Sjóntækjafræðingar

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:18:32 (2400)

2003-12-02 19:18:32# 130. lþ. 39.19 fundur 340. mál: #A sjóntækjafræðingar# (sjónmælingar og sala tækja) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:18]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um sjóntækjafræðinga, nr. 17/1984.

Að undanförnu hefur farið fram mikil umræða um réttarstöðu sjóntækjafræðinga gagnvart ávísun á sjónhjálpartæki. Ólík sjónarmið hafa verið lögð fram. Sjóntækjafræðingar hafa lagt áherslu á að ná fram breytingum á lögum um sjóntækjafræðinga, með það fyrir augum að einkaréttur augnlækna til sjónmælinga verði afnuminn og sjóntækjafræðingar öðlist þennan rétt líka. Augnlæknar hafa hins vegar lagt áherslu á að ákvæðið um tilvísun læknis verði óbreytt.

Í janúar 2002 fór heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið þess formlega á leit við landlæknisembættið að það tæki til skoðunar starfssvið sjóntækjafræðinga í ljósi óska þeirra og krafna um breytingar og barst ráðuneytinu greinargerð landlæknis í september 2003. Það var álit landlæknisembættisins að tímabært væri að breyta lögum nr. 17/1984, um sjóntækjafræðinga, á þann hátt að sjóntækjafræðingar fái með vissum skilyrðum og takmörkunum að ávísa sjónhjálpartækjum, gleraugum og snertilinsum, enda verði sett nánari skilyrði í reglugerð um menntun sjóntækjafræðinga. Einnig verði sett takmörkun á heimildum sjóntækjafræðinga til sjónmælinga á nánar tilteknum hópum þar sem gæta þarf sérstakrar varúðar, svo sem barna, aldraðra og ákveðinna sjúklingahópa. Greinargerðin fylgir frumvarpinu til nánari skýringa á aðdraganda lagasetningarinnar um sjóntækjafræðinga, nr. 17/1984, og þess frumvarps sem nú er lagt fram.

Bent hefur verið á að bæði fyrir og eftir gildistöku laganna um sjóntækjafræðinga frá 1984 hafa þeir mælt fyrir og afgreitt linsur.

Sjóntækjafræðingar telja að núgildandi lög takmarki starfsemi þeirra mun meira en lög og reglur nágrannalandanna gera. Benda þeir á að flestir þeirra hafi aflað sér menntunar sem meðal annars nái til mælinga fyrir sjónhjálpartækjum. Þeir telja því lögin vera takmarkandi fyrir því að þeir fái að fullu notið menntunar sinnar í störfum sínum hér á landi.

Sjóntækjafræðingar halda því fram að þeir hafi frá upphafi viljað hafa miklar takmarkanir á heimildum sínum til sjónlagsmælinga til að tryggja besta þjónustu fyrir sjúklingana. Ekkert hefur komið fram annað en að sjóntækjafræðingar séu enn sama sinnis, þ.e. vilji fá heimild til sjónlagsmælinga, með takmörkunum.

Sjóntækjafræðingar benda einnig á þá þróun sem orðið hefur á síðustu árum. Stöðluð lesgleraugu sé hægt að kaupa á flestum bensínstöðum og stórmörkuðum. Að baki kaupum á slíkum sjónhjálpartækjum búa engar sjónlagsmælingar af hálfu augnlækna. Einstaklingurinn sjálfur annast sjónlagsmælinguna og kaupir gleraugu sem hann telur passa.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á 5. gr. laganna. Annars vegar er lagt til að 1. mgr. 5. gr. falli brott, en þar segir nú: ,,Sjóntækjafræðingar annast alla almenna gleraugnaþjónustu, þ.e.a.s. sölu gleraugna og vinnslu þeirra.``

Eins og áður hefur komið fram hafa stöðluð gleraugu verið til sölu í stórmörkuðum og víðar um árabil og mæla kaupendur þá sjálfir hvaða styrkleika þeir telja sig þurfa. Með sama hætti hafa augnlæknar sem sjónmæla fyrir snertilinsum einnig annast sölu þeirra. Í samræmi við þessa þróun er lagt til að 1. mgr. 5. gr. laganna falli brott þannig að ljóst sé að aðrir en sjóntækjafræðingar megi annast almenna sölu fullunninna sjónhjálpartækja.

Í frv. er auk þess lagt til að ráðherra geti í reglugerð heimilað þeim sjóntækjafræðingum sem hafa fullnægjandi menntun að annast sjónmælingar. Gert er ráð fyrir að við mat á menntunarkröfum verði höfð hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru í nágrannalöndum okkar til þeirra sem heimild hafa til sjónmælinga. Þá er gert ráð fyrir að sett verði í reglugerð ákvæði um að heimild til sjónmælinga nái ekki til nánar tilgreindra hópa, svo sem barna undir nánar tilteknum aldri, aldraðra og hópa sem taldir eru í sérstakri áhættu. Við samningu reglugerðar verður haft samráð við landlækni, augnlækna og sjóntækjafræðinga.

Augnlæknar hafa lýst áhyggjum sínum vegna þessara breytinga sem hafa verið til umræðu um nokkurt skeið. Er eðlilegt að þeir beri sjón- og augnheilsu landsmanna fyrir brjósti enda staðið í fararbroddi margra og árangursríkra aðgerða á þessu sviði. Ég tel því mikilvægt að leggja aukna áherslu á forvarnir og fræðslu um augnsjúkdóma sem hingað til hefur á vissan hátt verið tengt því að fólk sæki sér gleraugu. Mun ég beina því til landlæknis að fræðsla verði aukin um mikilvægi þess að leita til augnlækna ef fólk tilheyrir vissum áhættuhópum og aldurshópum. Einnig verður sjóntækjafræðingum skylt að vísa fólki í þessum hópum áfram til augnlækna. Á þennan hátt tel ég að sjúkdómaleit og fyrirbyggjandi aðgerðir í þágu augnheilsu landsmanna verði enn markvissari en nú er.

Virðulegi forseti. Í ræðu minni hef ég farið lauslega yfir aðdraganda þess að ég legg fram frv. til laga um breytingu á lögum um sjóntækjafræðinga. Ég tel mikilvægt að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilr.- og trn. og til 2. umr.