Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 18:27:16 (2384)

2003-12-02 18:27:16# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er stundum svo sérstaklega í kosningabaráttu að maður leyfir sér ekki að trúa öllu sem maður heyrir. Þannig var, virðulegur forseti, að ég heyrði sögu í febrúar norður í Skagafirði að búið væri að taka ákvörðun um það á bak við tjöldin að ákveðin samtök í landinu ætluðu að verja 50 millj. í að tryggja ríkisstjórninni sæti. Ég trúði þessu náttúrlega ekki og taldi að þetta væri helber lygi og hafði engar sannanir fyrir því að þetta hafi ekki verið tómt plat og grín.

Ég verð hins vegar að segja af tilefni spurningar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að ég hygg að Landssamband ísl. útvegsmanna hafi varið verulegum kröftum og fjármunum í að tryggja núverandi ríkisstjórn sæti. Og með þau orð á vörunum get ég ekki fullyrt, hv. þm., að það skipti máli hvernig eignarhaldi á fjölmiðlum er varið, en það er samt sem áður þannig að það eru dagblöðin og ljósvakafjölmiðlarnir sem eru notaðir mest í áróðri hér á landi frá degi til dags. Fagblöðin eru blöð sem eru unnin með miklu lengri fyrirvara og það er auðvitað svo ef menn hafa langan vilja til þess að vinna ákveðnu máli forgang eins og kom fram í þeim upplýsingum sem laumað var að mér í febrúar, þá gátu menn vissulega notað sín blöð og þeir gerðu það.