Þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:28:20 (2458)

2003-12-03 15:28:20# 130. lþ. 41.7 fundur 379. mál: #A þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. 29. september sl. flutti Klaus Töpfer, forstöðumaður Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, skilaboð frá Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, til alþjóðlegrar ráðstefnu um loftslagsbreytingar sem haldin var í Moskvu. Skilaboðin voru eitthvað á þessa leið:

,,Ef fram heldur sem horfir og ekki verður hægt að koma böndum á stöðugt vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið má gera ráð fyrir að móðir jörð eins og við þekkjum hana verði ekki svipur hjá sjón við lok þessarar aldar. Mörg smá eyjaríki verða horfin í hafið. Norður-Íshafið verður íslaust stóran hluta ársins. Landbúnaðarhéruð verða stórlega breytt. Og hringrásir vatns, lofts og efna í vistkerfum jarðar verða undir meira álagi en áður hefur þekkst. Ef þessar spár rætast, munu börnin okkar og barnabörn ekki skilja í okkur að við skyldum hafa látið þetta gerast.``

Frú forseti. Svona lýsti aðalritari Sameinuðu þjóðanna áhyggjum sínum fyrir fáeinum vikum. Undir þær áhyggjur skal tekið hér og því bætt við að mér finnst íslensk stjórnvöld nokkuð værukær í þessum málum og ekki gefa afleiðingum yfirvofandi loftslagsbreytinga nægan gaum. Eða hvenær hefur hæstv. umhvrh. lýst því yfir að hún meti það svo að yfirvofandi loftslagsbreytingar séu einhver mesta ógn sem vofir yfir mannkyni og lífríki jarðar?

Loftslagsmálin eru nú til umræðu í Mílanó á Ítalíu, en þar hófst í fyrradag 9. ríkjaráðstefna aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og stendur ráðstefnan til 12. des. Megintilgangurinn er að gera úrslitatilraun til að koma Kyoto-bókuninni í framkvæmd, en hún er það tæki loftslagssamningsins sem knýr aðildarríkin til tiltekinna markvissra aðgerða með tölulegum markmiðum svo draga megi umtalsvert úr losun gróðurhúsalofttegunda í iðnríkjunum og þar með hlýnun lofthjúpsins á árabilinu 2008--2012.

[15:30]

Óhætt er að fullyrða, frú forseti, að allt velti nú á afstöðu Rússa. Ef þeir fullgilda ekki bókunina, þá nást ekki tilskilin markmið sem eru nauðsynleg til að hún komist í framkvæmd. Sú þjóð sem er í sjálfu sér ábyrg fyrir þeirri stöðu mála er hins vegar Bandaríkjamenn, en það var ljóst í Jóhannesarborg 2002 að Bush Bandaríkjaforseti lagðist gegn því að Bandaríkjamenn fullgiltu bókunina og við það situr.

Í gær og í dag hafa verið að berast fréttir frá Mílanó sem deyfa vonir manna um að Rússar muni fullgilda bókunina. Haft er eftir efnahagsráðgjafa Pútíns forseta, Andrei Illarionov, sem er reyndar ekki sjálfur í Mílanó heldur í Moskvu og er yfirlýstur andstæðingur Kyoto-bókunarinnar, að þeir muni ekki fullgilda hana. En sú frétt hefur komið rússneskum diplómötum sem eru í Mílanó í opna skjöldu. Enn lifa menn í voninni um að Pútín sjálfur muni fá að ráða þessu, enda hefur hann í þrígang lýst þeirri afstöðu að Rússar muni fullgilda. En eins og staðan er núna eru Evrópulöndin mjög að þrýsta á hann og full ástæða til að íslensk stjórnvöld leggist á sveif með þeim.

Af þessu tilefni spyr ég hæstv. umhvrh. hvort íslensk stjórnvöld muni taka þátt í að beita Rússa þrýstingi í þessum efnum. Og síðan hef ég aðrar spurningar til ráðherrans varðandi þátttöku Íslands í 9. aðildarríkjaþinginu sem eru á fskj. sem þingmenn hafa á borðum sínum.