Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 17:00:04 (2369)

2003-12-02 17:00:04# 130. lþ. 39.22 fundur 374. mál: #A íslenska táknmálið# frv., 375. mál: #A breyting á ýmsum lögum vegna íslenska táknmálsins# frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Mörður Árnason:

Forseti. Það er rétt sem hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir sagði áðan í tilvitnun, að tungumálið er hluti af hverjum manni. Tungumálið er hverjum manni tæki til samskipta og til tjáningar. En það er líka hluti af sjálfsmynd hvers manns, hluti af samsömun hans eða ídentíteti í veröldinni, ein af uppistöðunum í þeim flókna vef sem ofinn er í kringum einstaklinginn og samfélag hans.

Það er líka rétt að árás á tungumál er árás á þann sem það talar. Niðurlæging tungumáls er jafnframt niðurlæging þeirra sem það tala. Sagan geymir allt of mörg dæmi um slíkar árásir og slíka niðurlægingu. Þess er skemmst að minnast fyrir okkur á Alþingi Íslendinga að tungumálið var okkur eitthvert mikilvægasta vopnið í sjálfstæðisbaráttu okkar. Væntumþykja okkar til tungumálsins og endurreisn þess, einkum á 19. öld, var ein af frumforsendunum fyrir því að Íslendingar fengu að lokum sjálfstæði og einnig eitt helsta vopn okkar til að sannfæra heimsbyggðina um að Íslendingar ættu þetta sjálfstæði skilið.

Stundum hefur það gerst í sögunni að ráðist hafi verið að tungumálum þegar herraþjóðin, yfirvaldið eða heimsvaldaríkið hefur viljað bæla niður ákveðna þjóðfélagshópa af einhverju ,,etni`` eða þjóð. Það er gert vísvitandi og skipulega. Það hefur líka gerst í sögunni að tungumál manna mæti hirðuleysi, sinnuleysi og líði fyrir þekkingarskort. Hvort hlutskiptið er verra veit ég ekki. En ég hygg að við séum að tala um hið síðara í þetta skiptið, hirðuleysi og þekkingarskort. Ég verð að gera þá játningu að ég hafði mikið gagn af því að lesa frumvörp hv. flm., greinargerðir með þeim og fylgiskjöl og er þó málfræðingur að mennt og ætti að þekkja betur til en ég gerði.

Ég vil þakka hv. þm. fyrir vinnu hennar að þessu og segja jafnframt að þegar ég var að lesa frumvarpið og bera það saman við þau lög sem máli skipta var athyglisvert að sjá að afar víða er ekkert í viðkomandi lögum um tungumál yfir höfuð. Það er gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut að ákveðin tunga sé töluð í stjórnsýslunni, í skólakerfinu, í samskiptum manna í landinu, í útvarpi, sjónvarpi og í dagblöðunum. Það er merkilegt að í frumvörpum hv. þm. eru stundum lagðar til breytingar sem ekki aðeins varða íslenskt táknmál heldur einnig sjálfa íslenska tungu.

Þetta veit auðvitað hv. flm. mætavel og félagar hennar í hópi heyrnarlausra og heyrnarskertra Íslendinga. Um það er m.a. til vitnis bréf Hafdísar Gísladóttur sem nýverið var sent til þingflokka á þinginu. Ég hygg að það hafi verið dags. 11. nóv. 2003. Ég vil, með leyfi forseta, lesa seinni hluta þess en hv. flm. hefur reyndar lesið úr því fyrri hlutann. Það verður þannig allt lesið hér á staðnum:

,,Félag heyrnarlausra leggur áherslu á að til þess að þeim sem eiga íslenska táknmálið að móðurmáli verði tryggt jafnræði í þessum efnum verði að setja sérlög um íslenska táknmálið og tryggja stöðu þess í stjórnarskrá Íslands. Án löggjafar um íslenska táknmálið er þeim sem eiga það að móðurmálið ekki tryggð þátttaka í samfélaginu.

Í þessu sambandi má geta þess að í íslenskum lögum er aðeins að finna eitt ákvæði sem tekur afstöðu til íslensku sem móðurmáls Íslendinga, þ.e. í 10. gr. laga um meðferð einkamála í héraði en þar segir að þingmálið sé íslenska.

