Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 18:54:43 (2391)

2003-12-02 18:54:43# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég hef kannski verið of neikvæður í orðum mínum um þessa tillögu. Hv. þm. rifjaði upp að ég hefði sagt að hún væri meinlaus. Þetta er ágætistillaga, hún stefnir í rétta átt.

Eigi að síður finnst mér þegar ég les tillöguna og grg. sem hún sé fyrst og fremst miðuð við fjölmiðla sem eru með einhverjum hætti í einkaeigu. Ég les tillöguna þannig og vísa t.d. í suma stafliði hennar sem ég tel að bendi til þess.

Ég er búinn að vera á dögum sem stjórnmálamaður í einhverja áratugi. Á hinum seinni árum hefur mér gengið best að koma viðhorfum mínum í gegnum hina einkareknu fjölmiðla, eins og Morgunblaðið, DV, Fréttablaðið og suma af hinum einkareknu ljósvakamiðlum. Ég vil t.d. taka það fram, af því að við erum að velta fyrir okkur að það sé nauðsynlegt að vita hverjir eigi fjölmiðlana. Ég og hv. þingmaður eigum Ríkisútvarpið. Við vitum samt ákaflega vel að þar er einn tiltekinn flokkur búinn að hlaða inn stjórnendum árum saman og það hlýtur að hafa áhrif. Sjáum við það ekki speglast í því að sjálfur útvarpsstjóri sendir tölvupóst til þriggja eða fjögurra undirmanna sinna og kvartar undan pólitískri slagsíðu á tilteknum þætti? Þarf þá frekari vitnanna við?

Mér finnst, virðulegi forseti, sem í þessa tillögu hér vanti einmitt þetta sjónarhorn. Ég vil líka sem borgari og sem almennur Íslendingur eiga kost á því að skapa umgjörð um Ríkisútvarpið sem er þannig að menn eigi jafnmikla möguleika á að koma sjónarmiðum sínum í gegn (Forseti hringir.) en ekki eins og ég lýsti áðan í andsvari við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sem var náttúrlega skelfileg reynsla.