Náttúruverndaráætlun

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:17:39 (2453)

2003-12-03 15:17:39# 130. lþ. 41.6 fundur 169. mál: #A náttúruverndaráætlun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 171 hef ég lagt fram fsp. til hæstv. umhvrh. um náttúruverndaráætlun. Meðal nýmæla í náttúruverndarlögum, nr. 44/1999, voru ákvæði um náttúruverndaráætlun.

Í 65. gr. náttúruverndarlaga segir að umhvrh. skuli eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt og leggja fyrir Alþingi. Í náttúruverndaráætlun skulu vera sem gleggstar upplýsingar um náttúruminjar, þ.e. náttúruverndarsvæði og lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi, sem ástæða þykir til að friðlýsa. Skal í áætluninni lýst sérkennum minjanna og þýðingu þeirra í náttúru landsins. Áætlun skal m.a. taka til helstu tegunda vistgerða og vistkerfa hér á landi, svo og jarðmyndana.

Nú veit ég að hæstv. umhvrh. hefur verið að vinna að náttúruverndaráætlun og m.a. farið um öll svæði hér á landi sem áætlunin snertir. Það er til fyrirmyndar hjá hæstv. ráðherra. Sömuleiðis voru drög að náttúruverndaráætlun til umfjöllunar á umhverfisþingi.

Í ákvæði til bráðabirgða I í lögum um náttúruvernd er mælt fyrir um það að umhvrh. skuli eigi síðar en árið 2002 leggja náttúruverndaráætlun fyrir Alþingi í fyrsta sinn. Mér hefur skilist að það styttist mjög í að þessi áætlun verði lögð fyrir þingið nú í lok árs 2003. Áætlunin er eftir sem áður ekki komin fram og í raun liggur ekki enn fyrir hver niðurstaðan í því máli verður.

Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hvað líður gerð náttúruverndaráætlunar, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í náttúruverndarlögum, nr. 44/1999?