Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 15:05:33 (2363)

2003-12-02 15:05:33# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, EMS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Það er eðlilegt þegar við ræðum þessa tillögu ríkisstjórnarinnar um breyting á tryggingagjaldi að við veltum fyrir okkur heildarmyndinni í þeim skattahækkunum sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að leggja fram á þessu þingi. Þetta er alveg sérstakur kapítuli í þeim efnum vegna þess að það ætti nú að blasa við flestum þegar við erum að renna inn í mikið þensluskeið í efnahagskerfinu að eðlilegt sé að reyna að hvetja landsmenn til sparnaðar sem aldrei fyrr. Þá kemst ríkisstjórnin að þeirri sérkennilegu niðurstöðu að ástæða sé til þess að draga úr þeim hvata, þeim hvata sem hefur kannski verið hvað mest áberandi og hefur á margan hátt skilað hvað bestum árangri einnig. Eðlilegt er að draga sérstaklega fram í þessu samhengi rökstuðning Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ef við lítum á ýmsa umsagnaraðila er alla vega ekki hægt að flokka hana undir það að hagsmunir hennar séu aðrir en þeirra sem fara með þjóðarhag. Því er auðvitað býsna djarft af meiri hluta efh.- og viðskn. að ganga algerlega þvert á svo skilmerkilegt og skýrt álit sem fram kemur frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Umsögn hennar er, eins og ég segi, stutt og skýr og eðlilegt er að vekja sérstaka athygli á nokkrum atriðum þar.

Það kemur t.d. fram í umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að um það bil helmingur starfsmanna á Íslandi tekur þátt í viðbótarlífeyrissparnaði. Það segir okkur að enn er hægt að ná meiri árangri í þessum efnum því að um helming starfsmanna væri enn sem hægt að ná inn í viðbótarlífeyrissparnaðinn. Auðvitað náum við betri árangri með meiri hvata sem við leggjum til í því að launafólkið fari þessa leið.

Það kemur einnig fram í umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að enn er mikil þörf á að auka þjóðhagslegan einkasparnað. Ýmsir hv. þm. hafa oft talað um að það sé kannski eitt af því sem við þurfum helst að ná árangri í gagnvart hinum almenna borgara að fólk stundi einkasparnað. Ég held að flestir séu sammála um að þessi leið, að fara viðbótarlífeyrissparnaðarleiðina, sé sú albesta vegna þess að hún skilar til baka þegar fólk þarf kannski hvað mest á því að halda. Það getur líka sparað útgjöld á öðrum sviðum þegar fram líða stundir.

Ef ég held áfram að vitna í þessa ágætu umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þá kemur einnig fram, og les ég nú orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ráðstöfunin`` --- þ.e. sú ráðstöfun sem fram kemur í frv. hæstv. fjmrh. um breytingar á tryggingagjaldi -- ,,mun draga úr vilja þess helmings íslenskra launþega sem ekki tekur þátt í viðbótarlífeyrissparnaði nú til að hefja þátttöku.``

Þarna er auðvitað býsna mikið sagt og enn er bætt við, með leyfi forseta:

,,Á hverju ári bætast 2--3 þúsund nýir starfsmenn við á íslenskan vinnumarkað ...``

Það þýðir að helmingurinn sem ekki tekur þátt í þessu núna mun fljótlega verða, ef fram heldur sem horfir, meiri hluti vegna þeirrar viðbótar sem verður á hverju einasta ári. Það er auðvitað býsna alvarlegt mál ef árangurinn í viðbótarlífeyrissparnaðinum mun fara þverrandi því að ég held að það hljóti að vera samdóma álit allra sem sitja í þessum sal að við eigum frekar að reyna að auka þennan hlut en minnka.

