Rannsóknir á setlögum við Ísland

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:08:16 (2419)

2003-12-03 14:08:16# 130. lþ. 41.1 fundur 355. mál: #A rannsóknir á setlögum við Ísland# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau svör sem hér komu og jafnframt síðasta ræðumanni fyrir orð hans. Það er áhugavert og athyglisvert að skoða forsögu leitar að olíu og gasi í Norðursjó. Það kom fram hjá vísindamönnum hér á árum áður að enginn skyldi láta sér detta það í hug, hvað þá láta sig dreyma um það, að olíu eða gas væri að finna á Norðursjávarsvæðinu. En reyndin hefur orðið allt önnur.

Menn hafa líka rætt um að nauðsynlegt væri að reyna boranir í Grímsey. Það voru hafnar boranir í Flatey á Skjálfanda. En því miður bilaði borinn þegar borað hafði verið nokkur hundruð metra þannig að ekki var því verki lokið og væri full ástæða til þess að skoða það enn frekar.

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. sagði hér fyrir líklega einu og hálfu ári síðan að dýptarmælingar sem þá höfðu farið fram á vegum Sjómælinga Íslands gerðu það að verkum að nú væri miklu einfaldara og ódýrara að rannsaka þau setlög sem þykkust eru og þar sem líkurnar eru mestar.

Virðulegi forseti. Ég tel fulla ástæðu fyrir okkur Íslendinga að leggja meira fjármagn og meiri vinnu í að gera olíuleit enn eftirsóknarverðari. Hins vegar kom hæstv. iðnrh. að því í máli sínu áðan að þegar væri vaxandi áhugi erlendra aðila á olíuleit og borun, að vísu ekki hér við strendur Íslands heldur á Jan Mayen-svæðinu. Vonandi verður hægt að vinna enn frekari gögn til þess að vekja athygli og áhuga erlendra aðila á svæðinu frá Öxarfirði til Eyjafjarðar og þá auðvitað Grímsey og Flatey og þeim rannsóknum sem þar liggja fyrir nú þegar. En auðvitað þarf að vinna betur til þess að gera markaðsvöruna eftirsóknarverðari.