Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:14:53 (2398)

2003-12-02 19:14:53# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. sagði áðan að að hennar mati kæmi það berlega í ljós fyrir kosningar að Morgunblaðið fylgdi Sjálfstfl. að máli. Hún hefur líka gert sér grein fyrir því að sami flokkur er ákaflega ráðandi um töluverðan hluta ríkisfjölmiðlanna. Getum við þá ekki orðið sammála, virðulegi forseti, um að sú tillaga sem hér liggur fyrir nær alls ekki nógu langt. Ef menn ætla að koma í veg fyrir hættulega skoðanalega samþjöppun á fjölmiðlamarkaði þá er ekki hægt annað en taka allt sviðið undir.

Ég vil hins vegar segja til að taka af öll tvímæli að ég er reiðubúinn til þess að skoða lagasetningu um gegnsæi varðandi eignarhald og um aðgerðir til þess að styðja ritstjórnarfrelsi miðlanna. En ég er að svo stöddu ekki reiðubúinn til þess að taka þátt í því að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar eða hef orðið það eftir því sem þessari umræðu hefur undið fram í dag, að líkast til væri hægt að ná því markmiði sem hv. þm. og meðflutningsmenn hennar vilja ná með því að reisa skorður við ítökum eigenda í ritstjórnarfrelsið, koma í veg fyrir að þeim sem eiga fjölmiðla takist að koma viðhorfum sínum eða skoðun í gegnum fjölmiðlana með ósæmilegum hætti.