Frú forseti. Aðeins að lokum varðandi umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Umsögninni lýkur á eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

,,Af öllum framangreindum ástæðum er mjög mikilvægt að hvetja sem flesta launþega til viðbótarlífeyrissparnaðar og eru sértækar ráðstafanir sem þessar afar mikilvægar í því sambandi. Því lýsir Hagfræðistofnun sig mótfallna fyrirhuguðum breytingum á lögum um tryggingargjald.``

Eins og ég sagði áður, frú forseti, þá er þessi umsögn býsna skýr og rök sem fyrir þessari niðurstöðu eru færð mjög sannfærandi. Þess vegna endurtek ég að það er býsna djarft af meiri hluta efh.- og viðskn. að ganga algerlega í þveröfuga átt við það sem hér er fyrir mælt og enn frekar þegar við tökum það inn í myndina að við erum að sigla inn í hagvaxtarskeið, þensluástand, þar sem ástæða er til þess miklum mun frekar að hvetja fólk til sparnaðar en fara í þá átt sem boðuð er með þessu frv.

Frú forseti. Ég sagði að nauðsynlegt væri að ræða þetta frv. í samhengi við ýmis önnur frv. sem lögð hafa verið fram á þinginu til þess að draga upp heildarmynd af því sem verið er að gera á þessu fyrsta þingi eftir kosningar þar sem megináherslur ansi margra frambjóðenda og nú hv. þingmanna voru í þá átt að lækka skatta. Þessir sömu ágætu hv. þingmenn eru nú í því liði sem gengur hart fram í því að hækka skatta. Þetta frv. er hluti af þeirri heildarmynd. Hér er verið að leggja til að spara um 600 millj. kr. sem farið hafa í þann hvata sem ég hef gert að umræðuefni til þess að hvetja fólk til þess að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði. Tölur liggja fyrir um að aðeins um helmingur launafólks í landinu fari þessa leið og því er ástæða til þess, ef einhver væri, að auka hvatann heldur en hitt.

Það er víðar komið við í þeirri sögu að krækja sér í tekjur eða spara útgjöld eða hækka beint skatta. í sjúkratryggingum á að spara um 750 millj. kr. með því að draga úr lyfjakostnaði, væntanlega með því að auka hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði. Eins og hv. þingmenn muna hafa ár eftir ár legið hér fyrir tillögur um að draga úr lyfjakostnaði og engar leiðir hafa skilað árangri aðrar en þær sem hafa verið í þá átt að auka hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði.

Þá er frægur sá hluti af þessum peningum sem á að fara í að draga úr kostnaði hins opinbera við hjálpartæki. Það á að gera m.a. með því að lengja þann tíma sem líður á milli þess að ákveðin hópur fær aðstoð við bílakaup, lengja hann í, ef ég man rétt, um tvö ár þegar flestir aðrir landsmenn eru að stytta tímann og endurnýja bíla sína örar. Það hefur m.a. verið bent á að það sé býsna mikilvægt að hvetja til þess, bæði vegna þess að miklar tækniframfarir eru í bílaiðnaði og það eykur mikið öryggi í umferðinni. Síðan á að lækka kostnað vegna sérfræðilæknisaðstoðar og væntanlega er þar sama leiðin líka fram undan þrátt fyrir að í þessum tilfellum, bæði lyfjakostnaði og sérfræðilækniskostnaðinum, hafa ekki birst tillögur sem segja nákvæmlega um það hvernig eigi að spara þetta. En við hljótum að draga þá ályktun að sjúklingarnir eigi að taka frekar þátt í þessu en verið hefur.

