Kaupréttarsamningar

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:35:57 (2433)

2003-12-03 14:35:57# 130. lþ. 41.4 fundur 378. mál: #A kaupréttarsamningar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í þeim miklu umræðum sem orðið hafa um ofurkjörin í kaupréttarsamningunum hafa menn m.a. velt fyrir sér hvort almennt sé hægt að gera kaupréttarsamninga til fimm ára við stjórnarformann sem kosinn er til eins árs í senn á aðalfundi, og þar með eru menn að velta fyrir sér hvort hluthafafundir séu bara almennt svona málamyndasamkomur. A.m.k. er hér um mjög sérkennilega stjórnarhætti að ræða. Þetta segir okkur, herra forseti, að það er afar brýnt að setja reglur um stjórnarhætti í fyrirtækjum til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, m.a. að settar verði á fót hlutlausar launanefndir innan fyrirtækja, skipaðar óvilhöllum aðilum úr stjórn fyrirtækjanna, svo dæmi sé tekið. Eins þarf það að liggja klárt fyrir hvort sú leið sé virkilega fær sem gerð var varðandi stjórnarformann Kaupþings Búnaðarbanka.

Fyrri liður fyrirspurnar sem ég flyt ásamt hv. þm. Ásgeiri Friðgeirssyni lýtur að þessu, en ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir lagabreytingu til að koma í veg fyrir að gerðir séu kaupréttarsamningar til nokkurra ára við stjórnarformann eða aðra stjórnarmenn fyrirtækja sem kosnir eru á hluthafafundi til eins árs í senn, og hvort Fjármálaeftirlitið hafi gert athugasemd við þetta fyrirkomulag.

Síðari liður fyrirspurnarinnar lýtur einnig að stjórnarháttum innan fyrirtækja, en víða eru lánveitingar til hlutabréfakaupa ýmist bönnuð eða sett mjög ströng skilyrði fyrir veitingu slíkra lána. Lagaákvæði 104. gr. hlutafjárlaga eru mjög skýr um að hvorki sé heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum lán né setja tryggingar fyrir þá, en það var einmitt gert í tilviki Kaupþings Búnaðarbanka. Stjórnendurnir fengu lán fyrir öllum herlegheitunum án þess að setja fram tryggingar fyrir því sjálfir, áttu sem sagt að bera hagnaðinn en ekki tapið. En ákvæði í þeirri grein sem ég vitnaði til, 104. gr., segir að starfsmenn séu undanþegnir þessu ákvæði. Það hefur að mínu viti og reyndar margra annarra verið mistúlkað og stjórnendur hafa reynt að túlka þetta ákvæði sér í hag, en ég hygg að það hafi verið sett til þess að hvetja starfmenn almennt til að taka þátt í hlutafélagavæðingunni þegar hún reis sem hæst fyrir nokkrum missirum og árum. Undanþáguákvæðið í 104. gr. lýtur að almennum starfsmönnum en ekki stjórnendum, sem er bannað að taka slík lán eða að sé settar séu fyrir þá tryggingar. Um þetta fjallar 2. liður fyrirspurnarinnar, hvort Fjármálaeftirlitið geri athugasemd við að kaupréttarsamningar stjórnenda séu fjármagnaðir með lánsfé frá viðkomandi fjármálafyrirtæki án tryggingar í öðru en bréfunum.