Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 17:25:24 (2371)

2003-12-02 17:25:24# 130. lþ. 39.22 fundur 374. mál: #A íslenska táknmálið# frv., 375. mál: #A breyting á ýmsum lögum vegna íslenska táknmálsins# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[17:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem tekið hafa til máls hér byrja á því að þakka hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur fyrir að flytja þetta mál og mér er sannur heiður af því að fá að vera flutningsmaður að og styð það heils hugar. Það er búið að vera ánægjulegt að fylgjast með umræðunni hér í dag og sjá hvað áhrif vera hennar hér á þingi sem heyrnarlauss þingmanns hefur haft á aðra þingmenn og hvernig þeir hafa kynnst stöðu mála heyrnarlausra í gegnum veru hennar hér. Ég trúi ekki öðru en það að hún hafi verið hér og sýnt hvernig málin standa og einnig með flutningi þessa frábæra máls, sem er einstaklega vel unnið og ítarlegt, eigi eftir að auðvelda málinu brautargengi í gegnum Alþingi.

Þó svo að hér séu ekki nema tveir stjórnarliðar í salnum, og ég veit að einn stjórnarliði á eftir að taka til máls á eftir mér, þá trúi ég ekki öðru, þó að þeir séu fjarverandi, en að þeir muni styðja þetta mál. --- Þriðji stjórnarliðinn er kominn inn, hæstv. fjmrh.

Eitt af því sem ég vil gjarnan koma inn á er að menn hafa talað um að þetta sé dýrt. En við verðum að hafa það í huga að það kostar að virða mannréttindi. Það að gera íslenska táknmálið að fyrsta máli heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, eins og þetta frv. fjallar um, kostar auðvitað peninga, en það eru greiðslur sem við verðum að inna af hendi því að við getum ekki liðið það að mannréttindi séu brotin á hópi Íslendinga. Þetta er ekki bara mannréttindamál, þetta er velferðarmál sem okkur ber að lögfesta.

Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir fór hér mjög ítarlega yfir það mál hér áðan í sinni framsögu og sömuleiðis koma öll rökin fyrir þessu máli mjög vel fram í hennar mjög svo góðu greinargerð. Í raun hef ég litlu við það að bæta.

Mig langar samt að koma inn á það hér, vegna þess að ég hef aðeins kynnst þessum málaflokki og lagði mig svolítið eftir því að kynnast honum og hef lagt fram hér fyrirspurnir um þessi mál til að þrýsta á stjórnvöld og hef verið þeirrar ánægju aðnjótandi að koma á fundi hjá heyrnarlausum og heyrnarskertum fyrir kosningar og oftar, að það er skemmtilegt að kynnast því hvernig íslenska táknmálið er sérstakt og hvernig heyrnarlausir og heyrnarskertir hafa útbúið ýmis tákn fyrir allt mögulegt, t.d. ýmsa þingmenn og frammámenn þjóðarinnar, sem hafa hver sitt tákn. Þau hafa verið búin til úr ýmsum kækjum sem viðkomandi stjórnmálamenn eða frammámenn, forsetinn og aðrir, hafa tamið sér.

Vegna þess að ég heyrði að það kom einhverjum hérna áðan á óvart að táknmál er ekki alls staðar eins í heiminum þá er það sérstakt, alla vega í okkar táknmáli, ég er alla vega búin að læra það í gegnum tíðina, að við erum með svona skemmtileg tákn fyrir okkar frammámenn a.m.k.

En vissulega er það rétt sem hér hefur komið fram að það verður að ráða bót á stöðu mála. Það er óþolandi að heyrnarlausir skuli vera undir náð og miskunn t.d. vinnuveitenda komnir, hvort þeir geti fylgst með á vinnustað, ef þeir vilja t.d. fylgjast með umræðum á vinnustaðafundum. Það er alveg ljóst að þessu þarf að breyta. Það þarf að fjölga táknmálstúlkum, það þarf að tryggja aukna kennslu, það þarf að bæta við námsefni fyrir heyrnarlausa á táknmáli. Það verður að rjúfa þá einangrun sem margir búa við vegna þess að þessi mál eru í ólestri.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég dáist að ötulu starfi Félags heyrnarlausra. Þeir hafa stöðugt verið að minna á og vekja athygli á stöðu heyrnarlausra og barist fyrir því að táknmálið verði viðurkennt. Og það er alveg rétt, heyrnarlausir eru farnir að verða meira áberandi í umræðunni í samfélaginu. Og ég tek undir það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði áðan, að það var ógleymanlegt þegar hv. þm., 1. flm. þessa máls, talaði hér í fyrsta sinni með táknmálstúlki. Maður varð hálfklökkur við að upplifa það.

Ég er sannfærð um að þessi reynsla og þessi málflutningur hér, að flytja þessi tvö þingmál, annars vegar bandorminn svokallaða þar sem tekið er á réttindastöðunni í ýmsum lögum og hins vegar aðalfrumvarpið um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, leiði til þess að þau verði samþykkt. Ef ekki núna, þá bara að flytja það nógu oft, það er málið. Dropinn holar steininn, eins og sagt er.

Hæstv. forsrh. hefur sagt að viðurkenning á táknmáli væri langtímamarkmið og ýmsir ráðherrar hafa lýst yfir stuðningi við réttindabaráttu heyrnarlausra fyrir kosningar. Nú gefst tækifæri til þess að sýna það í verki að þessi mál verði bætt og ég vona svo sannarlega að menn samþykki þetta.

Af því að menn hafa verið að rekja það sem hefur gerst hér á þingi í þessum málum, langar mig að minna á það, vegna þess að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir er ekki hér í dag, að hún hefur verið ötull baráttumaður fyrir þessum málum. Þegar hún var ráðherra setti hún á laggirnar sjóð þar sem voru settir peningar til túlkaþjónustu og hefur hún ötullega minnt á þessi mál og barist fyrir þeim.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langa ræðu, langaði aðeins til að koma hér upp vegna þess að ég er einn af flutningsmönnum og vona innilega að málið verði samþykkt og nái í gegnum þingið.