Frágangur efnistökusvæða

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:08:41 (2449)

2003-12-03 15:08:41# 130. lþ. 41.5 fundur 168. mál: #A frágangur efnistökusvæða# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Hér er spurt: Hvað líður tillögum um frágang efnistökusvæða, sbr. ákv. til brb. II í náttúruverndarlögum 44/1999? Því er til að svara að samkvæmt ákv. til brb. II í lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd, skal umhvrh. fela Náttúruvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og framkvæmdaraðila, að gera tillögur um frágang efnistökusvæða sem hætt er að nota og eftir atvikum þeirra sem nú eru í notkun og ekki liggur fyrir áætlun um frágang á. Skal stofnunin gera áætlun um frágang svæðanna og kostnað við hann, svo og tillögur um greiðslu kostnaðar. Þá skal stofnunin enn fremur hafa umsjón með frágangi svæðanna. Skal honum lokið eigi síðar en árið 2003.

Náttúruvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, hóf árið 2000 samstarf við Vegagerðina um frágang á gömlum námum og verður því haldið áfram á næstu árum. Árlega hafa verið valdar allt að 40 námur til að ganga frá. Starfsmenn viðkomandi stofnana hafa gert áætlanir um frágang á þessum námum og síðan fylgt því eftir að endanlegur frágangur verði í samræmi við þær áætlanir.

Þar sem kostnaður við frágang hverrar námu getur verið nokkuð hár, hefur verið miðað við að ganga frá um fimm til sex námum í hverju umdæmi Vegagerðarinnar á hverju ári. Kostnaður við frágang námanna er greiddur af Vegagerðinni og getur numið allt að 100 þús. kr. til 500 þús. kr. á hverja námu. Miðað við árangur undanfarinna ára er ljóst að það eru nokkur ár í að það takist að ganga frá námum sem nú eru ófrágengnar.

Siglingastofnun og Umhverfisstofnun hafa ákveðið að fara í sams konar samstarf um frágang á námum sem opnaðar hafa verið í tengslum við hafnarframkvæmdir.

Flestar námur í landinu eru á vegum opinberra aðila og því telur Umhverfisstofnun að gott samstarf við opinberar stofnanir sé lykilatriði í því að vinna að frágangi eldri efnistökusvæða. Talið er að Vegagerðin nýti a.m.k. 70% þeirra náma sem opnaðar hafa verið og margar þeirra grjótnáma sem verið hafa í notkun hafa verið nýttar í tengslum við hafnargerð.

Náttúruvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, vakti athygli Sambands íslenskra sveitarfélaga á samstarfsverkefni stofnunarinnar og Vegagerðarinnar um markvissan frágang eldri efnistökusvæða með bréfi, dags. 21. nóvember 2001. Í bréfinu var á það bent að þau sveitarfélög sem óski etir að koma á framfæri athugasemdum og sjónarmiðum sínum varðandi frágang náma Vegagerðarinnar, gætu snúið sér til Náttúruverndar ríkisins. Einnig var vakin athygli á því að Vegagerðin muni einungis ganga frá þeim námum sem stofnunin hefur nýtt og að frágangi loknum verði ekki um frekari frágang að ræða af hálfu Vegagerðarinnar. Tilgangurinn með fyrrgreindu bréfi var jafnframt að vekja athygli á ákv. til brb. II í lögum um náttúruvernd.

Það liggur ljóst fyrir að sá tími sem gefinn er samkvæmt ákv. til brb. II í lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd, er of skammur til að hægt verði að ljúka frágangi þeirra efnistökusvæða sem hætt er að nota. Ástæða þess er fyrst og fremst sá mikli fjöldi náma sem er ófrágenginn. Áætlað er að hér á landi séu u.þ.b. 3.000 efnistökusvæði, en af þeim séu aðeins um 800 í notkun. A.m.k. 1.000 svæði eru enn ófrágengin. Vegagerðin hefur á undanförnum árum skráð í námukerfi sitt allar námur í umdæmi Vegagerðarinnar.

Fljótlega munu liggja fyrir endurskoðaðar upplýsingar um fjölda náma í landinu, m.a. um fjölda þeirra sem eru enn í notkun og þeirra sem eru ófrágengnar. Þessar upplýsingar eru frumforsenda heildstæðrar áætlunar um frágang efnistökusvæða og mun Umhverfisstofnun vinna áfram að framgöngu málsins að þeim upplýsingum fengnum.

Í heildina má því segja að starfið er hafið, gengur ágætlega, en ljóst að við munum ekki ná því markmiði að klára það eins og að var stefnt, heldur eru nokkur ár í að endanlegum frágangi verði lokið.