Í sama anda er 50 millj. kr. aukning á komugjöld á heilsugæslustöðvar og eitt frv. sem er í vinnslu í efh.- og viðskn. --- ég verð að segja, frú forseti, að eftir það sem á undan er gengið, sérstaklega það sem tengist þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, er ekki við því að búast að efh.- og viðskn. taki mikið mark á þeim leiðbeiningum eða umsögnum sem berast utan úr bæ þótt frá hlutlausum aðilum séu. Við verðum því að gera ráð fyrir að efh.- og viðskn. nái 600 millj. kr. líka með lækkun vaxtabóta. Af öllum þeim tillögum sem hér liggja fyrir verður hún að teljast samt sem áður líklega ein sú alhæpnasta því að með því er í raun verið að láta lög virka aftur á bak og væntanlega er auðvitað ástæðan fyrir því, frú forseti, að niðurstaða nefndarinnar liggur ekki fyrir sú að vonandi eru menn að vanda sig mjög í þeirri vinnu allri og fara nákvæmlega yfir það hvort verið sé að fara á skjön við ýmislegt sem eðlilegt getur talist í lagasetningu. Þar er gert ráð fyrir að ná 600 millj. kr., fyrst og fremst af fólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið. Er það í anda þess sem ég ræddi í byrjun, að margir hv. þingmenn virðast nú hafa metið það svo að vænlegast væri að fara algerlega þveröfuga leið við það sem boðað var fyrir kosningar? En eins og flestir muna töluðu margir frambjóðendur Framsfl., nú margir hv. þingmenn, mikið fyrir því að taka þyrfti til í húsnæðislánakerfinu, hækka þar lánshlutfall, hækka hámarkslán. En nú koma þeir hér fram í því liði sem telur vænlegast til þess að stokka upp í húsnæðislánunum að draga úr vaxtabótum til þeirra sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið væntanlega í flestum tilfellum í fyrsta sinn.

[15:15]

Þetta er auðvitað í anda þeirra sem boðuðu skattalækkanir en telja vænlegast að byrja á að hækka skatta. Væntanlega eru menn með því að safna í sjóðinn þannig að hægt sé að lækka skatta rétt fyrir næstu kosningar. Þannig er hægt að nýta þessi kosningaloforð aftur og aftur. Fjölnota loforð eru einkenni þeirra, að nota þau trekk í trekk. Ekki þarf annað en rifja upp frægt kosningaloforð í mínu kjördæmi, þ.e. hin svokölluðu Héðinsfjarðargöng, sem búið er að nota í tvennum síðustu alþingiskosningum, að því er mér er sagt með býsna góðum árangri. Þannig virðist hafa verið gengið frá málinu að tryggt hefur verið að hægt verði að nýta þessi sömu loforð aftur í næstu kosningum. (PHB: En álver?) Hv. þm. Pétur Blöndal, nú heyrði ég ekki nákvæmlega frammíkallið. (PHB: En álver?) Álveri var ekki lofað í Héðinsfjörðinn. Þar var ekki notað álver.

En það er rétt hjá hv. þm. að loforð um álver hafa býsna oft verið notuð í alþingiskosningum. Ég efast um að hv. þm. þurfi að rifja mikið upp fyrir mér í þeim efnum. Ég gæti hins vegar rifjað upp fyrir hv. þm. loforð um slíkt allt frá því um 1980 og til þessa dags. En þar sem við erum að ræða annað mál, hv. þm., held ég að ég láti það vera í þessari ræðu. Ég get boðið hv. þm. til slíkrar upprifjunarstundar. Þar er auðvitað margt mjög merkilegt og saga ýmissa í þeim málum ekki síður merkileg. En ég vona að við hv. þm. eigum sameiginlegt að hafa alla tíð verið á því máli að slíkt verk væri brýnt þó svo hafi ekki verið með alla sem börðust harðast í þeim málum.

Frú forseti. Ég var í upptalningu minni kominn að Atvinnuleysistryggingasjóði. Þar er um að ræða 170 millj. kr. Ríkisstjórnarflokkarnir sem boðuðu umbætur í húsnæðismálum og skattalækkanir töldu ástæðu til að spara þar örlítið fé. Það á fyrst og fremst að gera með því að taka þrjá fyrstu dagana af þeim sem atvinnulausir. Sú röksemd er m.a. notuð að þannig sé þetta í býsna mörgum löndum. Auðvitað hefði verið hugsanlegt að skoða málið í því samhengi ef pakkinn hefði verið tekinn í heild sinni. Upphæð atvinnuleysisbótanna hefði mátt þá fylgja því sem viðgengst í öðrum löndum. Þá hefði hugsanlega verið hægt að skoða þessa tillögu. En að gera þetta eitt og einangrað, meðan hæstv. félmrh. ræðir um að fara þurfi í að stokka þetta allt upp og skoða í heild sinni, er með ólíkindum. Þetta er þó skiljanlegt þegar maður setur það í sama samhengi, að fylgt sé ákveðinni línu og stefnan keyrð fram með þeim krafti sem stjórnarherrarnir telja mögulegt hverju sinni.

