Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 15:35:02 (2365)

2003-12-02 15:35:02# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Það frv. sem við erum að ræða er enn eitt frv. hæstv. ríkisstjórnar sem gengur algjörlega á svig við það sem lofað var í liðinni kosningabaráttu, þ.e. að lækka skatta og bæta hag almennings.

Í gær, 1. desemeber --- það var 1. desembergjöf hæstv. ríkisstjórnar til almennings í landinu --- tók gildi hækkun á bensínskattinum svokallaða sem við ræddum um í síðustu viku, hækkun á bensínalítra um 3,90 kr. Þar með er bensín með fullri þjónustu komið nánast upp í 100 kr. lítrinn. Þetta er aðeins rifjað hér upp, virðulegi forseti, vegna þess að við eigum eftir á næstu dögum og það sem eftir lifir af þingdögum fram til jólaleyfis þingmanna að ræða álíka frumvörp og hér er verið að leggja fram þar sem verið er að breyta skattkerfinu þannig að verið er að sækja fé til almennings á einn eða annan hátt til að stoppa upp í frv. til fjárlaga, fjárlagafrv. fyrir næsta ár.

Bensínhækkunin síðasta þar sem sækja á 600 millj. kr. í vasa þeirra sem nota bíla og kaupa bensín og 400 milljónir sem sóttar eru í aukinn þungaskatt frá og með næstu áramótum --- ofan á þetta leggst svo virðisaukaskattur --- var fyrsta dæmið þar sem verið er að sækja fé til almennings, verið að hækka skatta þvert á það sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu í kosningabaráttunni. Það verður að segjast alveg eins og er, virðulegi forseti, að aumt er hlutverk þeirra stjórnarþingmanna sem stuðla að þessu og taka þátt í þessu, ekki eingöngu nýliðanna sem fóru um víðan völl, hv. þingmanna og frambjóðenda Sjálfstfl. á höfuðborgarsvæðinu, ungir vaskir menn sem riðu um héruð og boðuðu skattalækkanir og niðurskurð á kerfi hins opinbera. Þetta gengur allt í þveröfuga átt.

Virðulegi forseti. Það kom manni auðvitað mjög á óvart hvað stjórnarþingmenn taka þátt í þessu að manni virðist með glöðu geði, að ganga þessa skattahækkunarleið, eins og ég hef tekið dæmi um, þ.e. hækkun á bensíngjöldum og álögur á umferðina, sem er komið að mati Félags íslenskra bifreiðaeigenda í sögulegt hámark, komið upp í 32 milljarða kr. og er algjört Íslandsmet auðvitað. Fram hefur komið að gjöldin hafa hækkað um helming frá því að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson tók við sem forsætisráðherra. Það sem verra er að stór hluti af þeim peningum eða allt að 15 milljarðar kr. eru ekki notaðir til þess að bæta vegakerfi landsins, auka þjónustu, vetrarþjónustu eða annað þess háttar.

Ofan á þetta kom svo niðurskurður til vegamála upp á 850 millj. kr., ef ég man rétt.

Þetta er aðeins rifjað hér upp, virðulegi forseti, til að nálgast það frv. sem er til umræðu, sem mér finnst vera frumvarp númer tvö þar sem verið er að seilast til almennings og taka af honum sannarlega það sem þarna er og þann hvata til sparnaðar sem þetta hefur haft í för með sér hingað til, eins og kemur fram í mörgum álitum sem ég ætla að nefna nokkur á eftir sem hafa ekki verið birt. Svo virðist vera með þetta frv. eins og bensín- og þungaskattsfrumvörpin að allar umsagnir frá öllum þeim aðilum sem sent var til voru í eina átt, þ.e. að leggjast gegn þessum skattahækkunum. Allir sem sagt eru á móti þeim nema hv. þingmenn stjórnarflokkanna með hæstv. ríkisstjórn í broddi fylkingar þar sem verið er að stoppa upp í gat til þess að mynda einhvern ímyndaðan fjárlagaafgang sem menn telja í dag að sé nauðsynlegur inn í umræðuna til þess að draga úr þenslu og öðru slíku sem er náttúrlega í raun og veru að verða öfugmæli þó að ég ætli nú ekki að fara mikið yfir í þá umræðu. En auðvitað koma upp í huga manns varnaðarorð Seðlabankans á sínum tíma rétt eftir að búið var að endurnýja núv. hæstv. ríkisstjórn eftir kosningar, þar sem Seðlabankinn fór fram mjög geyst, varaði við allri þenslu og taldi að það væri eitthvert úrslitaatriði hver afgangur yrði af fjárlögum íslenska ríkisins, eins og það eina atriði væri þess valdandi hvort þensla yrði í landinu eða ekki. Það verður auðvitað að segjast alveg eins og er að þetta eru hreinar allt að því öfugmælavísur frá Seðlabankanum, enda hefur svo Seðlabankinn komið síðar fram og verið að draga úr sínum spám.

