Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:37:51 (2354)

2003-12-02 14:37:51# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar um að það sé mikið skattalegt hagræði að þessum séreignarsparnaði og það var í raun og veru það sem hv. þm. Pétur Blöndal lagði einnig upp með. Ég veit ekki hvort sá sem hér stendur skilur þessa hluti öðruvísi en aðrir, en ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst það mikil spurning, miðað við hvernig þessi lífeyrissparnaður er skattlagður á endanum, þ.e. þegar menn taka hann út með 38% tekjuskatti, hvort það sé beinn hagur launþega í þessu fyrirkomulagi.

Ég hefði talið, virðulegi forseti, og langar til að fá það inn í umræðuna milli manna, að ef 4% væru lögð inn á góða ávöxtunarleið í bönkum og síðan tekin út sem sparnaður lífeyrisþegans þegar hann þyrfti á því að halda, væri það skattlagt sem fjármagnstekjuskattur. Þannig að ég efast um að fullyrðingin um það í nefndaráliti meiri hlutans að hér sé um verulegt skattalegt hagræði að ræða, standist ef það er gaumgæfilega skoðað.

Varðandi deiluna um það hvort 0,2% teljist uppbætur þá vil ég líta svo á að 0,2% hafi verið nokkurs konar launauppbót greidd út í formi lífeyrisframlags og hafi þannig komið launþegum til góða. Hitt er hins vegar alveg ljóst að við afnám þess aukast tekjur ríkisins um 580 millj. Og hvort menn vilja kalla það skatt, ætli það sé ekki frekar kallað að felld séu niður gjöld sem færa ríkinu tekjur upp á þessa upphæð.