Nettenging lítilla byggðarlaga

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:00:07 (2496)

2003-12-03 19:00:07# 130. lþ. 41.12 fundur 350. mál: #A nettenging lítilla byggðarlaga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:00]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er bæði skemmtilegt en umfram allt skondið hvernig hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar reyna að hlaupa uppi og reyna að komast fram úr þróuninni. Það er þekkt að fjarskiptabyltingin á Íslandi er ævintýri líkust (Gripið fram í.) og þar hefur hið öfluga fyrirtæki okkar, Landssími Íslands, verið í fararbroddi eins og eðlilegt er. Og það er viðurkennt að á Íslandi er einhver besta uppbygging fjarskipta á byggðu bóli, mesti internetaðgangur og mesta notkun á internetinu, mesta notkun farsíma og útbreiðsla (KLM: ... sammála þér.) þannig að þetta hlýtur að þýða það --- og nú ókyrrast hv. þingmenn --- að okkur hefur tekist býsna vel að byggja upp þetta kerfi. Engu að síður viljum við hafa þessa þróun hraða og við viljum sjá fram í tímann. Þess vegna finnst mér ómerkilegt af hv. þingmönnum að gera lítið úr því að ég hef gert grein fyrir því í þessari umræðu að við séum að undirbúa næstu skref með því að kalla fleiri til, fá umræður á vettvangi samgrn. og setja upp verkefnisstjórn sem leggur á ráðin með stjórnvöldum um það hvernig við eigum að hugsa til framtíðar, ekki til þess að leysa vandamál dagsins heldur til þess að horfa fram til næstu ára og næstu áratuga og setja markmið um þjónustu á sviði fjarskipta.

Mér er alveg ljóst og sennilega miklu betur en hv. þingmönnum, mörgum hverjum, að það þarf að bæta úr þessum fjarskiptum og að því er unnið og ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því að svo verði áfram, en við eigum ekki að taka fram fyrir hendurnar á fólkinu sem er að bjarga sér sjálft. Af hverju skyldum við gera það? Ég fagna því og var viðstaddur í Grímsnes- og Grafningshreppi í gær þegar íbúarnir voru að fagna ákvörðun sinni um að byggja upp í samstarfi við fjarskiptafyrirtæki þessa fínu, öflugu þjónustu. (Forseti hringir.) Við eigum að fagna slíkum ákvörðunum en ekki koma hingað og heimta það að ríkissjóður gangi í verkin.