Nettenging lítilla byggðarlaga

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:55:32 (2493)

2003-12-03 18:55:32# 130. lþ. 41.12 fundur 350. mál: #A nettenging lítilla byggðarlaga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:55]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft við mikilvægu byggða- og atvinnumáli og þakka ég hv. málshefjanda og ráðherra fyrir umræðuna.

Kjarni málsins er sá að hið opinbera verður að koma að því, þ.e. Landssími Íslands, að tryggja hinum smærri og dreifðu byggðum fullt aðgengi að háhraðanettengingu. Þá gildir einu hvort menn fara með það í gegnum örbylgjusendi eða öðruvísi. Sú aðferð var notuð í Grímsnes- og Grafningshreppi og var kynnt vel í Morgunblaðinu. Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri þar segir það gjörbreyta öllum búsetuskilyrðum í því sveitarfélagi. Ef við tökum dæmi af Hrísey, þar sem það kostaði 1,5 millj. að koma tengingu á, spyr ég ráðherra: Finnst honum sanngjarnt að íbúarnir þar beri þann kostnað einir? Mitt svar er nei, að sjálfsögðu ekki. Það á að tryggja öllum litlu byggðunum, dreifðu byggðunum öllum, aðgengi að háhraðaneti, rétt eins og vatni og rafmagni í gamla daga. Þetta er algjört lykilatriði.