Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:30:55 (2349)

2003-12-02 14:30:55# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég sat í borgarstjórn Reykjavíkur og tók þátt í því að stýra borginni en það var einungis um ákaflega skamma hríð. Ég hafði hratt á hæli. Ég segi ekki að ég hafi verið flóttamaður en þaðan fór ég, en ekki kalinn á hjarta. En ég velti því fyrir mér hvort taktíkin sem hv. þm. beitir stundum í viðræðum hér bendi til þess að hann hafi orðið fyrir annarri reynslu en ég. En það er ekki umræðuefnið hér.

Herra forseti. Ég held að það væri ákaflega þarft ef hv. þm. og félagar hans sem komu hingað í þessa sali til þess að lækka skatta geri bragarbót og segi frá því hvernig þeir ætla að lækka skattana. Þeir standa frammi fyrir því að þurfa að samþykkja hvert frv. á fætur öðru sem gengur gegn öllu sem þeir hafa sagt. Hvernig líður mönnum við slíkar aðstæður? Herra forseti. Ég veit ekki hvernig þeim líður en þeir hafa alla mína samúð.