Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 17:51:04 (2377)

2003-12-02 17:51:04# 130. lþ. 39.22 fundur 374. mál: #A íslenska táknmálið# frv., 375. mál: #A breyting á ýmsum lögum vegna íslenska táknmálsins# frv., VF
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Valdimar L. Friðriksson:

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og það vekur athygli mína eins og margra annarra að í hópi 17 flutningsmanna er enginn stjórnarsinni. Jafnframt auglýsi ég eftir ræðumönnum Framsfl. Það er enginn úr þeim flokki hér inni til að taka þátt í þessari umræðu og jafnframt vil ég auglýsa eftir stefnu þeirra í þessu máli.

Ég velti því líka fyrir mér hvers vegna frv. sem þetta hefur ekki fyrir löngu verið lagt fram og samþykkt. Ég vil leyfa mér að óska flutningsmönnum til hamingju með frv., þá sérstaklega 1. flm., hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur, og jafnframt öllum heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum. Síðast en ekki síst, frú forseti, óska ég okkur sjálfum, þjóðinni, til hamingju því að þetta er í raun hagsmunamál okkar allra.

Sá sem hér stendur hefur starfað á annan áratug á sambýlum fyrir einhverfa. Einhverfum fylgja yfirleitt einhverjir aðrir sjúkdómar eða fötlun. Margir þeirra eru jafnframt heyrnarlausir eða heyrnarskertir og það þýðir að við sem störfum með þeim og fyrir þá þurfum að kunna táknmál. Það er því miður allt of sjaldgæft að ófatlaðir kunni táknmál en í 8. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Íslenska ríkið skal stuðla að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslenska táknmálsins og styðja að öðru leyti við menningu, menntun og fræðslu fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda.``

Það þarf, frú forseti, líka að greiða aðgang okkar allra að táknmálskennslunni til að við getum talað við hvern sem er, hvar sem er og hvenær sem er. Þetta frv. sem hér liggur fyrir er sjálfsagt jafnréttismál og ég velti því fyrir mér hvort ekki sé rétt að fara að gera íslenska táknmálið að skyldufagi í öllum grunnskólum landsins.