Afstaða til móðurmáls Íslendinga hefur aldrei verið tekin í stjórnarskrá Íslands. Í ljósi þessa beinir Félag heyrnarlausra því til þingflokks Samfylkingarinnar`` --- segir í mínu eintaki af eðlilegum ástæðum af bréfinu, en bréfið var sent til allra þingflokka --- ,,að tekin verði afstaða til móðurmálsins í stjórnarskrá Íslands og blasir þá við að einnig verði tekin afstaða til íslenska táknmálsins sem er hluti af móðurmáli Íslendinga.

Félag heyrnarlausra lýsir sig reiðubúið til samstarfs um framgang þessa mikilvæga máls.``

Eins og þingheim grunar kannski þá vek ég athygli á þessu vegna þess að brugðist hefur verið við þessari bón, þó að aðrar ástæður hafi líka kallað, og samin að vísu ekki frv. heldur þáltill. um að athuga réttarstöðu íslenskrar tungu. Í þeirri tillögu er einmitt talað um að taka til sérstakrar athugunar stöðu íslensks táknmáls og reyndar til tungumála nýbúa einnig, þó þar sé um tvennt ólíkt að ræða. Það bréf sem ég las er einmitt fylgiskjal með þeirri þáltill.

Að nokkru leyti líta flm. þeirrar þáltill., sem eru ásamt mér hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Kolbrún Halldórsdóttir og Sigurjón Þórðarson, sem ég þakka fyrir stuðninginn og samvinnuna, á þessa þáltill. sem einhvers konar stoðmál við baráttu hv. flm. þessa frv. og frv. hennar.

Þegar um þetta efni er fjallað, m.a. í ræðum hv. þingmanna sem hér hafa talað á undan mér, hefur það að sjálfsögðu verið gert á forsendum mannréttinda. Þó getur verið að við hér á Alþingi Íslendinga eigum ekki aðeins að líta á málið sem framfaramál og þarft mál í þágu ákveðins hóps í samfélaginu heldur sem skyldu okkar í stjórnskipuninni.

Ástráður Haraldsson, lögfræðingur Félags heyrnarlausra, flutti erindi á málþingi þess félags í febrúar 2003. Erindi hans ber heitið Viðurkenning íslenska táknmálsins og réttarstaða heyrnarlausra. Ástráður vekur þar athygli á tveimur tiltölulega nýlegum hæstaréttardómum, reyndar báðum frá 1999. Annar dómurinn er í máli Rögnu Kristínar Guðmundsdóttur gegn Háskóla Íslands. Hitt er mál Félags heyrnarlausra gegn Ríkisútvarpinu.

Um fyrri dóminn segir Ástráður m.a. þetta, með leyfi forseta:

,,Dæmt er að opinberum aðilum beri að vinna skipulega að því að ná markmiðum laganna á grundvelli jafnræðisreglu með almennum ráðstöfunum. Þá er ljóst af dómnum að opinberir aðilar geta orðið bótaskyldir ef á skortir að þeir geri þær almennu ráðstafanir sem þeim ber til að stuðla að þeim markmiðum sem lögin áskilja. Grunnþættir dómsins eru lögfestar skyldur opinberra aðila til að stuðla að jafnrétti fatlaðra og almenna jafnræðisreglan. Enginn vafi er á því að nákvæmlega sambærileg skylda hvílir á stjórnvöldum að því er varðar heyrnarlausa eins og aðra fatlaða.``

Síðarnefnda dóminn ættu stjórnmálamenn að kannast við. Um var að ræða framboðskynningu fyrir kosningarnar 1999 og þá kröfu heyrnarlausra að framboðskynningin yrði túlkuð á íslenska táknmálinu. Þar segir Ástráður þetta:

