Þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:38:07 (2461)

2003-12-03 15:38:07# 130. lþ. 41.7 fundur 379. mál: #A þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Í máli hennar kom í ljós að íslenska sendinefndin fer þarna með umtalsvert hlutverk á ráðstefnunni og því ber að sjálfsögðu að fagna að við skulum vera þarna í nokkurs konar framvarðarsveit. En ástæður spurninganna um hvernig þátttöku Íslands sé háttað lúta að því að það er skoðun mín að lýðræðislega kjörnir fulltrúar á Alþingi, t.d. hv. þingmenn sem starfa í umhvn. Alþingis, ættu auðvitað að vera þarna til staðar. Og þá vil ég sérstaklega hafa í huga þingmenn frá stjórnarandstöðunni því þarna er verið að taka pólitískar ákvarðanir. Íslensk stjórnvöld fara þarna með talsvert hlutverk eins og komið hefur fram og hafa talsvert vald til að móta ákvarðanatöku og móta umræðuna. Ég tel því mjög mikilvægt að lýðræðislega kjörnir fulltrúar fái aðild og aðgang að þessu. Ég hef svo sem reynt það á síðasta kjörtímabili að fá aukið fjármagn fyrir þingmenn til að sækja fundi og ráðstefnur af þessu tagi en hef ekki haft árangur sem erfiði í sjálfu sér enn þá og ég auglýsi eiginlega eftir stuðningi hæstv. umhvrh. í þeim efnum að lýðræðislega kjörnir fulltrúar fái meira vægi í sendinefndum af þessu tagi, það séu ekki bara embættismenn sem fari með svo mikilvæg hlutverk. Ég fagna því hins vegar að Náttúruverndarsamtök Íslands skuli eiga þarna fulltrúa og umhvrn. skuli hafa komið að því máli.

Varðandi Rússa og það hvað málin gætu verið í miklu uppnámi með afstöðu þeirra, þá er það auðvitað dagljóst að Bandaríkjamenn hafa sett þjóðir heims í þennan bobba. Og þó ég fagni því núna að íslensk stjórnvöld ætli að beita Rússa þeim þrýstingi sem mögulegt er og sameinast þar öðrum löndum sem beita þeim þrýstingi má líka gagnrýna íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki talað tæpitungulausar yfir hausamótunum á Bandaríkjamönnum á sínum tíma sem eru flúnir frá.