Sundabraut

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:26:05 (2481)

2003-12-03 18:26:05# 130. lþ. 41.10 fundur 174. mál: #A Sundabraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þetta er geysilega stór og mikilvæg framkvæmd og brýn fyrir allt landið. Við vitum að vegakerfið við höfuðborgina er að springa. Erfitt er að komast út úr borginni og inn í hana á álagstímum. Þetta er því mjög nauðsynlegt verk sem verið er að fara í. Og þetta er dýr framkvæmd en það má ekki bara hugsa um að fara ódýrustu leiðina þegar vegarstæðið er ákveðið.

Ljóst að borgaryfirvöld og bæði meiri og minni hluti voru á því að fara ytri leiðina, það er vitað, a.m.k. fyrir síðustu kosningar. Og við verðum líka að hugsa til öryggismálanna. Ytri leiðin er öruggari miðað við það hvar hún kemur inn í borgina og þess vegna ef þarf að fara að taka afstöðu, þá þarf að gera umhverfismat á báðum leiðum, þannig að auðveldara verði að taka endanlega afstöðu um það hvar brúin eða leiðin á að liggja.

Ég hvet því hæstv. ráðherra eins og ég hef gert áður að láta gera umhverfismat á báðum leiðunum.