Sundabraut

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:15:40 (2476)

2003-12-03 18:15:40# 130. lþ. 41.10 fundur 174. mál: #A Sundabraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 176 hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um Sundabraut í Reykjavík. Eins og menn vita hefur það verk lengi verið í undirbúningi. Fram fór ákveðin forvinna á árunum 1996 og 1997 þar sem skoðaðar voru fimm leiðir við þverun Kleppsvíkur. Á árunum 1997--1999 var sjónum einkum beint að svokallaðri ytri og innri leiðum, þ.e. sem áður voru þá leið I og III og síðan hefur verið unnið að frekari skoðun þótt mönnum þyki heldur hægt ganga í þeim efnum.

Ytri leið svokölluð gerir ráð fyrir því að Sundabraut tengist Sæbraut við Holtaveg og geti ýmist verið hábrú, jarðgöng eða botngöng og er áætlaður kostnaður við þá framkvæmd 10--15 milljarðar kr.

Hins vegar er innri leið sem gerir ráð fyrir að Sundabraut verði að mestu leyti lögð á fyllingum og það er sú leið sem Vegagerðin hefur verið fylgjandi.

Eins og hv. þingmenn vita er gert ráð fyrir fjárveitingu til þeirrar framkvæmdar á samgönguáætlun. Hér er auðvitað um gríðarlega stórt verkefni að ræða og ákaflega mikilvægt, ekki bara fyrir íbúa Reykjavíkurkjördæmanna heldur sömuleiðis fyrir alla þá sem eiga leið inn og út úr borginni.

Ég verð hins vegar að segja að mér finnst heldur hafa þokast síðustu missirin. Þess vegna spyr ég hæstv. samgrh.: Hvað líður undirbúningi að gerð Sundabrautar í Reykjavík?