Starfskjör á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:19:47 (2425)

2003-12-03 14:19:47# 130. lþ. 41.2 fundur 347. mál: #A starfskjör á fjármálamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þau svör sem hún gaf hér. Þau eru skýr. Af hálfu Fjármálaeftirlitsins hafa þegar, og þá væntanlega nýlega, verið settar reglur um fjármálamarkaðinn, banka og sparisjóði, þ.e. skyldu þeirra til að upplýsa opinberlega um kjör sín. Það verður þá gert vegna yfirstandandi árs, reikningsárs 2003, og síðan skildi ég ráðherrann á þann veg að það væri verið að undirbúa reglur að því er varðar lífeyrissjóðina sjálfa og það mundi þá gilda vegna starfskjara þeirra fyrir 2004 og síðan væri viðskrn. að innleiða líka reglur sem skylda stjórnendur vátryggingafélaga til þess að upplýsa í ársreikningum sínum um starfskjörin. Ég spyr ráðherra hvort þetta sé ekki rétt, hvort þetta eigi ekki að gera með sambærilegum hætti og gert er í Kauphöllinni, þetta verði sundurliðað á einstaklinga, það verði ekki bara upplýsingar um starfskjörin heldur líka um kaupréttarsamninga, starfslokasamninga og lífeyrisréttindi eins og er hjá Kauphöllinni. Það er mikilvægt að fá fram að þetta sé með nákvæmlega sambærilegum hætti.

Herra forseti. Það er full ástæða til að fagna þessu. Það er ljóst að það er að bera árangur hvað við í stjórnarandstöðunni höfum gengið fast eftir því að upplýsingar væru klárar, skýrar og gegnsæjar varðandi starfskjör stjórnenda á vinnumarkaðnum, fjármálamarkaðnum og hjá lífeyrissjóðunum. Það hefur verið allt of mikill feluleikur með starfskjör og launakjör þessara aðila en nú á sem sagt að upplýsa þetta og það er full ástæða til þess að fagna því, herra forseti, að eftirfylgni okkar í stjórnarandstöðunni er að bera árangur að því er varðar þessa þætti.

En ég beindi spurningu til hæstv. ráðherra sem ég vona að hún svari í lokin.