Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 18:44:11 (2389)

2003-12-02 18:44:11# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[18:44]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta er fróðleg og skemmtileg umræða sem er hér háð um fjölmiðla og þá þróun og hræringar sem orðið hafa á fjölmiðlamarkaði á síðustu vikum. Nú er það svo að mér finnst sjálfum sem það sé ekkert sem maður sér í fjölmiðlunum sjálfum sem bendir til þess að þeim eða ritstjórnarfrelsi eða möguleikum manna á að koma skoðunum á framfæri sé einhver hætta búin. Eins og staðan er nákvæmlega í dag, eins og ég les fjölmiðlana og hlusta á þá finnst mér sem oft hafi sú staða verið uppi í okkar samfélagi að það hafi verið ærnara tilefni til þess að ætla að það væri erfitt fyrir tiltekin viðhorf að koma fram.

[18:45]

Að þessu sögðu vil ég að það komi eigi að síður skýrt fram að mér finnst sú tillaga sem hér er flutt vera meinlaus. Ég hef ekkert á móti henni og ýmislegt í henni er þannig að ég get undir það tekið. Ég vil segja það alveg skýrt sem gamall ritstjóri þriggja dagblaða að ég tel að oft hefði verið þörf á því að búið væri að búa svo um hnúta að ritstjórnarfrelsi væri virt. Það eru ekki margir menn á Íslandi sem hafa nokkrum sinnum sætt því að þurfa að standast áhlaup vegna skoðana sinna en ég er viss um að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir minnist þess jafn vel og ég að sú var tíðin að sá karl sem hér stendur þurfti eigi að síður að standast slík áhlaup.

Veltum því upp með hvaða hætti eigendur miðla, dagblaða sérstaklega, geta haft áhrif á blöðin. Það er fyrst og fremst í gegnum ráðningar á ritstjórum. Ég segi sem ritstjóri, sem eyddi töluverðum hluta af starfsævi sinni í fjölmiðlum, að þekking mín í gegnum eigin snertingu við fjölmiðla og í gegnum aðra fjölmiðlamenn leiðir mig að þeirri ályktun að næstum því ómögulegt sé fyrir eigendur blaða að hafa áhrif á það sem stendur í blöðunum með öðrum hætti en í gegnum ráðningu ritstjóra.

Ég var ritstjóri tveggja flokksblaða, Alþýðublaðsins og Þjóðviljans, og ég var ritstjóri síðdegisblaðs, DV, sem stundum var talið hægra megin í tilverunni. Það var þá fyrst og fremst blað sem var í andstöðu og átti alltaf að vera í andstöðu við hverja þá sem telja mætti til valdastofnana samfélagsins. Þegar blaðið hætti því gekk það undir vegna þess að þá hafði það ekki lengur erindi. Aldrei varð ég þess áskynja að þeir menn sem áttu DV og höfðu sannarlega allt aðrar stjórnmálaskoðanir en ég reyndu með nokkrum hætti að hafa áhrif á skrif mín eða blaðsins. Aldrei reyndu þeir að hafa áhrif á það hverja ég réði. Þá fóru nýir starfsmenn í gegnum sérstök próf. Mér var nokkuð skemmt þegar ég réð mína fyrstu áhöfn til sumarvistar og í ljós kom að af þeim ellefu sem ég réði voru sjö eða átta meira eða minna tengdir Heimdalli. Þeir reyndust allir prýðisgóðir blaðamenn og aldrei urðu nokkrir árekstrar okkar á milli.

Þegar ég sagði í upphafi máls míns að ég vildi gjarnan að það hefði verið búið að fara í gegnum þessa umræðu, setja niður svona nefnd og hugsanlega skapa einhvers konar umgjörð um ritstjórnarfrelsi þeirra sem stýra blöðum var ég að vísa til minnar eigin reynslu þegar ég var ritstjóri Þjóðviljans. Þá skrifaði ég og hafði skoðanir og þeir sem með mér voru, ýmsir á því blaði, sem ollu því að aftur og aftur var reynt að skerða það ritstjórnarfrelsi. Þá vaknar spurning: Ef við setjum niður þessa nefnd með hvað hætti eigum við þá að tryggja að slíkt gerist ekki? Sú tíð kann að koma, það má jafnvel sjá vísi að því í þessari tillögu, að aftur verði til einhvers konar fjölmiðlar sem hugsanlega njóti ríkisstyrks, eins og gerðist í gamla daga, og jafnvel að þeir verði í eigu stjórnmálahreyfingar. Þarf þá ekki að koma í veg fyrir að með einhverjum hætti sé hægt að hemja villta unga menn sem eru ráðnir þangað til ritstjórnar og hlýða síðan ekki aga flokksvaldsins? Þetta þurfa menn allt að hugsa í gegn, virðulegi forseti.

Mig langaði að spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, af því að ég geri ráð fyrir því að hún taki til máls á eftir, út í tvennt sem er reyndar skylt. Hv. þm. segir m.a. að það eigi að kanna hvort þörf sé á lagasetningu eða öðrum aðgerðum til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs. Síðar í tillögunni segir líka að athuga beri hvort þörf sé á að sporna með lagaákvæðum eða með öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvaða hátt er hún með í huga? Ég er ekki að gera henni upp eitt eða neitt en það sem mér kemur til hugar er auðvitað þetta gamla sem við höfum öll farið í gegnum, sem er ríkisstyrkur til fjölmiðlareksturs. Er það það? Þá er rétt að segja það.

Síðan vil ég segja að mér finnst það ekki boðlegt gagnvart borgurum landsins að það sé ekki algjörlega tryggt að þeir viti hverjir eigi fjölmiðla. Mér finnst það vera réttur minn að vita hverjir eiga þá. Að því gefnu finnst mér, eins og staðan er í dag, að ég eigi sem fullþroska og sjálfstæður einstaklingur að geta tekið afstöðu til þess sem í þeim birtist. Ég held að miðill sem er ótrúverðugur, sem er fyrst og fremst þjónn eigenda sinna en ekki þeirra sem njóta miðilsins, lesenda eða hlustenda eða áhorfenda, geti ekki lifað af.

Við getum tekið Morgunblaðið sem dæmi sem lengi var, eins og aðrir miðlar, mjög litað af flokkspólitík. Morgunblaðið hefur svarað breyttum kröfum breytts og nýs markaðar með því að breyta með verulegum hætti ásjónu sinni og hvernig það birtist þjóðinni. Það er opið blað í dag og ég get sagt það sem formaður stjórnmálaflokks að sennilega hefur mér aldrei gengið jafn vel og kollegum mínum í stjórnmálum að koma skoðunum á framfæri og einmitt fyrir tilstilli opins Morgunblaðs. Samt sem áður blasir það við, eins og við vorum að ræða hér áðan, ég og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, að stundum brýst annað andlit fram. Enginn veit það betur en sá flokkur sem heitir Samf. og lenti í þeirri orrahríð um sjávarútvegsmál sem beint var að honum og skoðunum okkar á því sviði af Morgunblaðinu rétt fyrir kosningar.

Eigi að síður er ég ekki á þessu stigi máls að óbreyttu reiðubúinn til að taka þátt í að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum. Um hitt sem ég hef hér rakið, um gegnsæið og það að vitað sé hverjir eiga og í hvaða hlutföllum, er ég reiðubúinn að ræða.