Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:10:28 (2473)

2003-12-03 18:10:28# 130. lþ. 41.9 fundur 173. mál: #A gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Framsfl. fyrir að ýta svona hressilega við hæstv. samgrh. Eins og fram hefur komið fyrr í dag er ekki vanþörf á því að halda honum við efnið því honum er miklu hugnæmari samgöngubætur á öðrum stöðum landsins en hér í höfuðborginni. Hæstv. samgrh. virtist velkjast í vafa um hvaða leið væri farsælast að fara. Má ég, herra forseti, gefa honum eitt ráð í veganestið? Hæstv. ráðherra á að velja þá leið sem er best fyrir öryggi Reykvíkinga. Það hefur nefnilega komið í ljós á allra síðustu mánuðum í samantektum sem nú liggja fyrir að það er hægt að fjárfesta í heilsu og mannslífum. Það hefur komið í ljós að banaslysum og alvarlegum líkamsslysum vegna slaks umferðaröryggis í Reykjavík er að fækka stórkostlega vegna þess að það er búið að fjárfesta í samgöngubótum. Það er það sem hæstv. ráðherra á að hafa fyrst og fremst til hliðsjónar.