Náttúruverndaráætlun

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:25:53 (2457)

2003-12-03 15:25:53# 130. lþ. 41.6 fundur 169. mál: #A náttúruverndaráætlun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Frú forseti. Eins og hér hefur komið fram er verið að vinna náttúruverndaráætlun samkvæmt lögum um náttúruvernd. Fyrirspyrjandi, hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, var einmitt talsvert inni í þeim málum á sínum tíma sem aðstoðarmaður umhvrh. þegar þau lög voru samþykkt. Það er því gaman að eiga orðastað við hv. þm. vegna þessara mála.

Það er rétt að í drögum að náttúruverndaráætlun eru 14 svæði og þar að auki er búið að ákveða í ríkisstjórn að Vatnajökull verði þjóðgarður og þarf því ekki nýja stefnumótun varðandi það atriði. Einnig er að störfum nefnd sem í eru fulltrúar nokkurra þingflokka sem Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri leiðir. Þar er m.a. verið að skoða hvaða svæði er hægt að vernda á miðhálendinu. Það er alrangt að það sé ekki verið að skoða miðhálendið. Það er mikill misskilningur og aðeins til að afvegaleiða umræðuna þegar sagt er að ekki sé verið að skoða miðhálendið. Það þarf ekki að setja það í nýtt ferli enda er það nú þegar í ákveðnu ferli. Það er einmitt verið að skoða miðhálendið varðandi náttúruvernd hér á Íslandi.

Ég vil hins vegar taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur varðandi það að þessi náttúruverndaráætlun er sú fyrsta sinnar tegundar. Þar er ekki tekið beint á landslagsvernd. Þar er ekki heldur tekið á svæðum í hafi, sem væri mjög spennandi að skoða. Þau mál bíða næsta tímabils. En við höfum a.m.k. valið þau svæði sem við setjum í forgang og að sjálfsögðu koma önnur svæði í kjölfarið.

Ég tel það mjög mikilvægt og fagna mjög að frjálsu félagasamtökin hafa tekið vel í þessa áætlun. Ég tel mikilvægt að allir aðilar reyni að útskýra, bæði fyrir sveitarstjórnum, landeigendum og öðrum á þessum svæðum, að í þessari áætlun felst ekki að bannað verði að gera nokkuð á svæðunum. Allt samráðsferlið er eftir. Það er rétt að hefjast og það mun einmitt taka næstu fimm ár.