Frú forseti. Fyrst við erum að ræða auknar álögur og hærri skatta er nauðsynlegt að koma að því sem jafnvel hefur verið deiluefni milli hv. þm. innan stjórnarflokkanna, hvort verið sé að lækka eða hækka hinn svokallaða hátekjuskatt. Þar er verið að ná í heilar 80 millj. kr. Það er með allægstu tölum sem maður finnur þegar maður fer yfir þennan lista. Miðað við lagatextann ætti þessi skattur að renna út um næstu áramót en í stað þess er hann lækkaður í 4%, úr þeim 5% sem hann er í nú. Þessi skattalækkun, miðað við stöðuna eins og hún er núna, er því upp á heilar 80 millj. kr. Það er eina skattalækkunin, frú forseti, sem við höfum fundið og séð á þessu fyrsta þingi eftir alþingiskosningar þar sem loforð um skattalækkanir bar afar hátt. Það segir okkur að líklega sé það helst þessi hópur sem stjórnarherrarnir hafa talið rétt að lækka skattana á en hækka þá á flestum öðrum þegnum landsins.

Í þessari upptalningu á ég eftir að nefna það sem búið er að samþykkja og er þegar komið til framkvæmda, sem allir bílaeigendur sem hafa tekið bensín í dag hafa orðið varir við. Það er hækkun sem samþykkt var fyrir helgi á vörugjaldi af bensíni og þungaskatti. Þó þungaskattshækkunin hafi ekki tekið gildi enn og verði ekki fyrr en á næsta ári þá hefur vörugjaldi af bensíni þegar verið velt út í verðlagið. Það mun að sjálfsögðu, eins og á var bent, hækka neysluverðsvísitölu og er þar af leiðandi verðbólguhvetjandi og hækka launin á sama hópi sem á nú að fá minni vaxtabætur. Þetta mun bitna enn harðar á þeim hópi sem sumir hv. þm., þáverandi frambjóðendur, boðuðu að skyldi heldur betur aðstoða, þ.e. með húsnæðislánakerfinu.

Þessu til viðbótar, frú forseti, væri hægt að reikna inn skerðingu barnabóta og hvernig skattar eru auknir með því að láta skattleysismörk ekki fylgja verðlags- eða launaþróun, eftir því sem menn mundu miða við. Það er augljóslega verið að gera barnabætur og skattleysismörkin lægri, þ.e. verðminni heldur en þau eru, þegar þau eru ekki látin fylgja almennu verðlagi.

Þetta mun, þegar allt er lagt saman, nema um 3--4 milljörðum sem þarna er verið að safna af þeim sömu og boðuðu hina miklu skattalækkanir sem skyldi koma á svo fljótt sem auðið væri. En nú hefur verið tilkynnt að svo verði ekki fyrr en líður töluvert á kjörtímabilið. Þá verða þessir 4 milljarðar 8 eftir næsta ár ef ekkert bætist við. Við skulum samt sem áður gera ráð fyrir því að eitthvað bætist við. Þegar kjörtímabilinu lýkur mundi ég áætla að með slíkum breytingum sem hér eru gerðar tillögur um verði búið að safna upp undir 20 milljörðum kr. Gaman verður að sjá hvernig debet og kredit stendur þegar við fáum loks að sjá tillögur um skattalækkun.

