Gangagerð og safnvegaframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:05:50 (2498)

2003-12-03 19:05:50# 130. lþ. 41.13 fundur 363. mál: #A gangagerð og safnvegaframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:05]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn og að fá tækifæri til þess að svara henni.

Fyrst er spurt: ,,Hvenær mun gangagerð í gegnum Almannaskarð hefjast og hvenær er fyrirhugað að opna göngin?``

Því er til að svara að jarðgöng um Almannaskarð verða boðin út núna fyrir miðjan desember árið 2003. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist fyrir mitt árið 2004 og það er miðað við að göngin verði opnuð fyrir umferð í júnímánuði árið 2005.

Í annan stað er spurt: ,,Hyggst ríkisstjórnin auka fjárveitingar til framkvæmda við safnvegi til sögufrægra staða sem búa við vegleysur og ef svo er, hvenær? ``

Safnvegir teljast til þjóðvega og eru skilgreindir á eftirfarandi hátt í 8. gr. vegalaga:

,,Safnvegir tengja einstök býli, stofnanir o.fl. við tengivegi eða stofnvegi.

Til safnvega teljast:

Vegir að öllum býlum sem búseta er á og ekki eru tengd með stofnvegi eða tengivegi. Vegur samkvæmt þessum lið skal þó aldrei teljast ná nær býli en 50 m ef hann endar þar eða vera inni í þéttri byggð ef vegakerfi þar er styttra en sem svarar 50 m fyrir hvert býli eða íbúð.

Vegir að kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum í dreifbýli og í þéttbýli með minna en 200 íbúa.``

Samkvæmt framangreindri tilvitnun er ekki heimilt að taka vegi að sögufrægum stöðum í tölu safnvega nema þar sé búseta og þar af leiðandi ekki heimilt að veita fé af fjárveitingum til safnvega til slíkra vega að óbreyttum lögum. Ef um eyðibýli er að ræða er heimilt að veita fé til vegar að slíkum stað af fjárveitingum til svokallaðra styrkvega, sbr. 16. gr. vegalaga. Um slíkt þarf að sækja sérstaklega og verða umsækjendur að taka að sér veghald viðkomandi vega.

Hvað varðar fjármuni til uppbyggingar þessa vegakerfis þá er vitnað til þess sem samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Það er alveg ljóst að við þyrftum að leggja meiri fjármuni til uppbyggingar tengivega sérstaklega svo og margra safnvega einnig. En þarna er úr vöndu að ráða. Við höfum lagt áherslu á að bæta vegakerfið þar sem umferðin er mest og það má segja að það sé forgangsmál, þó að umferð sé verulega mikil á ýmsum tengivegum sem nauðsynlegt er að bæta úr. En fjárveitingar hverju sinni ráða þessari för og samgönguáætlunin skiptir síðan upp þeim fjármunum sem fjárlög ákveða hverju sinni.