Gangagerð og safnvegaframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:13:24 (2502)

2003-12-03 19:13:24# 130. lþ. 41.13 fundur 363. mál: #A gangagerð og safnvegaframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Fyrst vil ég nefna að það er rétt sem fram kom hjá hv. 1. þm. Suðurk. að framkvæmdaáform við jarðgöngin í Almannaskarði benda til þess að þau verði kostnaðarsamari en fyrstu matsáætlanir gerðu ráð fyrir. Við gerðum ráð fyrir því að á þessu og næsta ári væru 500 millj. sem sérstök fjárveiting, en auk þess voru fjárveitingar inni í vegáætluninni fyrir sem gert var ráð fyrir að nýta til endurbóta á veginum um Almannaskarð þannig að þar er viðbótarfjármagn sem mun nýtast. Og það er alveg ljóst að gerðar verða ráðstafanir til þess að hægt verði að ljúka þessum göngum á hinum tilsetta tíma, í júnímánuði 2005. En auk þess vonum við svo sannarlega að þarna sjái verktakar sér leik á borði að finna ódýra lausn sem gæti leitt til þess að kostnaðurinn yrði minni.

Hv. þingmenn og þá sérstaklega hv. þm. Jóhann Ársælsson fagnaði því að kosningaloforð væru að verða að veruleika. Ég vil minna þingmenn á það að kjörtímabilið er ekki búið, það er rétt að byrja, og mikið óðagot og mikil tilætlunarsemi að ríkisstjórnin sé svo afkastamikil að hún ljúki öllum áformum sínum á fyrstu mánuðum kjörtímabilsins þannig að ég held að menn ættu að spyrja að leikslokum. Það er vel undirbúið allt saman hjá ríkisstjórninni sem á að gera og það mun birtast í fyllingu tímans sem stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir.