Farsímakerfið

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:34:19 (2485)

2003-12-03 18:34:19# 130. lþ. 41.11 fundur 221. mál: #A farsímakerfið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:34]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég dreg í efa orð hv. þingmanns um að farsímaþjónusta brenni heitast á íbúum landsbyggðarinnar þó að það séu margir áhugasamir um að farsímakerfið verði bætt.

Vegna þessarar fsp. sem og margra annarra sem komið hafa fram á Alþingi skal tekið fram, eins og ég hef marg\-ítrekað, að Landssími Íslands er hlutafélag sem lýtur reglum einkaréttar og starfar á hörðum samkeppnismarkaði. Réttur þingmanns til upplýsinga nær aðeins til þeirra málefna sem geta talist opinber. Stjórnir hlutafélaga sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins meta hvaða upplýsingar um rekstur og starfsemi félagsins skuli fara leynt vegna viðskiptahagsmuna þess.

Hér er fyrirspyrjandi að leita svara við spurningum sem Landssími Íslands telur að ekki verði upplýst um að fullu vegna hagsmuna þess á samkeppnismarkaði. Svör Landssíma Íslands við þessari fsp. sem og öðru frá ráðuneytinu er lúta að GSM-kerfinu verða því aðeins almenns eðlis.

Hv. þm. spurði í fyrsta lagi: Hversu margar GSM-stöðvar hefur Landssíminn sett upp til að þétta farsímakerfið sl. fjögur ár?

Fyrirtækið hefur fjárfest vel á annan milljarð í dreifikerfinu á síðustu fimm árum þannig að þarna er um að ræða verulega miklar fjárfestingar.

Í annan stað spyr hv. þm.: Hver eru áform Landssímans um uppsetningu farsímastöðva næstu tvö árin?

Af hálfu Landssíma Íslands hefur að undanförnu verið lögð áhersla á að efla og styrkja dreifikerfið þar sem fyrirtækið er nú þegar með starfsemi, þ.e. á þéttbýlustu svæðunum, auk þess sem það hefur komið upp sendum við helstu orlofshúsasvæðin.

Landssími Íslands hefur ekki frekar en önnur fjarskiptafyrirtæki gefið upp áætlanir um að stórbæta skilyrði GSM-farsímanotenda enda er erfitt að finna möguleika til stækkunar sem líklegir eru til að skila fyrirtækinu fullnægjandi arðsemi samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: Hvenær má búast við að GSM-samband náist alls staðar á þjóðvegi 1?

Samkvæmt upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækjunum virðast ekki vera uppi fyrirætlanir um frekari uppbyggingu dreifikerfisins á þjóðvegi 1 að öllu óbreyttu. Vegagerðin er hins vegar með tilraunverkefni í gangi í samvinnu við Verkfræðistofnun Háskóla Íslands sem miðar að hagkvæmari lausnum í þéttingu GSM-sambands við þjóðveg 1 og á fjölförnum fjallvegum landsins. Framhaldið ræðst af niðurstöðu verkefnisins sem hugsanlega gæti leitt til til útboða síðar.

Það er alveg ljóst að farsímakerfið er afar mikilvægt fyrir vegfarendur vegna öryggismála, ekki síst að vetri, þannig að auðvitað hljótum við að vonast til að tæknin hjálpi okkur og auðveldi þar með símafyrirtækjunum að byggja upp kerfi sín. Samgrn. mun fylgjast grannt með þessu og hvetja til aukinnar útbreiðslu. Það liggur alveg fyrir að það er vilji minn að uppbygging kerfisins verði sem hröðust. Þess vegna hefur Vegagerðinni verið falið að leita leiða til að finna hagkvæmari lausnir. Fjarskiptafyrirtækin verða síðan að feta í það fótsporið og ég vænti þess að á þessu verði ráðin bót hvað varðar fjölfarnar leiðir og fjölfarna ferðamannastaði fyrir utan mesta þéttbýlið allt í kringum landið þannig að við getum búið við sem allra besta og öruggasta þjónustu á sviði fjarskiptanna.