Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:42:14 (2356)

2003-12-02 14:42:14# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, ÁI
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Álfheiður Ingadóttir:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er verið er að ræða og hefur verið í nokkru eintali síðustu korterin er bein atlaga að opinberum starfsmönnum og samtökum þeirra. Þetta eru vond skilaboð í aðdraganda kjarasamninga og það bætir enn í það sem fyrir liggur í þinginu að taka af andmælarétt opinberra starfsmanna þegar þeim er sagt upp störfum og það án þess að til áminningar komi.

Frumvarpið felur í sér 500--600 millj. kr. tekjuskerðingu hjá launþegum, hjá lífeyrisgreiðendum. Það dregur úr hvatningu til sparnaðar, eins og hér hefur verið bent á, á þenslutímum þar sem mikilvægt er að auka þjóðhagslegan sparnað, eins og fram kemur í áliti Hagfræðistofnunar og hér hefur verið vitnað til.

En ég ætla líka að leyfa mér þann munað, virðulegur forseti, að fjalla aðeins um þann hóp opinberra starfsmanna sem eru starfsmenn sveitarfélaganna því að mér þótti eins og fleirum að hv. formaður efh.- og viðskn. skautaði nokkuð létt yfir þann hóp. Menn skulu gera sér grein fyrir því að starfsmenn sveitarfélaga eru um 40% af félagsmönnum BSRB og starfsmenn sveitarfélaga eru einhvers staðar á bilinu 14--15 þúsund. Það kann vel að vera að það sé ekki nema helmingur launþega sem greiðir í viðbótarlífeyrissparnað en það eru langtum færri en helmingur starfsmanna sveitarfélaga sem greiða í hann. Og hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að sveitarfélögin greiða ekki mótframlagið og nú á að taka eina hvatann sem þessi hópur hefur þó haft til þess að vera í lífeyrissparnaðinum, viðbótarlífeyrissparnaðinum. Nú á að taka hann af og hvers vegna skyldi það vera? Jú, það er ekki lengur þörf á honum eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hluta hv. efh.- og viðskn.

[14:45]

Hér hefur verið bent á að þvert ofan í þetta álit meiri hluta nefndarinnar segja allir umsagnaraðilar annað, benda einmitt á mikilvægi þess að viðhalda þessum sparnaði og hvetja frekar til þess að fleiri bætist í þann hóp sem eru í viðbótarlífeyrissparnaði heldur en að draga úr og fækka. Það er fyrirséð að veikustu sveitarfélögin, fjárhagslega, sem hafa greitt tíundina á móti iðgjaldi frá starfsmönnum sínum munu ekki geta haldið þeim greiðslum áfram eftir að frv. sem hér liggur fyrir verður orðið að lögum. Veikustu sveitarfélögin fjárhagslega munu bakka út úr þessu og þar með munu þeir starfsmenn sveitarfélaga sem þó hafa notið einhvers lífeyrissparnaðar engan hafa. Það sama mun koma á daginn hjá þeim fyrirtækjum á almennum vinnumarkaði sem standa veikt fjárhagslega.

Á þetta hefur verið bent, m.a. í efh.- og viðskn., og ekki bara af Alþýðusambandi Íslands og BSRB eins og hér hefur komið fram heldur einnig Landsbankanum, Hagfræðistofnun og Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja. Allir þessir aðilar benda á að þetta sé í hróplegri mótsögn við stöðuna eins og hún er í dag.

Virðulegur forseti. Í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun var upplýst að viðskiptahallinn á þessu ári stefni nú í 32 milljarða. Það er ekki langt síðan út kom, það var um miðjan nóvember, 4. hefti Peningamála 2003 frá Seðlabanka Íslands. Á bls. 30 kemur fram að þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir því að viðskiptahallinn á árinu 2003 verði 14 milljarðar kr., á næsta ári 28 milljarðar og árið 2005 36 milljarðar kr. 14 milljörðum spáir Seðlabankinn á þessu ári og það var upplýst í morgun að hann stefni í 32 milljarða. Það er meira en 100% hækkun.

Við vitum að þegar framkvæmdirnar fyrir austan verða komnar á skrið og þegar þunginn í þeim verður hvað mestur reikna menn jafnvel með að viðskiptahallinn fari í 70 milljarða kr. Þessi aukning á viðskiptahalla núna er hins vegar ekki til komin vegna framkvæmdanna fyrir austan. Þvert á móti er þessi aukni viðskiptahalli núna, virðulegur forseti, kominn fram vegna aukinnar einkaneyslu, vaxandi innflutnings og minnkandi útflutningstekna, sérstaklega sjávarafurða. Þetta er staðan þegar framkvæmdir fyrir austan eru varla byrjaðar. --- Ég sé að hæstv. fjmrh. er núna hér í salnum. --- Í þessu ástandi er mjög brýnt að auka þjóðhagslegan sparnað. Þá er ekki þörf fyrir, eins og kemur fram í umsögn frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, með leyfi forseta, ,,að auka tekjur ríkissjóðs um 500 millj. kr. í stað þess að láta þá peninga enda á lífeyrisreikningum launþega``.

Það var nefnilega mikil kjarabót að þessu ákvæði í samningunum sem gerðir voru við aðila á almennum vinnumarkaði og við fjmrh. fyrir hönd starfsmanna ríkisins, þess helmings BSRB, 60%, sem nýtur þessara réttinda. Hinir hafa legið hjá garði, óbættir, eins og hér hefur komið fram, hafa notið þessarar tíundar en nú á að taka hana af líka.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á minnihlutaáliti Samf. og Vinstri grænna sem hér hefur verið gerð ágæt grein fyrir. Ég tel, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að þetta séu vond skilaboð í aðdraganda kjarasamninga. Þetta eru 500--600 millj. kr. og við vitum að það stendur til samkvæmt fjárlagafrv. fyrir næsta ár að auka álögur á heimilin í landinu og almenning um 2,2 milljarða kr. með þessum hætti. Menn geta svo deilt um það hvort þetta eru skattahækkanir eða hvað, þetta verður ekki tekið nema úr vösum almennings í landinu.

Það hefði verið nær fyrir hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnina að spyrja hvernig mætti ná til þess hóps sem er ekki þátttakandi í þessum viðbótarlífeyrissparnaði núna og hefur verstu lífskjörin. Þessi aukni lífeyrisréttur sem sparnaðurinn hefur í för með sér mun bæta kjör lífeyrisþega þegar til lengri tíma er litið og þar með launafólks.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lýsir mikilli andstöðu við þetta glapræði og segir að þetta sé hrein atlaga að samtökum opinberra starfsmanna og að starfsmönnum sveitarfélaganna í landinu sérstaklega.