Ég spyr, virðulegi forseti: Hvar gætir hinnar miklu þenslu sem Seðlabankinn varaði við? Hvað er að gerast? Er þensla á höfuðborgarsvæðinu? Er mikil þensla á landsbyggðinni? Nei. Að mínu mati er þensla á einu svæði á landinu, e.t.v. sem betur fer, þ.e. á virkjunarsvæðinu fyrir austan, á Miðausturlandi, og öllum þeim stórframkvæmdum sem þar eru byrjaðar og verða áfram næstu ár, sem auðvitað er hið besta mál og mun skila okkur gríðarlegum ávinningi á komandi árum.

En ef við förum annars staðar um landið, þá er þenslu ekki fyrir að fara heldur þvert á móti að öllum líkindum frekar samdráttur. Það sjáum við og heyrum af núna og höfum heyrt undanfarnar vikur að fyrirtæki eru jafnvel að leggja upp laupana, eru að loka út af erfiðum rekstrarskilyrðum og eru að segja upp fólki.

En aðaltilgangurinn með þessu frv. er að sækja peninga sem veittir hafa verið í afslátt á tryggingagjaldi, sækja þá aftur inn í ríkissjóð, draga þá til sín inn í þessa hít, inn í fjárlagafrv. til að glansmyndin af því verði betri nú þegar við ræðum fjárlögin og samþykkjum þau væntanlega á föstudaginn kemur. Þetta eru fjárlög sem munu líta þannig út að allir verði mjög stoltir af þeim, a.m.k. stjórnarsinnar, telja sig með eitthvert súpergott fjárlagafrv. En eins og margoft hefur komið fram hjá fulltrúum Samf., m.a. við 2. umr. fjárlaga, reyndar 1. umr. líka og í nefndarálitum, er þetta glansmynd sem dregin er upp. Hér hafa verið nefndar ansi margar stofnanir og opinber fyrirtæki sem sannarlega fá ekki þá peninga af fjárlögum sem til þarf til að halda eðlilegri starfsemi gangandi. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, má setja þær stofnanir skipulega upp á lista. Menn spá því að þær muni allar koma inn á fjáraukalög þegar þing kemur saman aftur næsta haust. Það eru, virðulegur forseti, kunnuglegar stofnanir, það er kunnuglegt að sækja þurfi meira fé vegna þess að ekki er veitt til þeirra nægjanlegt fé í fjárlögum eins og ætti auðvitað að gera.

Ýmis atriði hafa verið nefnd í þessu sambandi og ég ætla ekki að orðlengja um það en nefni aðeins jafnmikilvægt atriði og fjárframlög til Hafrannsóknastofnunar eða Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins til að stunda fiskirannsóknir og annað slíkt. Sérstaklega er það sennilega mikilvægt núna vegna þeirra breytinga sem hafa átt sér stað í hafinu, þ.e. hlýnandi sjávar, og nægir í því sambandi að nefna aðeins eitt atriði sem forstjóri Hafrannsóknastofnunar hefur nefnt, að vegna þess hvað fjárframlög til Hafrannsóknastofnunar voru skorin niður við fjárlagagerð af sjútvrn. sé m.a. ekki hægt að stunda jafnmikilvægt verkefni og loðnurannsóknir í Norðurhöfum. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál líka þegar er nýlokið rannsóknarleiðangri Hafrannsóknastofnunar þar sem kemur í ljós að menn finna nánast ekki neina loðnu, þetta er mjög alvarlegt mál.

