Færsla Hringbrautar í Reykjavík

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:45:36 (2464)

2003-12-03 15:45:36# 130. lþ. 41.8 fundur 172. mál: #A færsla Hringbrautar í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson spyr hvað líði færslu Hringbrautar.

Málefnið færsla Hringbrautar er ekki nýtt af nálinni. Ekki er ofsögum sagt að undirbúningur hefur tekið langan tíma. Þessi færsla var partur af samkomulagi sem var gert á milli ríkisins og borgaryfirvalda og tengdist það framkvæmdum á landspítalalóðinni m.a. Í dag er staða þessa máls sú að mikill tími hefur farið í vinnu við deiliskipulag og hefur sú vinna öll dregist mjög mikið. Niðurstöðu deiliskipulagsins er því enn þá beðið. Þrátt fyrir það hefur samráðshópur Vegagerðarinnar og borgarverkfræðings í Reykjavík látið verkhanna nýja Hringbraut frá Rauðarárstíg og vestur úr. Framkvæmdin hefur verið samþykkt af Skipulagsstofnun í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. En ástæða er til þess að vekja athygli á því að þarna er um mjög viðkvæmt svæði að tefla og þess vegna e.t.v. ekki óeðlilegt að það taki nokkurn tíma fyrir skipulagsaðila að komast að niðurstöðu, finna lausn sem er eðlileg í þessu umhverfi. Þetta er partur af miðborg höfuðborgarinnar og þarna er svæði sem þarf mjög að líta til í því samhengi.

Inneign vegna verksins og fyrirhugaðra framkvæmda var um síðustu áramót 107 millj. kr. Fjárveiting ársins 2003 er 50 millj. og árið 2004 166 millj. og 2005 599 millj. Auk þess var ætlað viðbótarfé í verkið á þessu ári 200 millj. til þess að hraða framkvæmdum, koma verkinu af stað og er gert ráð fyrir 100 millj. kr. á árinu 2004 samkvæmt samgöngu\-áætluninni. Samtals eru því til ráðstöfunar til framkvæmda á Hringbraut og raunar Miklubraut ríflega 1.300 millj. kr. Því skortir ekki fjármuni til þess að þessi framkvæmd geti farið af stað og henni megi ljúka á sem skemmstum tíma.

Talið er að kostnaðurinn við þetta verk sé á bilinu 1.000--1.100 millj. kr. og það er heimild til þess og það er hluti af samgönguáætluninni. Það var gert ráð fyrir að hluti þeirrar fjárveitingar sem ég hef sagt hér frá gengi síðan til framkvæmda við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Samkvæmt samgönguáætluninni og samkvæmt fjárheimildum okkar í dag er gert ráð fyrir verulegum fjármunum til þess að framkvæma úrbætur á þessu svæði.

Það er von okkar í samgönguráðuneytinu að koma megi þessum framkvæmdum sem allra fyrst af stað. Ég geri ráð fyrir því að útboð fari fram fljótlega eftir næstu áramót þannig að á næsta ári verði unnið þarna fullum fetum. Fjármuni mun ekki skorta til þess að hægt verði að framkvæma þetta á sem allra skemmstum tíma.