Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:23:23 (2505)

2003-12-03 19:23:23# 130. lþ. 41.14 fundur 222. mál: #A Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:23]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Þær 100 millj. sem nú eru áætlaðar í fjárlögunum eru eingöngu til að halda í horfinu. Það varð að forgangsraða og styrking rekstrargrunns stofnunarinnar varð að hafa forgang til að halda henni í horfinu. Það er ekki nóg að kaupa segulómtæki, það þarf að reka það. Þess vegna er eðlilegt að þessir tveir þættir hafi verið settir í forgang.

Þá kemur að því að byggja upp og bæta þjónustuna. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, að nefnd er að störfum til þess að móta framtíðarsýn sjúkrahússins. Þar eru tvær hæðir óinnréttaðar og verið að skoða hvaða starfsemi eigi að fara þar inn. Ýmislegt hefur breyst í áformum um nýtingu á þessum hæðum eftir að Íslensk erfðagreining féll frá samningi sínum um uppbyggingu á Akureyri eins og til stóð, því miður má segja. Menn höfðu horft til uppbyggingar Íslenskrar erfðagreiningar á einni hæð. Nú þarf að nýta þessa hæð til annarra hluta og ég vona að við munum sjá, annaðhvort í fjáraukalögum eða í næstu fjárlögum, verulegar upphæðir til þessara þátta. Það er alveg ljóst að það skiptir þjóðarbúið og heilbrigðisþjónustuna miklu að auka möguleika Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þar sem starfsmennirnir eru til staðar. Þar væri hægt að þjóna fólki vel og með því létta á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi sem er alveg að springa.