Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 18:10:33 (2381)

2003-12-02 18:10:33# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Mörður Árnason:

Forseti. Í þessari þörfu umræðu sem kannski hefði átt að hefjast miklu fyrr og út af fyrir sig alltaf stendur yfir þá hef ég áður lýst nokkurri tregðu minni og Samf. til of örrar lagasetningar um fjölmiðla nema sérstakar ástæður kalli, má m.a. benda á frv. hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur sem lagt var fram í þinginu í haust um heimildarmenn. Það er hið gagnmerkasta frv.

Hvernig stendur á þessari tregðu? Það stendur þannig á henni að fjölmiðlarnir eru í samfélagsgerð okkar stundum kallaðir fjórða valdið. Þeir eru kallaðir það vegna þess að þeir eru taldir hafa þá stöðu að geta verið ákveðið mótvægi við ríkisvaldið, hina þríeinu grein ríkisvaldsins, og verið vettvangur gagnrýni á hana. Það þýðir auðvitað, ef allt virkar eins og það á að virka, að ríkisvaldið þríeina á ekki að hafa mikil afskipti af hinu fjórða valdi.

Hér kemur líka við sögu misjöfn lýðræðishefð í löndum. Í nýfrjálsum ríkjum með veika hefð eða öfugsnúna hefð við sjálfstæði fjölmiðla er örugglega ástæða til þess og þörf á því að setja lagaramma um fjölmiðla. Þrátt fyrir það sem okkur kann að finnast að í íslenskum fjölmiðlum og hafa verið að hér í þá rúmu öld sem hægt er að kalla fjölmiðlaöld á Íslandi þá er hér þó hefð og saga sem hefur gert ráð fyrir sem víðustum ramma, sem minnstum afskiptum annarra greina, og þetta hefur gengið þokkalega vel, takk fyrir. Auðvitað er þetta að nokkru leyti undir fjölmiðlunum komið. Fjölmiðlarnir verða að sanna sig á hverjum degi fyrir samfélaginu og fyrir fulltrúum þess, almannavaldinu, sanna að þeir sinni sínu hlutverki. En löggjafinn, hvað þá framkvæmdarvaldið, verður líka að hugsa sinn gang mjög vel áður en nokkur afskipti eru höfð af hans hálfu af fjölmiðlum og um það þarf að vera breið pólitísk samstaða þannig að slík afskipti ráðist ekki af meiri hluta hverju sinni, geðþótta einstakra ráðherra eða öðrum slíkum aðstæðum.

Þegar rætt er um eignarhald á fjölmiðlum verðum við líka að vita hvað skiptir máli. Við verðum að hugsa eins og kjörnir fulltrúar. Það er alveg klárt að eignarhald hefur áhrif á fjölmiðil eða getur haft og hefur haft. En meginspurningar okkar eiga ekki að snúast um það heldur eiga þær að snúast um þetta: Hvaða rétt á almenningur gagnvart fjölmiðlum? Hvaða kröfur á samfélagið á hendur helstu fjölmiðlum sínum?

Ég tel að meðal þeirra krafna sé fagmennska í fréttaflutningi og allri annarri umfjöllun, að fjölmiðillinn sé trúr neytendum sínum, lesendum, áhorfendum, hlustendum og að fjölmiðillinn sé ábyrgur fyrir því efni sem hann flytur gagnvart þeim sem um ræðir, gagnvart þeim sem efnið beinist að og gagnvart öðrum sem koma við sögu, t.d. heimildarmönnum sem áður eru ræddir hér.

Eignarhald og allar rekstraraðstæður geta haft áhrif á fjölmiðilinn. Mörg dæmi eru um það hjá okkur og öðrum. Hér var vitnað í Berlusconi. Hann er eitt versta dæmið um eiganda fjölmiðils. Ég verð að vísu að leiðrétta þau orð hins ágæta hv. 5. þm. Norðaust. Berlusconi fann nú ekki upp slagorðið Forza Italia heldur er það slagorð sem er hrópað á knattspyrnuvöllum þegar ítalska landsliðið í knattspyrnu sem er líka kallað gli azzurri, ef ég man rétt, keppir við önnur lið. Hann misnotaði hins vegar þetta slagorð í eigin þágu eins og reyndar aðilar á Íslandi hafa hermt eftir honum, sem ég ætla nú ekki að skeyta skapi mínu á að sinni.

