Kvótamiðlun Landssambands íslenskra útvegsmanna

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:23:43 (2427)

2003-12-03 14:23:43# 130. lþ. 41.3 fundur 349. mál: #A kvótamiðlun Landssambands íslenskra útvegsmanna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Viðskipti með aflaheimildir urðu umfangsmikil strax og kvótakerfið var tekið upp en þau margfölduðust þegar hið svokallaða frjálsa framsal var leyft árið 1990. Allan þennan tíma hefur ríkisvaldið tekið ábyrgð á undarlegum viðskiptaháttum með aflaheimildir með því að ákveða svokölluð þorskígildi og gera útgerðum þannig kleif viðskipti sín á milli með mikil verðmæti án þess að þau væru bókuð í reikninga fyrirtækjanna á markaðsverði eins og ætti auðvitað að gera. En þessi fyrirtæki hafa ekki bara skipst á veiðiheimildum, þau hafa líka leigt frá sér veiðiheimildir og þau viðskipti, þ.e. bein leiga, hafa verið mikil. Að mati Hagstofunnar voru þetta t.d. 3 milljarðar á síðasta ári. Hagstofan byggir útreikninga sína á bókhaldi fyrirtækjanna þannig að það er augljóst þeim sem vita vilja að sú upphæð, þótt há sé, segir ekki nema hluta sögunnar um umfang þessara viðskipta.

Til viðbótar viðskiptunum hefur viðgengist að útgerðir ,,geymi`` veiðirétt sem aðrar útgerðir hafa ekki tök á að nýta sér yfir fiskveiðiáramót --- sem líka geta verið uppgjörsáramót fyrirtækjanna, ég vek athygli á því --- svo að veiðirétturinn falli ekki niður. Þannig færast óskráð en afar mikil verðmæti milli aðila í þessari atvinnugrein. Stjórnvöld bera mikla ábyrgð á þessu máli, stuðla bókstaflega að því að þessi viðskipti séu undir yfirborðinu hvað verðmætin snertir með því að leggja blessun sína yfir skiptin í þorskígildum. Þó eru þetta klárlega ólögmætir viðskiptahættir.

Til sönnunar þeirri fullyrðingu vil ég vekja athygli á bréfi sem ríkisskattstjóri skrifaði skattstjórum í landinu 30. júlí 2002. Þar eru tekin af öll tvímæli um að fyrirtækjunum sé skylt að færa í bækur sínar að fullu þau verðmæti sem færð eru á milli þeirra. Mér er hins vegar kunnugt um að kvótamiðlun LÍÚ, þar sem meginhluti þessara viðskipta fer fram, og aðrir einstaklingar og fyrirtæki sem stunda þessi viðskipti halda uppteknum hætti. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Er viðskiptaráðuneytinu kunnugt um starfshætti og umfang þeirrar kvótamiðlunar sem Landssamband íslenskra útvegsmanna rekur á eigin kostnað?

Þessi fyrrnefnda starfsemi hefur að stórum hluta verið á höndum LÍÚ í gegnum tíðina og LÍÚ er félagsskapur atvinnurekenda sem hafa mismunandi hagsmuni. Samt hefur LÍÚ veitt þessa þjónustu án endurgjalds og þannig látið þá sem engrar þjónustu hafa notið greiða hluta kostnaðarins. Margir velta því fyrir sér hvort þetta séu eðlilegir viðskiptahættir og því spyr ég hæstv. ráðherra:

2. Telur ráðuneytið það standast lög að samtök hagsmunaaðila annist slíka starfsemi og láti félagsmenn greiða kostnaðinn óháð því hvort þeir nýta sér þjónustuna?

Þriðju spurninguna hefur ráðherrann. Ég hef ekki tíma til að lesa hana.