[15:45]

Hér hefur líka, virðulegi forseti, verið rætt um og dregið fram og nefndar tölur í því sem felst í fjárlagafrv., sem er svona hliðarfrv. með þessu frv. sem við erum að ræða núna, þar sem fjármunir eru á einn eða annan hátt sóttir í vasa almennings eða tekið til baka það sem þeir sannarlega geta myndað, eins og það frv. sem við erum að ræða eða þau önnur atriði sem hér hafa verið gerð að umtalsefni þar sem skattahækkanir hafa verið reiknaðar á einn eða annan hátt til að vera upp undir 4 milljarðar eða 16--20 milljarðar næstu fjögur ár ef fram fer sem horfir, að það sé með öðrum orðum verið að safna hér peningum til þess að búa til enn eina kosningabombuna næst þegar kosið verður til Alþingis og koma þá fram sem hinir góðu herrar, landsfeður sem ætla sér að lækka skatta. Þetta minnir óneitanlega, virðulegi forseti, á margnotuð loforð um menningarhús sem lofað hefur verið í nokkuð mörgum kosningum, að maður tali nú ekki um skattalækkanirnar sem lofað var núna og allir eru að bíða eftir en hefur verið svikið svo herfilega eins og raun ber vitni, en þess í stað farið út í eintómar skattahækkanir.

Ég sagði áðan, virðulegi forseti, að í þessu frv. kemur fram, eins og í hinu skattahækkunarfrv. sem búið er að ræða og lögfesta hér, þ.e. um bensíngjald og þungaskatt, að það virðist vera mjög afdráttarlaust hjá þeim stofnunum og öðrum sem fengu frv. sent að umsagnir þeirra eru allar á einn veg, að það sé vitlaust og rangt að fella þetta niður, eins og segir m.a. í áliti frá Hagfræðistofnun sem hér hefur verið nefnt og vitnað til, að það sé jafnvel meiri þörf nú en áður til þess að auka þjóðhagslegan einkasparnað vegna hinna miklu umsvifa sem rætt hefur verið um, sérstaklega fyrir austan, og Hagfræðistofnun leggst gegn því að þetta verði lagt niður og vill ekki mæla með því og það er svo með aðra.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að álit Hagfræðistofnunar er í nál. minni hluta efh.- og viðskn., sem fulltrúar Samf. og Vinstri grænna skrifa undir og þarf ekki að ræða mikið um það, en það eru nokkrar umsagnir sem ekki er vitnað til hér en rétt er að vekja aðeins athygli á, eins og frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sem leggst gegn samþykkt þessa frv. Það segir að það rýri kjör launafólks og dragi jafnframt úr hvata til lífeyrissparnaðar. Auk þess orki tímasetning tvímælis í ljósi þeirrar þenslu sem ætla megi að verði í efnahagslífinu á komandi missirum. Við slíkar aðstæður hefði verið talið heppilegra að örva sparnað. Það er kannski það sem maður vildi helst spyrja hæstv. fjmrh. út í, sem er hér viðstaddur þegar mál hans er rætt, eins og áður hefur komið fram hjá þeim sem hér stendur, sem mér finnst vera til mikillar fyrirmyndar. Ég vil spyrja hann út í hvort við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu núna, þ.e. þessa ímynduðu þenslu um land allt sem þó er aðallega á Miðausturlandi, hefðu ekki verið hagfræðileg rök fyrir því að reyna frekar að efla sparnað en draga úr honum eins og hér er gert, vegna þess að auðvitað sér maður það í umsögnum sem hér hafa komið fram, eins og fjölda framteljenda sem greiða til lífeyrissjóða á ári bæði skylduna og viðbótarlífeyrissparnaðinn, hvernig þetta hefur verið að vaxa ár frá ári. Og auðvitað þekkir maður það bara úr eigin ranni hvernig viðbótarlífeyrissparnaðurinn og það mótframlag sem lagt er fram hefur stuðlað að því að launþegar hafa tekið þetta skref og hafið þennan viðbótarlífeyrissparnað og eru auðvitað þær tölur sem hér koma fram mjög táknrænar fyrir þau áhrif sem þetta hefur haft undanfarin ár.

