Nettenging lítilla byggðarlaga

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:57:58 (2495)

2003-12-03 18:57:58# 130. lþ. 41.12 fundur 350. mál: #A nettenging lítilla byggðarlaga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:57]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, og þeim þingmönnum sem tóku hér þátt í umræðunni.

Það má ekki misskilja mál mitt þannig að ég sé ekki tilbúinn til að gefa nýjum vaxandi fyrirtækjum séns. Fsp. mín var alls ekki um það og ég tek skýrt fram að það eru þau sprotafyrirtæki sem ryðja veginn meðan stóri bróðir, Landssíminn, sat eftir og boraði kannski bara í nefið á sér eða klóraði sér í hausnum.

Það er grundvallaratriði að hér fleygir fram nýrri tækni og tæknilausnir verða ódýrari og ódýrari og geta passað vel fyrir þessi litlu byggðarlög sem ég hef verið að tala um.

Annað er svo aftur fjármagnið í að kaupa þessi tæki og tól til að setja þau upp á viðkomandi stað, hvort sem menn ætla að fara í gegnum gervihnött eða með örbylgjusambandi með einu eða öðru fyrirtæki, mér er alveg sama hvaða fyrirtæki það er. Þetta er grundvallaratriði.

Þess vegna ítreka ég þá spurningu sem ég lagði fyrir í fyrri ræðu minni, hvort hæstv. ráðherra vilji ekki beita sér fyrir því innan ríkisstjórnar að Landssíminn eða með sérstöku fé frá ríkissjóði, kannski af arðgreiðslum Landssímans til ríkissjóðs, verði gengið í það sem þarf í þessum 30--50 litlu þéttbýlisstöðum sem eftir eru. Þetta er grundvallaratriði.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég reikna ekki með því og hef aldrei látið mér detta í hug að það þyrfti að setja af stað nýja verkefnisstjórn til að vinna í þessu máli. Það þarf ekki fleiri nefndir. Landsbyggðarfólk sem bíður eftir þessari tæknibyltingu lifir ekki á fleiri nefndum eða fleiri skýrslum. Landsbyggðarfólk bíður eftir aðgerðum og það er það sem við erum að kalla eftir, virðulegi forseti.