Ein af frumkröfunum vegna þessara áhrifa sem eigendur og rekstraraðstæður geta haft er þess vegna um gegnsæi, þ.e. að það sé alveg ljóst, að menn viti hverjir eru eigendur, viti um hagsmunatengsl eigenda og fjölmiðlafyrirtækisins sjálfs og að reksturinn fari eins og unnt er, með venjulegum fyrirvörum, fram fyrir opnum tjöldum. Það má vel hugleiða að mínu viti hvort gera á sérstakar kröfur til fjölmiðlafyrirtækja að þessu leyti, strangari kröfur en almennt tíðkast. Lykilorðin hér eru sem sé þrjú a.m.k., sjálfstæði, ábyrgð, gegnsæi.

Ég vil taka fram að ég deili þeim áhyggjum sem flutningsmenn og aðrir sem tekið hafa þátt í þessari umræðu hafa af samþjöppun almennt á fjölmiðlamarkaði. En við verðum að fara varlega. Lög um þetta efni eru afar misjöfn í Evrópu og á Vesturlöndum. Þróunin í fjölmiðlun nú er sú að upp eru að koma margmiðlunarfyrirtæki sem sameina ýmsar tegundir fjölmiðlunar og hafa tengsl við annan menningariðnað. Við verðum að skoða þessa þróun, sjá hvert hún getur leitt okkur og reyna að meta hvort hún er endilega slæm. Við eigum að skapa fjölmiðlunum skilyrði til öflugri rekstrar. Þeim öfluga rekstri getur fylgt aukin fagmennska. Við verðum líka að gá að því að íslensk fjölmiðlun er í stöðugt vaxandi samkeppni við erlend fjölmiðlunarfyrirtæki. Við verðum að passa upp á að ráðstafanir okkar í þessum efnum spilli ekki fyrir íslenskum fyrirtækjum í því efni.

Það er sjálfsagt að skoða þessi mál vel. Sérstök nefnd kemur ágætlega til álita. Ég vil þó segja það, svo sem að gefnu tilefni, að ég tel að í umfjöllun nefndar sem væntanlega tekur þessa tillögu inn á sitt borð þarf að fara í gegnum hvort ekki eigi --- það vantar hér en var tekið fram í framsöguræðu hv. flm. --- þ.e. hvernig menn geta hugsað sér að tryggja sjálfstæða ritstjórn með lagasetningu í þeim dúr sem Herdís Þorgeirsdóttir áminnst hefur rætt. Ég tel líka að við eigum að skoða tengsl þessa máls við netið og aðra nýja fjölmiðlunartækni. Ég tel ekki síst, virðulegur forseti, að svona nefnd sé nánast gagnslaus ef hún fjallar ekki um Ríkisútvarpið og ritstjórnarstefnu þar og hvernig þeim málum er háttað. Ég mun leggja til í menntmn. sem þetta mál væntanlega fer í að því verði bætt við tillöguna eigi hún að fara í gegnum þingið.

Að lokum þetta, herra forseti. Ýmsir hafa haft stór orð, þar á meðal menntmrh., um þetta efni. Hann hefur sagst vera með í sérstakri athugun hvernig þessum málum sé háttað hér á landi. Það þarf að kanna í menntmn. hvers konar athugun það er, hverjir framkvæma hana, að hverju hún beinist og hvort nefndin sem hér er lagt til að stofnuð verði taki við þeirri athugun eða hvort þessi mál eigi að fara í tvenns konar farveg. Hann er nú ekki staddur hér. Ég mun hugsanlega nota tækifærið síðar á þessum fundi til þess að lýsa afstöðu menntmrh. og fleiri félaga hans til eignarhalds í fjölmiðlum.