Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 18:32:01 (2387)

2003-12-02 18:32:01# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., ÁF
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[18:32]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að fagna þessari umræðu um starfsumgjörð fjölmiðla en það er rétt að spyrja í fyrstu: Hvert er tilefnið? Eignarhald á lykilfjölmiðlum hér á landi hefur lítið breyst frá því einokun ríkisins á að senda út dagskrárefni á öldum ljósvakans var afnumin fyrir um 17 árum. Við erum með tvo ljósvakarisa, sem eru RÚV og Norðurljós, og við erum með tvo dagblaðarisa, sem eru Morgunblaðið og DV. Á undanförnum árum hafa einkamiðlarnir þrír tengst öðrum miðlum eignarböndum um lengri eða skemmri tíma og þá einnig innbyrðis. Í flestum tilfella hafa þau tengsl ekki borið tilætlaðan ávöxt. Því hefur heildarmyndin lítið breyst. Íslensku fjölmiðlarisarnir er fjórir.

Það sem nú virðist í augsýn er að einn risi til viðbótar, Fréttablaðið, hefur vaknað og keypt DV og sýnir nú tilburði til að ná undirtökum í Norðurljósum. Tveir af fjórum risum eru sem sagt á leið í eina sæng. Það er tilefni þessara umræðna að mínum dómi, virðulegi forseti.

Þegar við lítum til nágrannaþjóða okkar sést að um leið og margt er líkt hjá grönnum okkar er fjölmargt frábrugðið. Ef marka má nýlega samantekt Evrópska blaðamannasambandsins um eignarhald á fjölmiðlum í 12 löndum Vestur-Evrópu kemur í ljós að auk ríkisfjölmiðla eru á hverjum markaði tveir, þrír, í mesta lagi fjórir risar til viðbótar og er samkeppni þeirra yfirleitt afar hörð. Í öllum löndum eru dæmi um risa sem láta bæði til sín taka í útgáfu blaða og tímarita og á öldum ljósvakans og þar sem eru til staðar lög sem takmarka eignarhald eru ákvæðin yfirleitt mjög rúm.

Í fjórða lagi kemur í ljós að sérhver fjölmiðlamarkaður hefur sterk þjóðleg og menningarleg sérkenni og lýtur eigin lögmálum. Þar sem Ísland sker sig helst úr er einkum að miklu meiri fjölbreytni er í rekstri lítilla og staðbundinna fjölmiðla. Stóru miðlarnir sem tala til allrar þjóðarinnar haga sér með svipuðum hætti hér og víðast hvar í Vestur-Evrópu en við höfum ekki fjölbreyttan gróður svæðismiðla til hliðar, og það má spyrja hvort þetta sé ekki líka verðugt verkefni fyrir þá nefnd sem þessi ályktun gerir ráð fyrir að sett verði á laggirnar að skoða.

Meginniðurstaðan er því sú að reynsla nágranna okkar er ekki einhlít. Vandi þeirra er misjafn og lausnir að sama skapi breytilegar. Í þessu máli verður því erfitt fyrir okkur Íslendinga að vísa einhliða til erlendra fyrirmynda. Ef við ætlum að takmarka eignarhald á fjölmiðum verðum við að gera það á grundvelli okkar aðstæðna og á okkar eigin forsendum.

Virðulegi forseti. Þegar stjórnmálamenn tala um takmarkanir á eignarhaldi fjölmiðla mega þeir ekki gleyma því að fjölmiðlun er starfsgrein. Þó svo að áhugamönnum um þjóðmál sé tamt að tala um fjórða valdið og að koma þurfi á það böndum er rangt að fjalla um eignarhald þessara fyrirtækja einvörðungu í ljósi þess.

Við fjölmiðla á Íslandi starfa í fullu starfi nær þúsund manns. Þá eru ótaldir t.d. blaðberar, sem væntanlega skipta þúsundum, og þá einnig hundruð manna í skyldum greinum eins og auglýsingastofum, prentsmiðjum, tölvufyrirtækjum og þar fram eftir götunum. Það má ekki horfa fram hjá því að fjölmiðlar eru bakhliðin á greinum eins og tónlist, kvikmyndagerð og víða í nágrannalöndum okkar einnig leiklist. Fjölmiðlar, upplýsingatækni og afþreyingargreinar skapa hvað flest ný störf á Vesturlöndum og í öllum tilfellum mjög eftirsóknarverð störf.

Íslendingar hafa sýnt og sannað að þeir eiga erindi á hið stóra alþjóðlega svið leikhúsa, tónlistar, kvikmynda og tækni. Öflug íslensk fjölmiðlafyrirtæki skapa örvandi umhverfi þessara greina. Þegar setja á skorður við eignarhaldi á fyrirtækjum er mikilvægt að hafa í huga að slíkt getur takmarkað vaxtarmöguleika fyrirtækja og þrengt möguleika þeirra á að þroskast og dafna. Það er ljóst að ef takmörk eru sett um hver megi eiga í fyrirtækjum verður erfiðara en ella að fá öfluga fjárfesta til að koma að uppbyggingu og sköpun nýrra tækifæra. Viljum við sjá öfluga og nútímalega menningarstarfsemi sem teygir arma sína víða um heim byggir sú starfsemi á fjölmiðlun af einhverju tagi. Stjórnmálamenn sem sjá ofsjónum yfir völdum og áhrifum annars staðar en í eigin hendi mega ekki setja fjölmiðlum þær skorður að þær haldi aftur af athafnaþrá og sköpunarkrafti sem býr í öflugum og góðum fjölmiðli.

Virðulegi forseti. Í ályktun þeirri sem hér er til umfjöllunar er hvatt til þess að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingmanna sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi. Helsta leiðin til þess að treysta stöðu fjölmiðla er í raun að tryggja að að baki þeim standi öflugir og fjársterkir aðilar.

Umræðan um eignarhald fjölmiðla er brýn. Aðgerðir ber að vanda. Sú till. til þál. sem hér er til umræðu hvetur til yfirvegaðra vinnubragða og því er hún verðug og réttmæt og því styð ég hana.