Það kemur í ljós hér, virðulegi forseti, í gögnum frá fjmrn. að árið 2000 greiddu rúmlega 150 þúsund manns í skyldusjóðinn. Þá voru þeir sem greiddu í viðbótarsjóðinn um 30.500. Árið eftir, 2001, voru skyldugreiðendur komnir upp í 158 þúsund, viðbótarlífeyrissparnaður hafði aukist um 15 þúsund manns, upp í 45.400. Árið 2002, þegar skyldugreiðendur eru 160 þúsund rúmir, þá er viðbótin komin upp í tæp 60 þúsund eða 59.900 manns. Fyrir árið 2003 eru skylduframteljendur orðnir 162.619 og framteljendur sem nýta sér viðbótarlífeyrissparnaðinn tæplega 71 þúsund manns,.

Það kom fram í umsögn eins aðilans, frá ASÍ ef ég man rétt, þar sem rætt er um hinn mikla fjölda ungs fólks em kemur á vinnumarkaðinn ár hvert og byrjar að greiða í lífeyrissjóð, að þessi hvati hverfur verði frv. samþykkt. Og auðvitað er þá verið að mismuna þarna, þeir sem hafa t.d. verið að koma inn á vinnumarkaðinn í dag hafa getað nýtt sér þetta en þeir sem koma á næsta ári munu ekki geta nýtt sér þetta eða finna ekki þann hvata sem þetta ákvæði hefur auðvitað haft í för með sér, sem við erum að tala um að leggja niður.

Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga, virðulegi forseti, vegna þess að það er svo margt sem verið er að gera núna þessa dagana í þinginu þar sem hæstv. ríkisstjórn kemur í raun og veru fram eins og sleggja í höfuðið á almenningi eftir það sem á undan er gengið í kosningabaráttunni með öll loforðin og áformin sem lögð voru á borð fyrir kjósendur fyrir kosningar til þess að freista þess að kaupa sér þar fylgi til áframhaldandi setu í ríkisstjórn. Þetta tókst sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum mjög vel. Þeir riðu um héruð, lofuðu hinu og þessu til vinstri og hægri, skattalækkunum, framkvæmdum og hvað þetta hét nú allt saman. Kemur svo eins og búmerang í hausinn á okkur hér á allt annan hátt en lofað var.

Eitt er það sem ég hef stundum sagt að flokkar hafa sín stefnuskráratriði til að fara eftir og vilja hafa sínar stefnur klárar og sýna þær öllum --- það er svo spurning hvenær flokkar geta komið fram með sín stefnumál, auðvitað eru það langtímamarkmið oft og tíðum --- en að koma fram með loforð, já loforð vil ég kalla það, og mikil áform og skapa væntingar hjá kjósendum eins og gert var fyrir síðustu kosningar og svíkja þau jafnherfilega á fyrstu dögum þingsins eins og við erum hér að ræða um, er náttúrlega mikil lágkúra og í raun og veru til þess að koma óorði á stjórnmál. Það kemur auðvitað óorði á stjórnmálamenn þegar svona er gengið fram eins og gert er núna, margsvikin loforð um hitt og þetta, alveg sama hvað menn fara yfir. Menn geta farið út í sín kjördæmi þar sem m.a. ráðherrar í ríkisstjórn komu og efndu til mannfagnaðar og funda með fjölmiðlafólki og öðrum þar sem skrifað var undir hitt og þetta. Það kemur nú bara upp í hugann í mínu kjördæmi, Norðaust., undirskrift út af viðbyggingu við Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Það er ekkert farið að bóla á því enn þá. Ég ætla ekkert að nefna Héðinsfjarðargöng, svikin sem þar áttu sér stað þar sem málið var komið það langt að það var komið í útboð, útboð með dagsetningum hvenær ætti að byrja.

Rétt eftir kosningar, þegar menn héldu að minni kjósenda væri farið að bresta eða kosningahamurinn væri fallin af mönnum eða menn væru búnir að gleyma loforðunum, 1. júlí, þá kemur ríkisstjórnin saman og ákveður að fresta þeirri framkvæmd bara rétt sisona, kennir um þenslu í efnhagslífinu, notar Seðlabankann sem átyllu fyrir því sem þar var gert. Kemur svo fram og frestar og segir nánast bara: ,,Sorrí``, aðstæður breyttust bara á einum mánuði. Sem er náttúrlega tóm þvæla og vitleysa, það breyttist í raun og veru ekkert. Það hefði verið hægt að hefja þessa framkvæmd og ég held að það sýni sig núna, alla vega á Norðurlandi, að það hefði verið gott að vera búið að setja þá framkvæmd í gang og væri til hagsbóta fyrir efnahags- og atvinnulíf á því svæði þar sem þensla þekkist ekki nema í fréttum fjölmiðla.

