Ferðaþjónusta bænda

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:49:56 (2440)

2003-12-03 14:49:56# 130. lþ. 41.25 fundur 361. mál: #A ferðaþjónusta bænda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÖB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Önundur S. Björnsson):

Virðulegi forseti. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár og hafa ferðaþjónustubændur ekki síst verið þar inni í myndinni. Þeirra framlag hefur farið mjög vaxandi og æ fleiri bændur sinna þjónustu við ferðamenn, annaðhvort í hlutastarfi eða sem aðalstarfi. Nýlegar fréttir herma að umtalsverðar tekjur renni inn í þjóðarbúið vegna sölu á vörum og þjónustu til ferðamanna, 30 milljarðar kr. á ári hafa verið nefndir í því sambandi.

Nú átta ég mig á því að ferðamál eru á forræði samgrh. en ekki landbrh. Hins vegar eru bændur þessa lands skjólstæðingar landbrh. og í ljósi þess að þessi þáttur landbúnaðar, þjónusta við ferðamenn, verður æ stærri á landsbyggðinni vil ég inna hæstv. landbrh. eftir tilteknum atriðum í starfi þeirra.

Fyrst vil ég spyrja hann um umfang þessarar starfsemi í landbúnaði og hversu margir bændur hafi af því tekjur að þjónusta ferðamenn.

Enn fremur inni ég ráðherra eftir því hvernig hann sjái stöðu þessara bænda og framtíðarhorfur í greininni.

Nú er það ekkert launungarmál að margir bændur hafa lagt í miklar fjárfestingar vegna þessarar þjónustu og hafa tekið lán vegna þess, m.a. frá Byggðastofnun, en á síðasta ársfundi þeirrar stofnunar komu fram verulegar áhyggjur af því að lánþegar í hópi bænda hjá Byggðastofnun ættu erfitt með að standa undir þessum skuldbindingum. Og ég vil spyrja ráðherra hvort hann deili þessum áhyggjum með bændum.

Af þessum sökum hef ég lagt eftirfarandi fsp. fram á þskj. 480:

1. Hversu margir bændur sinna ferðaþjónustu að hluta eða öllu leyti?

2. Hver er staða þeirra og hverjir eru framtíðarmöguleikar greinarinnar að mati ráðherra?