Ferðaþjónusta bænda

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:52:09 (2441)

2003-12-03 14:52:09# 130. lþ. 41.25 fundur 361. mál: #A ferðaþjónusta bænda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta fsp. um mikilvægan atvinnuveg sem er í mikilli þróun og er að taka við miklu hlutverki á Íslandi. Ég hygg að ferðamennirnir sem hingað koma, og ekkert síður Íslendingarnir sem um landið ferðast, líti á bændurna sem hina mikilvægu aðila í náttúru landsins sem bæði þekkja hana og halda utan um hana og vilji í vaxandi mæli allra fremst kaupa af þeim þjónustu þar sem þeir fara um, njóta gestrisni og tengjast menningu íslenskra sveita beint. Ég lít mjög björtum augum á framtíð þessa atvinnuvegar, ekki síst miðað við þær horfur sem eru í áætlunum um að fjölga ferðamönnum. Flugleiðir tala um að fjölga ferðamönnum til Íslands um helming á næstu sjö árum. Í því liggja gríðarleg tækifæri fyrir landsbyggðina og sveitirnar.

Hv. þm. spyr hversu margir stundi ferðaþjónustu. Í Ferðaþjónustu bænda eru skráðir 130 aðilar, þetta eru þeir sem bjóða upp á gistingu. Þar fyrir utan eru auðvitað mjög margir sem bæði sækja tekjur í þessa ferðaþjónustu og stunda hana með margvíslegum hætti. Þeir aðilar sem hafa beinar og óbeinar tekjur af ferðaþjónustu skipta orðið nokkuð mörgum hundruðum en formlegir aðilar að Ferðaþjónustu bænda eru 130.

Helmingur þessara ferðaþjónustubænda stundar hefðbundinn landbúnað jafnframt. Í vaxandi mæli hefur það einnig gerst að margir þeirra hafa hætt hefðbundnum búskap og sinna þessu starfi eingöngu í náttúrunni o.s.frv. þannig að maður sér þarna ýmsar breytingar.

Hver er staða þeirra og hverjir eru framtíðarmöguleikar greinarinnar? Umsvif ferðaþjónustu á Íslandi hafa vaxið mjög eins og ég gat um áðan. Það eru 3.200 uppbúin rúm til staðar hjá þessum 130 ferðaþjónustubændum. Þá hefur verið lögð áhersla á að efla afþreyingarþáttinn, auk þess að leggja meiri áherslu á gæði gistingar og þjónustu. Þessi uppbygging meðal bænda er mikilvæg því ferðamaðurinn gerir auknar kröfur og forsenda þess að hann dveljist lengur á svæðinu er að afþreyingin sé til staðar. Ég vil því segja hér að ég sé það í kjördæmi mínu og hv. fyrirspyrjanda að það er mikið af ónýttum möguleikum.

Hv. þm. minntist hér á fjármálin. Það var niðurstaða fyrir nokkuð mörgum árum að Lánasjóður landbúnaðarins væri ekki mikið í ferðaþjónustu, heldur Byggðastofnun. Byggðastofnun og bankarnir bera þá ábyrgð á því. Umkvartanir frá ferðaþjónustubændum hafa ekki borist til mín um stöðu þeirra þótt þeir ræði gjarnan um þau verkefni. Ég held að bjartsýni ríki í röðum þeirra þótt alltaf sé eitthvað um áföll. Það er engin sérstök skoðun á því en þetta heyrir undir Byggðastofnun eins og ég gat um.

Ferðaþjónustuþátturinn, við höfum lagt mikið upp úr því í Hólaskóla að þjálfa upp ferðaþjónustubændur og veita námskeið. Eins eru það auðvitað leiðsögumenn og fleira. Það er mikið að gerast á þessum vettvangi. Ég tel að mikill árangur hafi náðst.

En ég segi það hér að ég hef þegar á þessu nýja kjörtímabili lagt upp úr því að við förum að taka það alveg sérstökum tökum að efla og styrkja ferðaþjónustuna. Hún er hluti af íslenskum landbúnaði, hún er besti hlutinn af kynningu á íslensku landi og náttúru þessa lands. Þau verkefni eru komin í gang hjá mér og ég hygg að margar auðlindir í kringum ferðaþjónustu séu vannýttar og megi bæta með einföldum hætti. Við höfum séð hinar glæsilegu hátíðir sem verið er að byggja upp og þær hafa mikið að segja fyrir landsbyggðina. Þar má nefna hina miklu auðlind í kjördæmi hv. þingmanns, Njálu, sem var ekki sögð fyrir nokkrum árum en dregur nú að sér 20--30 þús. gesti. Margar slíkar hátíðir styrkja ferðaþjónustubændur og tengja fólkið í landinu við náttúru landsins. Ég held að það sé verðugt verkefni, eins og ég hef sagt hér, bæði í framhaldi af þessari fsp. og því sem ég hef verið að ræða í ráðuneyti mínu. Ég var síðast með einum leiðsögumanni í morgun að fara yfir alla þá miklu og nýju vannýttu möguleika sem eru í kringum ferðaþjónustu bænda og fólk vill sækja í. (Forseti hringir.) Ég er, hæstv. forseti, bjartsýnn á þessa atvinnugrein. Ég heyri ekki mikið um (Forseti hringir.) umkvartanir. Ég þekki auðvitað að staða ferðaþjónustubændanna er með nokkuð misjöfnum hætti efnahagslega eins og í mörgum öðrum greinum.