Náttúruverndaráætlun

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:23:09 (2455)

2003-12-03 15:23:09# 130. lþ. 41.6 fundur 169. mál: #A náttúruverndaráætlun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Mig langar að koma að athugasemd við þá náttúruverndaráætlun sem kynnt var á umhverfisþingi fyrir skemmstu. Athugasemd mín lýtur að því að það er einn afskaplega afgerandi þáttur í íslenskri náttúruvernd sem er sniðgenginn, þ.e. landslag og landslagsvernd. Það var mál manna á umhverfisþinginu að þeirri tegund náttúruverndar hefði mátt gera hærra undir höfði en raun ber vitni í þeirri náttúruverndaráætlun sem liggur fyrir.

Sömuleiðis lýsi ég vonbrigðum með að ekki skuli meira lagt upp úr því að svæði á miðhálendi Íslands skuli vernduð í þessari áætlun. Þó að hún sé ekki til umræðu hér tel ég nauðsynlegt að koma á framfæri að í því sem við höfum séð af því sem í vændum er virðist pottur brotinn. Ég hlakka til að takast á við hæstv. umhvrh. um þetta þegar tillagan verður lögð fram og hún kemur til kasta okkar í þinginu.