verða öllu vanur. Flest það sem sá hv. þm. sagði um skattalækkanir í árdaga síns ferils er auðvitað löngu gufað upp eins og döggin undan sólinni. En það er sorglegt að sjá þessa ungu menn sem hér sitja í salnum og boðuðu skattalækkanir að þurfa að koma hingað og taka þátt í þessu. Ég segi nú ekkert um hina ungu og vösku þingmenn Framsfl. Ég minnist þess ekki að þeir hafi barið bumbur með jafntryllingslegum hætti og þeir menn sem ég hef hér nefnt.

Virðulegi forseti. Við í minni hluta efh.- og viðskn., fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, leggjumst eindregið gegn samþykkt þessa frv. Við lítum svo á að það feli í sér kjaraskerðingu upp á 500--600 millj. kr. fyrir launafólk á sama tíma og því hefur verið marglofað gríðarlegum skattalækkunum.

Við teljum líka, með vísan í þær röksemdir sem ég hef m.a. fært hér og tínt úr penna forstöðumanns Hagfræðistofnunar, að samþykkt þessa frv. muni draga úr hvatningu til almenns þjóðhagslegs sparnaðar á tímum þegar við getum átt allra veðra von í efnhagslífinu, þegar við sjáum glitta í að það gæti brostið á með meiri þenslu en góðu hófi gegnir fyrir meltingargang þjóðarlíkamans. Þess vegna teljum við að það sé brýnt að beita öllum ráðum til þess að ýta undir sparnað. Það gerum við frekar með því að efla þá hvata sem eru fyrir hendi til þess að efla sparnað landsmanna.

Samfylkingin og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lögðu þunga áherslu á það á síðari stigum umfjöllunar í efh.- og viðskn., að það hljóti að vera alvarlegt mál að samþykkt þessa frv. fellir í reynd burtu eina verulega hvatann sem þessir 10--15 þúsund sveitarstjórnarmenn eða starfsmenn sveitarfélaga hafa til þess að taka þátt í þessum sparnaði.

Þegar við förum yfir svið síðustu 10--20 ára sjáum við að eitt af því sem hefur gleðilegt gerst er það að sparnaðarhefðin sem hvarf á verðbólguáratugunum er aftur að vakna. Í kjölfar þeirrar ríkisstjórnar sem báðir A-flokkarnir áttu á sínum tíma sæti í og tókst að hemja verðbólguna neyttu menn margra ráða til þess að reyna að draga upp sparnað aftur meðal þjóðarinnar, reyna að kveikja sparnaðarvitund, en það tókst ákaflega illa. Það er bara eitt sem hefur gefist vel og það er þessi viðbótarlífeyrissparnaður. Það verður að segjast alveg eins og er, virðulegi forseti, að það er sennilega ekkert sem hefur gengið jafn vel og verið jafnárangursríkt til þess að ná upp sparnaði í samfélaginu og einmitt hann og þegar það blasir við ætla menn að draga úr þessum hvata.

Það væri skiljanlegt ef það væri hægt með einhverjum rökum að sýna fram á réttmæti þeirrar staðhæfingar sem fram kemur í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals og nál. stjórnarflokkanna að það væri þegar búið að ná svo miklum árangri í þessum efnum að ekki væri hægt að ríða þessu hrossi öllu lengra. Þess vegna væri í lagi að slá þennan tiltekna hvata af.

Í rannsókn nefndarinnar kom hins vegar fram að á þessu ári greiða alls 162.619 Íslendingar í lífeyrissjóði. En þeir sem taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaðinum eru ekki nema 70.566 eða liðlega 40%. Ég nefni þessar tölur, virðulegi forseti, vegna þess að samanburður þeirra sýnir að enn er mikill óplægður akur, enn er mögulegt að fá miklu fleiri til þess að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaðinum. Það eru næstum því 60% þeirra sem greiða í lífeyrissjóði sem ekki taka þátt í honum. Því er mikilvægt, einmitt út af því efnahagsástandi sem við sjáum glitta í fram undan, að við gefum frekar í varðandi hvatningu heldur en að draga úr henni.

Það má líka velta því fyrir sér, herra forseti, hverjir það eru sem taka ekki þátt í þessum sparnaði. Ef við tökum frá t.d. þá sem starfa hjá sveitarfélögum og hafa örugglega, að ég hygg, lægra hlutfall þátttakenda í viðbótarlífeyrissparnaðinum en aðrir hópar sökum þess hvernig kerfi þeir búa við, hygg ég að hægt sé að fullyrða að þeir sem minnstar líkur eru á að taki þátt í þessum sparnaði eru einmitt þeir sem lægstar tekjurnar hafa. Þeir sem hafa minnst umleikis eru líklegastir til þess að hafa minnst milli fingra sem þeir geta séð af í þennan viðbótarlífeyrissparnað þrátt fyrir alla þá hvata sem eru á hinum almenna vinnumarkaði.

Alþýðusamband Íslands greindi þennan vanda og brást við honum með því að semja --- ég man nú ekki hvenær, herra forseti --- um það í kjarasamningum að þeir sem ekki greiða neitt af eigin tekjum inn á viðbótarlífeyrissparnaðarreikning, fá eigi að síður sjálfkrafa 1% frá atvinnurekanda. Þetta skiptir ákaflega miklu máli fyrir þann hóp í framtíðinni. Það er akkúrat sá hópur sem er að missa mest núna vegna þess að það skiptir hann mestu að fá tryggingatíundina inn á sinn reikning.

Herra forseti. Ég hef í ekki of löngu máli, að ég tel, farið yfir þau rök sem eru þess valdandi að við sem myndum minni hluta efh.- og viðskn. leggjumst alfarið gegn samþykkt þessa frv. Við lítum svo á að þetta sé bara enn eitt skattahækkunarfrumvarp hæstv. ríkisstjórnar, partur af þeim skattahækkunum sem hún er að leggja á þjóðina í formi aukins þungaskatts, aukins bensínsgjalds, minni vaxtabóta og núna með því að taka burt þennan sparnaðarhvata. Þetta eru skattahækkanir upp á þó nokkra milljarða, herra forseti, og af þeim sökum leggjumst við gegn þessu. En við teljum líka að þetta fjarlægi mikilvægan hvata til almenns sparnaðar á tímum þegar sjaldan hefur verið jafnrík þörf á því að ýta undir sparnað og nákvæmlega núna. Það er líka þess vegna sem við leggjumst gegn þessu.

Að lokum ítreka ég það sem ég hef sagt áður í mínu máli að þetta er annar af tveimur mikilvægustu hvötunum sem þeir 10--15 þúsund starfsmenn sveitarfélaga hafa til þess að taka þátt í þessu ágæta kerfi.

Herra forseti. Ég legg til að þetta frv. verði fellt.