Kvótamiðlun Landssambands íslenskra útvegsmanna

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:32:51 (2431)

2003-12-03 14:32:51# 130. lþ. 41.3 fundur 349. mál: #A kvótamiðlun Landssambands íslenskra útvegsmanna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég get ekki sagt að mér hafi komið svör hæstv. viðskrh. neitt sérstaklega á óvart. Mér hefur alltaf fundist að þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á því kerfi sem er í gangi hérna hafi svona látið það vera að kynna sér hvernig það gengur fyrir sig og hvernig þau kaup gerast á eyrinni sem þarna eru á ferðinni. En þarna bera stjórnvöld auðvitað alla ábyrgð vegna þess að þau hafa sett reglur um að menn megi láta gífurleg verðmæti fara milli sín án þess að þau séu skráð í bækur fyrirtækjanna. Og það hafa menn auðvitað gert. En nú er komið babb í bátinn því auðvitað er þetta skattavandamál líka og þarna hefur farið fram kennitöluleikfimi sem á sér engan líka sennilega í sögu Íslands, þar sem menn hafa bókstaflega keypt fyrirtæki og selt að hluta til með því að greiða með aflaheimildum.

Ég fagna því að hæstv. sjútvrh. segir okkur það hér að hann hafi áhyggjur af þessu máli og vilji nú reyna að taka eitthvað á því, og það er sannarlega fyrir löngu kominn tími til þess. Það hefur margsinnis komið fram að menn hafa talið sér, a.m.k. þangað til ríkisskattstjóri skrifaði þetta bréf 2002, heimilt að framkvæma þessa hluti með þeim hætti sem þeir hafa gert, þótt það hafi vissulega verið bent á að þetta stæðist engan veginn skattalög.

En ég verð að segja það að þeir menn sem hafa stutt þetta kerfi alveg fram á þennan dag og eru að rumska núna, eru búnir að sofa allt of lengi.