Væntanlega kemur svo inn núna á næstu dögum, mér er kunnugt um það vegna þess að það kom fram áðan hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, hv. 1. þm. Reykv. n., vaxtabótafrumvarpið, sú afturvirkni sem boðuð er í því frv. og er til meðferðar í efh.- og viðskn., að það er gott ef öll nefndin eða meiri hlutinn hefur fallist á það sjónarmið sem þingmenn Samf. og nefndarmenn í þeirri nefnd héldu fram á fundi þar að þar væri um ólöglega afturvirkni að ræða, þ.e. að vaxtabætur fyrir árið 2003 yrðu skertar. Ef það er rétt að meiri hluti efh.- og viðskn. hafi verið rekinn á flótta frá því að keyra það mál fram og rekinn til þess að láta skoða það mál, ef ég hef heyrt rétt áðan hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að láta skoða lagalega hlið á því, þá er það til bóta og þá sýnir það hvað kröftug stjórnarandstaða og kröftug vinna í nefnd getur skilað, ef það er tilfellið.

Mín sannfæring er hiklaust sú að ef menn hefðu ætlað að ganga fram með skerðingu vaxtabóta eins og boðað var í því frv. og láta það virka fyrir allt þetta ár vegna framtals á næsta ári þá hefði það verið skýlaust brot og hefði leitt til þess að einhver einstaklingur í þjóðfélaginu hefði fengið minni vaxtabætur reiknaðar út kannski frá kaupsamningi sem verið er að gera í dag og greiðslumati sem verið er að gera í dag, ef þær vaxtabætur ættu svo að breytast og lækka vegna aðgerða ríkisstjórnar við að minnka útgjöld ríkissjóðs og draga úr þessum vaxtabótum, með samþykkt kannski einum, tveimur dögum áður en þing fer heim í jólafrí, og kollvarpa þar með í raun og veru því sem íbúðakaupendur væru að gera í dag að leggja fram gögn miðað við núverandi lög til að láta reikna út greiðslubyrði vegna kaupa, þá er náttúrlega verið að koma aftan að fólki og er auðvitað hlutur sem á alls ekki að eiga sér stað.

Svo ég fagna því ef það verður og fagna því ef ríkisstjórnin sæi að sér og sæi þá til þess að gildistaka þeirra laga, þ.e. þeirra sem skerða vaxtabæturnar, yrði þannig að hún mundi ekki virka á þetta ár. En sennilega mun ríkisstjórnin þrjóskast við, enda búin að gera ráð fyrir því í fjárlagafrv. sínu, sem á að samþykkja á föstudaginn kemur, að hafa þetta með þeim hætti sem þar var boðað, þ.e. að skerða vaxtabætur úr að mig minnir 7% niður í 5,5%, eins og boðað var í því frv.

(Forseti (JóhS): Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi langt mál eftir eða hvort hann geti lokið máli sínu á næstu einni til tveim mínútum, vegna þess að eins og boðað var í upphafi þessa fundar er hugmyndin sú að taka fyrir, ekki síðar en klukkan fjögur, 22. og 23. dagskrármálið.)

Virðulegi forseti. Ég er tilbúinn að stoppa hér og nú til þess að liðka fyrir því að það mikilvæga og góða mál komist á dagskrá og hv. þm. sem það flytur geti flutt sitt mál hér.

(Forseti (JóhS): Skilur forseti það svo að hv. þm. geti ekki lokið máli sínu á næstu tveim til þrem mínútum? (Gripið fram í.) Ef hv. ræðumaður getur lokið máli sínu á næstu tveim til þrem mínútum þá ... (Gripið fram í: Hann var að segja að hann væri búinn að ljúka máli sínu.) Sagði hann það? Þá hef ég misskilið það og ég þakka ræðumanni fyrir og þessu dagskrármáli er frestað.)