Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:39:56 (2355)

2003-12-02 14:39:56# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir flest af því sem hv. þm. sagði áðan og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson bendir á fleiri dæmi en ég um staðhæfingar í áliti hv. þingmanna stjórnarliðsins í efh.- og viðskn. sem ekki standast. Auðvitað er það svo að það er viðurhlutamikið þegar jafnreyndir menn og hv. þm. Pétur H. Blöndal og þeir góðu drengir og konur sem með honum sitja, setja fram mál sem stenst ekki skoðun. Það skýtur stoðum undir þá fullyrðingu mína áðan að hér sé um sjálfsafgreiðslu að ræða. Menn eru búnir að ákveða áður en þeir skoða málið hver niðurstaðan á að vera. Menn eru búnir að ákveða að þarna á að taka 580 millj. vegna þess að menn þurfa að stemma af fjárlagafrv. Það er ekkert annað sem hér er um að ræða, virðulegi forseti, og ég veit að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson skilur það fullkomlega.

Hv. þm. kom hér með fróðlegan vinkil inn í umræðuna. Hann sagði: Ákveðinn hluta þess sem menn fá að lokum greitt úr lífeyrissjóði þegar starfsævi slotar og þeir gerast löggiltir ellilífeyrisþegar má skilgreina sem fjármagnstekjur. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. Ég hef áður sagt að ég er þeirrar skoðunar að þann hluta lífeyrissjóðsgreiðslna sem menn fá til sín sem hægt er að skilgreina sem fjármagnstekjur eiga menn að greiða sem slíkar, þ.e. með sérstökum fjármagnstekjuskatti. Það er mun lægra skatthlutfall en í tekjuskatti. Ég er sammála hv. þm. um þetta og hef áður greint frá þessari skoðun minni. En það er hins vegar erfitt að skilgreina nákvæmlega hvaða hluta ber að taka með þeim hætti og hvað ekki.