,,Um þennan dóm verður að segja að aðstæður eru að ýmsu leyti óvenjulegar og sérstæðar og því varlegt`` --- segir hinn gætni lögmaður --- ,,að draga af dómnum of víðtækar ályktanir. Hins vegar er líka hægt að segja að í dómnum felist tímamótaniðurstaða um viðurkenningu íslenska táknmálsins. Dómurinn fellst á málsástæður áfrýjenda og þar er sagt meðal annars að ,,Taki ríkið eða stofnanir þess hins vegar að sér það hlutverk að einhverju leyti að kynna kjósendum frambjóðendur og málefni þeirra í þágu frjálsra og lýðræðislegra kosninga ber að gæta þess að slík kynning fari fram án manngreinarálits í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar ...`` Með þessu orðalagi gengur Hæstiréttur út frá því sem gefnu að íslenska táknmálið sé móðurmál heyrnarlausra. Við þessa ályktun er enginn fyrirvari settur í dómnum. Þessi niðurstaða felur í sér að hluti íslensku þjóðarinnar eigi táknmálið að móðurmáli og í dómnum er því fólgin mikilvæg viðurkenning á táknmálinu.``

Síðar segir Ástráður um þetta, með leyfi forseta:

,,Með því að fallast á kröfu áfrýjenda viðurkennir Hæstiréttur í raun að íslenska móðurmálið er ekki eitt heldur tvö. Það er að segja íslenska annars vegar og íslenska táknmálið hins vegar.``

Á vissan hátt má því segja, án þess að ég ætli að fara að gera mig breiðan með lögfræði, að við umfjöllun um þetta mál í þinginu verðum við líka að taka tillit til túlkunar Hæstaréttar í þessum dómum. Ég sé ekki betur en okkur beri að líta svo á að Hæstiréttur hafi túlkað stjórnarskrá og almenn lög þannig að frv. af því tagi sem hv. flm. flytur hér eigi að fara í gegnum þingið.

Ég vil að lokum segja að ég hef lesið frumvarpið og það er yfirgripsmikið. Það er réttindaskrá eins og hér hefur verið nefnt. Ég hef ýmsar spurningar um einstök atriði og jafnvel efasemdir. Mér er annt um íslenska fjölmiðla. Mér er annt um innlenda dagskrárgerð. Eins og frv. er núna er áætlað að allur kostnaður við víðtæka túlkun á sjónvarpsefni og öðru fjölmiðlaefni falli á fjölmiðlana sjálfa eða þær stofnanir sem að baki standa. Það yrði fjárhagslegur baggi á þeim sem þar um véla og gengi á hlut innlendrar framleiðslu í sjónvarpi gagnvart hinni erlendu. Hér þurfum við að hugsa málið og athuga hver kostnaðurinn er og hvernig dæmið lítur út. Ekki viljum við að þessi réttindabarátta komi niður á öðru sem við höfum reynt að koma til þroska í samfélaginu heldur að allir geti unað glaðir við sitt.

Ef til vill hefur hv. flm. kosið að leggja áherslu á frumvörp sín sem réttindaskrá, sem markmið, og ekki talið sér skylt á þessu stigi að gera nákvæma grein fyrir kostnaði eða því fyrirkomulagi sem við kynni að taka í þessum efnum. Vel gæti verið, fyrir þingmenn í menntmn. og stjórnvöld sem þurfa kannski að stofna fimmtu nefndina um þessi mál, að skynsamlegt væri að hugsa þessi skref öll í einu og taka mið af frumvörpum hv. flm. Menn gætu þá jafnvel búið til einhvers konar áætlun um framgang málsins þar sem tryggt væri að hvert skref sem stíga þarf sé stigið til fulls. Þetta má ekki gerast allt í einu, með hangandi hendi og í lausu lofti, eins og því miður einkennir ýmislegt það starf sem unnið er af góðum hug í þessum málum og hv. þingmenn hafa rakið, t.d. hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir í umfjöllun sinni um námskrá.

Ég lýk ræðu minni en endurtek þakkir mínar til hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur. Ég tek undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni sem sagði að ein af merkilegustu stundum sem við höfum lifað í þinginu, nýir þingmenn, var fyrsta ræða hv. flm. hér í þinginu. Þetta fimmtuga karlmenni hér mátti gæta sín að sýna ekki blauta hvarma eftir þá ræðu.