Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 18:58:51 (2393)

2003-12-02 18:58:51# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan er þessi tillaga spor í rétta átt.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir segir réttilega að það væri hægt undir þessari tillögu eða að henni breyttri málefni ríkismiðlanna til skoðunar. Það er bara ekki gert í þessari tillögu. Hún miðar fyrst og fremst að því að skoða samþjöppun eignarhalds á einkareknu miðlunum.

Tilefnið er auðvitað alveg ljóst. Tilefnið er það að Jón Ásgeir Jóhannesson er orðinn mikilsráðandi á stórum hluta fjölmiðlamarkaðarins og það fer í taugarnar á mörgum. Sá pirringur gerir vart við sig á mjög ólíkum vængjum stjórnmálanna og menn ná ákveðnum snertipunkti í því. Ég skil það.

Hins vegar tel ég að ef verið er á annað borð að leggja í þessa sjóferð, í herrans nafni og fjörutíu, hefðu þeir átt að láta tillöguna spanna breiðara svið. Við í Samf. höfum t.d. verið að skoða ákveðna hluti, m.a. sem varða ritstjórnarfrelsi og gegnsæi eignarhalds, ekki varðandi samþjöppun en við höfum hins vegar skoðað ákveðnar leiðbeiningarreglur sem alþjóðastofnanir hafa sett niður um svona hluti en varða kannski vanþroskaðra lýðræðissamfélag heldur en okkar er í dag.

Ég er reiðubúinn til að skoða hvaðeina ef tilefnin gefast. Um leið og ég verð þess áskynja að það verður erfitt fyrir íslenska borgara að koma skoðunum sínum á framfæri vegna eignarhalds er ég reiðubúinn til þess að skoða málið. Óneitanlega vekur það eftirtekt mína að þessi umræða kemur upp með þessum mikla sprengikrafti í þann mund sem sá miðill sem hefur staðið áratugum saman í túnfæti Sjálfstfl. hefur ekki lengur yfirburði og nánast einokun á skoðanamyndun, a.m.k. á blaðamarkaðnum.