Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:11:57 (2396)

2003-12-02 19:11:57# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. sagði réttilega: ,,En það fór enginn í grafgötur með það að Þjóðviljinn og Alþýðubandalagið voru tvær greinar af sama meiði ...`` Það var svo sannarlega rétt. Svo sagði hv. þm. líka að engum dyldist þegar kemur að kosningum að þá falli gríma Morgunblaðsins. Ég skildi hv. þm. þannig að hún væri að halda því fram að þá kæmi það fram að Morgunblaðið gengi fyrst og fremst erinda Sjálfstfl. Hún leiðréttir mig þá ef svo er ekki.

Sjálfstfl. hefur ráðið Ríkisútvarpinu lengi og raðað þar inn yfirmönnum sem hafa óneitanlega haft áhrif á miðilinn. Er hv. þm. þá ekki reiðubúin að fallast á að einn tiltekinn skoðanahópur sé orðinn markaðsráðandi á sviði fjölmiðlunar? Má þá ekki halda fram að Sjálfstfl. ráði í reynd mjög miklu á blaðamarkaði og hafi ákaflega mikið að segja um hvernig a.m.k. hluti ríkisfjölmiðlunarinnar er? Hvernig vill hún bregðast við því? Telur hún að slík staða sé ásættanleg? Er kannski nauðsynlegt að hennar mati að setja niður sérstaka nefnd um það?

Ég vil svo segja, virðulegi forseti, að ég er algjörlega á móti því að við rennum til baka í fortíðina og aftur inn í skeið ríkisstyrktra blaða sem hugsanlega eru í eigu stjórnmálaflokka eða fyrirtækja. Ég er algjörlega á móti því og er að því leytinu til mjög ósammála tillögu hv. þm.