Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:03:08 (2395)

2003-12-02 19:03:08# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., Flm. ÁI
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:03]

Flm. (Álfheiður Ingadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka góðar undirtektir við þessa tillögu. Ég vil líka segja að ég tek undir alla þá varnagla sem hér hafa verið slegnir um hvað beri að varast þegar setja á lög um eignarhald á fjölmiðum. Það þarf að fara mjög varlega og kannski sérstaklega í lagasetningu.

Við skulum ekki gleyma því hvernig Berlusconi hefur náð 90% fjölmiðlamarkaðarins á Ítalíu undir sitt vald með því einmitt að breyta lögum. Hann hefur sett lög og breytt lögum sem takmörkuðu þetta eignarhald sér í hag þannig að hann og fyrirtæki hans eiga nú um 90% af ítalska fjölmiðlamarkaðnum.

Ég vil hins vegar benda á að hugsunin í þessari tillögu er ekki sú að hefta frelsi fjölmiðla eða setja ritstjórnum þeirra neinar skorður heldur er þvert á móti verið að ræða um að leita leiða til þess að tryggja einmitt sjálfstæði, ábyrgð og gegnsæi í fjölmiðlum eins og einn hv. þm. sagði áðan að væri mikilvægt.

Með þessari tillögu er heldur ekki verið, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti réttilega á, að ákveða að það eigi að setja lög af því tagi sem hér eru nefnd heldur er verið að velta því upp hvort þess sé þörf og bent á að samráð þurfi að hafa við hagsmunaaðila og það þurfi að leita út fyrir landsteinana, ekki til þess að leita þar að uppskriftum heldur að dæmum. Síðan þurfum við að kokka okkar eigin graut í samræmi við það sem menn vilja og sjá þörf á.

Hér hefur líka verið bent á ýmislegt sem mætti bæta við þau drög að verkefnalista svona nefndar sem fram kemur í tillögugreininni. Það var nefnt að nefndastarf af þessu tagi yrði að taka fyrir netið, veraldarvefinn, og það er alveg rétt. Það hafa orðið gríðarlegar breytingar með tilkomu netsins og hefur það auðveldað gríðarlega allan aðgang almennings að upplýsingum. En við skulum ekki gleyma því að sama samþjöppun verður í netmiðlunum um leið og þeir verða það sem kallað er commercial, þ.e. um leið og þeir fara að verða mikilvægir auglýsingamiðlar og tekjulind þá verður nákvæmlega sama samþjöppun í eignarhaldi á netmiðlunum eins og á öðrum miðlum. Það gildir eitt og hið sama.

Það hefur einnig verið nefnt hér að eðlilegt væri að þessi tillaga tæki til Ríkisútvarpsins. Um það vil ég segja að til eru lög um Ríkisútvarpið. Umræða hefur verið um og gagnrýni hefur verið höfð hér uppi og víðar í samfélaginu á að vegið sé að ritstjórnarlegu sjálfstæði einstakra dagskrárliða eða fréttastofu Ríkisútvarpsins. Eins og ég hef skilið þá gagnrýni þá er hún gagnrýni á að lögum um sjálfstæði Ríkisútvarpsins sé ekki fylgt. Ég vil benda á að við höfum lög um Ríkisútvarpið. Það vantar kannski bara að þeim sé fylgt eftir. Þess vegna er Ríkisútvarpið ekki nefnt hér. Þetta fjallar eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði einmitt um einkamarkaðinn og eignarhaldið á honum.

Ég tel nauðsynlegt að gera kröfur um að fjölmiðlar allir skuli, með leyfi forseta: ,,... halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.`` Þetta er einmitt tilvitnun í lög um Ríkisútvarpið. Ég tel að þetta eigi að gilda um alla fjölmiðla í landinu. Til þess að réttur almennings til fjölbreyttrar frjálsrar fjölmiðlunar sé tryggður þarf að tryggja að eignarhaldið safnist ekki allt á eina hendi. Hvernig við svo gerum það yrði verkefni þessarar nefndar.

Mig langar til þess að víkja aðeins að því sem spannst í orðræðu milli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar og Össurar Skarphéðinssonar um hvort máli skiptir hvert formlegt eignarhald á fjölmiðlum er. Hér var réttilega og eðlilega vitnað í þátttöku LÍÚ í kosningabaráttunni liðið vor. Ég er ein þeirra sem lenti í þeirri mjög svo sérkennilegu aðstöðu í kosningabaráttunni að fara í viðtöl ekki á einum ljósvakamiðli heldur tveimur. Viðmælandinn var ekki í framboði. Hann var ekki frá þeim flokkum sem studdu kvótakerfið. Hann var alltaf frá LÍÚ. Þetta var vissulega sérkennileg upplifun. Þetta skiptir máli vegna þess að við verðum að geta gert þær kröfur til fjölmiðla að þeir séu trúverðugir. Hver væri trúverðugleiki, við skulum segja, sjónvarpsstöðvar í eigu einhvers bankans hér eða fjármálafyrirtækjanna sem væri að fjalla um vaxtaokrið í bönkunum eða í viðkomandi banka? Hver væri trúverðugleiki þess fjölmiðils? Hann væri náttúrlega enginn á því sviði. En hann yrði fljótlega enginn á öðrum sviðum einnig, því miður. Þannig fjölmiðlun viljum við ekki hafa. Það er miklu betra eins og það er núna að LÍÚ gefi út sitt fréttablað og að greiningardeildir bankanna komi með sín sjónarmið þegar þeir fjalla um efnahagsmál.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson beindi til mín fyrirspurnum um hvað átt væri við í tillögugreininni þar sem fjallað er um hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs og hvort þörf sé á að sporna með lagaákvæðum eða öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Hann spurði við hvað í rauninni væri átt. Hann svaraði sér að nokkru leyti sjálfur og það var auðvitað alveg rétt sem hann sá í gegnum þetta. Það er verið að tala annars vegar um beinan fjárstuðning eins og til að mynda er gert á Norðurlöndunum með því að efla dagblað númer tvö og eins jafnvel með leiðbeinandi reglum á sviði samkeppnismála ef þörf krefur. Það er allt opið í þessu eins og annað í þessari tillögu.

Nokkuð hefur verið komið inn á það hvernig dagblaðamarkaðurinn leit hér út fyrir svo sem eins og tíu árum. Ég þekki það mætavel. Ég var blaðamaður á pólitísku dagblaði í tíu ár undir ritstjórn m.a. hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og reyndar þriggja eða fjögurra annarra hv. fyrrverandi þingmanna allra. Það var lífsreynsla út af fyrir sig. En það fór enginn í grafgötur með það að Þjóðviljinn og Alþýðubandalagið voru tvær greinar af sama meiði ekki frekar en nokkur maður fer í grafgötur um það hverra hagsmuna Morgunblaðið gætir eða hverra erinda það gengur alla vega þegar kemur að tveimur málaflokkum sem eru utanríkismálin og svo þegar komið er að kosningum því að þá fellur gríman. Þess vegna vil ég segja að það er miklu meiri þörf núna en áður til þess að setja lagaramma um þessa starfsemi vegna þess að hagsmunagæslan í þjóðfélaginu er ekki eins grímulaus og áður var.