Þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:40:20 (2462)

2003-12-03 15:40:20# 130. lþ. 41.7 fundur 379. mál: #A þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Við töluðum tæpitungulaust þegar Bandaríkjamenn fóru frá borðinu. Við hörmuðum það mjög og það kom fram bæði hér á Alþingi ef ég man rétt og í fjölmiðlum. Það var mál sem við tjáðum okkur um og okkur þótti mjög leitt að þeir skyldu fara frá borðinu. Og það er alveg rétt að það gaf fleirum færi á að fara frá borðinu. Ef Rússar fara líka frá borðinu spyr ég mig um fleiri ríki af því þá geta komið fram fleiri sjónarmið um að skert samkeppnisstaða sé á milli þjóða o.s.frv. Þetta er því hættulegt fordæmi sem við höfum séð.

En varðandi það að þessi ráðgjafi sé ekki með fast land undir fótum og á hvaða fundi þetta kom fram í morgun, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði um, þá stendur núna yfir undirbúningsfundur í Mílanó vegna 9. aðildarríkjaþings loftslagssamningsins þar sem fyrst er embættismannafundur og síðan hittast ráðherrarnir í næstu viku. Það var á slíkum fundi í morgun, óformlegum fundi, þar sem þetta kom fram hjá rússnesku fulltrúunum að hér væri um persónulega skoðun ráðgjafans að ræða en ekki um formlega afstöðu Rússa, ekki opinberlega formlega afstöðu. Þetta eru upplýsingar sem við höfum frá þeim íslensku aðilum sem eru í Mílanó núna um þessar mundir.

Það að þingmenn fái meira vægi á þessum fundum er auðvitað mál sem Alþingi sjálft verður að taka upp. En a.m.k. hef ég reynt að halda utan um íslensku sendinefndirnar þegar þær hafa verið með á svona stórum fundum, eins og Jóhannesarborgarfundinum, þar sem við höfum fundað reglulega með íslensku sendinefndunum og mér finnst það jákvætt að aðilar séu þar til staðar, kynni sér málin og taki þátt í umræðum.

En ég vil ítreka, frú forseti, að það eru mjög óvissir tímar fram undan vegna Kyoto-bókunarinnar og vegna þessara skilaboða sem við fáum frá háttsettum ráðgjöfum þannig að manni er bara um og ó. Búið er að leggja geysilega vinnu í þetta mál. Þetta er mikilvægt. Hitastig er að hækka á jörðinni. Og svo sannarlega vildi ég sjá fullgildingu á Kyoto-bókuninni sem fyrst.