Það er spurning hvenær sú skattalækkun kemur til framkvæmda. Það hlýtur að þurfa að taka eitthvert mið af efnahagsástandinu. Fyrst ríkisstjórnin komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki rétt að byrja á einhverri af þessum lækkunum áður en þensluskeiðið hefst mun hún væntanlega ekki, ég trúi ekki að hæstv. ríkisstjórn láti sér detta það í hug, koma með skattalækkanir þegar þenslan er hvað mest. Við skulum ætla að það verði ekki fyrr en hún er farin að réna eitthvað. Þá verðum við væntanlega komnir undir lok kjörtímabilsins. Niðurstaðan gæti þá orðið sú að það yrði að geyma eitthvað af skattalækkununum, ef ekki allar, fram yfir næstu kosningar. Þá komið að snilldinni, að þá yrði væntanlega enn boðuð skattalækkun með sömu röksemdum og í vor og gert ráð fyrir að fólk trúi þeim enn.

Oft hefur verið látið á það reyna og verður að segjast, frú forseti, að það er með ólíkindum hve oft er hægt að leika sama leikinn sé horft til árangurs Sjálfstfl. í síðustu kosningunum, að vísu eins lakasta árangurs sem sá flokkur hefur náð. Ég ætla að gerast spámaður í þeim efnum, frú forseti. Ef hv. þm. Sjálfstfl. ætla að reyna það einu sinni enn spái ég því að árangur þeirra verði enn síðri í næstu alþingiskosningum. Þá yrðu enn og aftur tímamót og fylgi þess flokks færi í sögulegt lágmark. Það verður væntanlega geirneglt ef sú tilraun verður enn einu sinni gerð, að leika sama leikinn. (ÖS: Hvað áttu við með geirneglt?) Ja, geirneglt með því að annar flokkur sem verði mun stærri og þeir muni ekki ná sér upp fyrr en ... (ÖS: Ekki neglt með Geir?) Það skyldi þó ekki vera að hæstv. fjmrh. verði þá búinn að ná slíkum frama í flokki sínum að hann verði í framvarðasveit og Geir verði negldur við þau kosningaúrslit. Ég ætla nú ekki að spá, hv. þm., um framgöngu einstakra þingmanna eða hæstv. ráðherra í þeim sérkennilega flokki. Ég hef bara ekki þekkingu á þeim flokki til að geta spáð um innanhússmálin þar. Ég tel auðveldara að spá um það sem snýr að almenningi og tengslum þess flokks við almenning.

Frú forseti. Ég hef rætt um það frv. sem hér liggur fyrir í samhengi við aðrar tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Það er eiginlega ekki hægt annað í þessu samhengi en að skoða hlut sveitarfélaganna í þessu máli. Þegar við erum að skoða skattamálin eru það auðvitað ríkisvaldið og sveitarfélögin sem koma þar að. Það er með ólíkindum, ef við skoðum nokkur ár, hvernig samskipti þessara aðila hafa þróast. Halli sveitarfélaganna hefur vaxið með hverju ári. Í lok árs 2001 var halli sveitarfélaganna upp á 5,3 milljarða kr. og í lok árs 2002 upp á 5,8 milljarða kr. Með sama áframhaldi mun halli sveitarfélaganna fara yfir 6 milljarða kr. í árslok.

Það hefði verið nær fyrir hæstv. ríkisstjórn að skoða hvort ekki ætti að breyta samhenginu, hlutföllum á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna í skattheimtunni. Það hefði verið nær, um leið og ríkisstjórnarflokkarnir boðuðu hinar miklu skattalækkanir, að horft hefði verið til þess að sveitarfélögin gætu að einhverju leyti komið á móti og ríkisvaldið lækkað skatta sína enn meira þannig að jafnvægi væri þar á milli. Eins og staðan er nú hefur hallað stöðugt á sveitarfélögin. Það er ekki að sjá að þar eigi að bæta neitt úr og verður auðvitað stöðugt erfiðara fyrir sveitarfélögin að fá eitthvert svigrúm meðan ríkisvaldið gengur fram eins og raun ber vitni í því frv. sem nú er til umræðu og þeim frumvörpum sem ég hef tínt til til að fylla út í myndina.

Frú forseti. Eins og ég sagði í byrjun er ekki við öðru að búast af þessum ríkisstjórnarflokkum. Þeir hafa áður leikið þann leik að segja eitt fyrir kosningar og gera síðan annað eftir þær.