Frágangur efnistökusvæða

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:06:40 (2448)

2003-12-03 15:06:40# 130. lþ. 41.5 fundur 168. mál: #A frágangur efnistökusvæða# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 170 hef ég lagt fram fsp. til umhvrh. um frágang efnistökusvæða. Eins og margir hv. þm. muna voru sett hér ný náttúruverndarlög á vorþingi 1999. Í VI. kafla þeirra laga er að finna mjög hert ákvæði um efnistöku frá því sem áður var. Eins og fram kom í skýrslu Náttúruverndarráðs sem út kom í nóvember 1995, voru 2.300 námur í landinu og frágangur á mörgum þeirra óviðunandi svo ekki sé meira sagt. Í ákvæði II til bráðabirgða í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, er kveðið á um að umhvrh. skuli fela Náttúruvernd ríkisins, sem nú er Umhverfisstofnun, í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og framkvæmdaraðila, að gera tillögur um frágang efnistökusvæða sem hætt er að nota og eftir atvikum þeirra sem nú eru í notkun og ekki liggur fyrir áætlun um frágang á. Samkvæmt ákvæðinu skal stofnunin gera áætlun um frágang svæðanna og kostnað við hann, svo og tillögur um greiðslu kostnaðar. Þá skal stofnunin enn fremur hafa umsjón með frágangi svæðanna.

Í ákvæði þessu til bráðabirgða kemur fram að fráganginum skuli lokið eigi síðar en árið 2003 og nú háttar svo til að það er komið að lokum árs 2003. Þess vegna spyr ég hæstv. umhvrh.: Hvað líður tillögum um frágang efnistökusvæða, sbr. ákv. til brb. II í náttúruverndarlögum, nr. 44/1999?