Þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:31:36 (2459)

2003-12-03 15:31:36# 130. lþ. 41.7 fundur 379. mál: #A þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er spurt: Hvernig verður háttað þátttöku Íslands í 9. þingi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem haldið verður í Mílanó í desember? Því er til að svara að Ísland á ásamt Þýskalandi sæti í forsætisnefnd þingsins fyrir hönd Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku, Ástralíu og Nýja-Sjálands. Auk þess fer Ísland með formennsku í vísinda- og tækninefnd þingsins og gegnir Halldór Þorgeirsson, skrifstofustjóri í umhvrn., því starfi. Ísland fer því með mikilvægt hlutverk á fundinum.

Í öðru lagi er spurt: Hvernig verður sendinefnd Íslands skipuð og hverjar verða megináherslur íslensku fulltrúanna á fundinum? Því er til að svara að formaður íslensku sendinefndarinnar er sú er hér stendur, umhverfisráðherra, en aðrir í sendinefndinni eru Gunnar Pálsson, skrifstofustjóri auðlinda- og umhverfisskrifstofu í utanrrn., Halldór Þorgeirsson, skrifstofustjóri í umhvrn., Axel Nikulásson, sendiráðunautur í utanrrn., og Óttar Freyr Gíslason, deildarsérfræðingur í utanrrn.

Stjórnvöld styðja virka þátttöku frjálsra félagasamtaka í stefnumarkandi fundum á alþjóðlegum vettvangi á sviði umhverfismála. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa að þessu sinni hlotið fjárhagslegan stuðning til þátttöku og er Árni Finnsson fulltrúi þeirra á þinginu. Megináherslur sendinefndarinnar á fundinum er að stuðla að niðurstöðu í þeim málum sem lúta að undirbúningi fyrir gildistöku Kyoto-bókunarinnar. Sendinefndin mun einnig leggja áherslu á mikilvægi þess að undirbúa næstu skref í loftslagsmálum eftir fyrsta skuldbindingartímabil bókunarinnar 2008--2012 og mikilvægi endurnýjanlegrar orku og tækniþróunar í því sambandi. Gott dæmi um slíka tækniþróun er þróun vetnistækninnar.

Fram kom í fyrirspurninni áðan, frú forseti, og gefið í skyn að það væri ekki sérstakur áhugi hjá stjórnvöldum á þessu ferli, en það er nú alls ekki. Ég vil halda því til haga að Ísland var fyrst norrænna ríkja til að fullgilda Kyoto-bókunina. Henni hefur því verið sýndur mikill áhugi hér á landi á vettvangi stjórnmálanna.

Í þriðja lagi er spurt: Mun Ísland taka þátt í að beita Rússa þrýstingi um að þeir fullgildi Kyoto-bókunina? Ég vil af þessu tilefni taka fram að yfirlýsing efnahagsráðgjafa Pútíns er fyrst og fremst hans persónulegu skoðanir sem hann hefur áður látið í ljós, m.a. í tengslum við ráðstefnu um loftslagsmál í Moskvu í september sl. og hér er því ekki um formlega afstöðu ríkisstjórnar Rússlands að ræða. Það finnst mér jákvætt. Það á sér stað geysilega mikil umræða um Kyoto-bókunina í Rússlandi um þessar mundir og rétt er að skoða þessa yfirlýsingu efnahagsráðgjafans í því ljósi. Og sú umræða stendur m.a. yfir núna vegna yfirstandandi kosningabaráttu en kosningar til Dúmunnar fara fram bráðlega. Það má vel vera að þessi yfirlýsing hafi eitthvað minna vægi fyrir vikið.

Fulltrúi Rússlands sem nú er í Mílanó á loftslagsfundinum hefur staðfest á óformlegum samráðsfundum í morgun að efnahagsráðgjafi Pútíns tali ekki fyrir hönd ríkisstjórnar Rússlands og að engar efnislegar breytingar hafi orðið á afstöðu Rússlands í þessu tilliti. Við Íslendingar munum, frú forseti, taka þátt í því með öðrum þjóðum á fundinum í Mílanó í næstu viku, að beita Rússa almennum þrýstingi til að auka líkurnar á því að þeir fullgildi bókunina, en við höfum verið þátttakendur í svokölluðum regnhlífarhópi þar sem Rússar sitja við borðið. Og við höfum ávallt haldið því til haga þar að við teljum mikilvægt að Kyoto-bókunin gangi í gildi.

Ég lít því þetta mál nokkuð alvarlegum augum þrátt fyrir að hér sé ekki um formlega afstöðu Rússa að ræða. Um er að ræða háttsettan ráðgjafa sem kemur fram með mjög afdráttarlausa yfirlýsingu um að Rússar ætli ekki að fullgilda bókunina. Það er alveg ljóst að ef þeir gera það ekki, þá er bókunin fallin um sjálfa sig af því Bandaríkjamenn hafa farið frá, þeir eru með 36% af losuninni, Rússar eru með 17%, samanlagt er það yfir 53% miðað við tölurnar og það þarf 55% losun bak við þau ríki sem fullgilda svo bókunin taki gildi. Ef báðar þessar stóru þjóðir sem menga svona mikið hlaupa frá bókuninni, þá tekur hún ekki gildi og það er mjög alvarleg staða að mínu mati og mun minnka líkurnar á því að þjóðir heims taki á hinum stóra sínum við að hemja losun gróðurhúsalofttegunda og mun líka minnka líkurnar á því að það verði sterkur hvati til þess að auka tækniþróun, m.a. gagnvart endurnýjanlegum orkugjöfum. Ég tek þessi skilaboð sem svo að mér finnst þau vera alvarleg, en það er ekki öll von úti enn af því þetta er ekki formlegt svar Rússlands.